14.11.1937


Það er tilvalið að staldra aðeins við í dag og minnast þess að þegar félagið var stofnað, en það var einmitt þennan dag fyrir 82 árum síðan.
Það byrjaði þannig að Pétur Þ. Gunnarsson kaupmaður í Reykjavík sá mann með heyrnartæki á ferð sinni til Frakklands.
Hann kom heim og fékk til liðs við sig fólk sem lét sig málefnið varða. Hann og fleira áhugafólk um heyrn spurðu sig í framhaldinu, hvort ástæða væri til að sætta sig við að heyra bara hálfa heyrn. Þau stofnuðu félagið Heyrnarhjálp 14. nóvember 1937 til að vinna að framgangi þessara mála.
Í mörg ár var Heyrnarhjálp eina félagið sem vann í okkar málaflokki og gerði það í marga áratugi m.a. með innflutningi og sölu heyrnartækja.
Árið 1979 tók Heyrnar- og talmeinastöð við keflinu og við snérum okkur meira að fræðslu og baráttumálum heyrnarskertra.

Fæstir leiða hugann að því að heyrnarskerðing er einn algengasti heilsufarskvilli sem hrjáir fólk sem komið er um og yfir miðjan aldur.
Ef þessi kvilli er ekki meðhöndlaður hefur hann mikil áhrif á lífsgæði fólks.
Þannig þarf það ekki að vera ef skerðingin uppgötvast nógu fljótt og ef brugðist er við í tíma.
Þessi heyrnarskerti hópur stækkar og yngist ár frá ári þar sem unga fólkið býr við miklu meira hávaðaáreiti en við gerðum sem nú erum um og yfir  miðjum aldri.
Við í Heyrnarhjálp höfum reynt að vekja athygli á því að flestir fara allt of seint að nota heyrnartæki.
Því fyrr þess betra segjum við en almennt er talið að fólk fari u.þ.b. 10 árum of seint að huga að þessum vandamálum sínum.
Við lítum á það sem okkar hlutverk að vekja athygli á lausnum og leiðum til lífshamingju.
Látum ekki eigin fordóma taka okkur úr leik.

Markmið Heyrnarhjálpar

er að vekja athygli á þeirri fötlun sem heyrnarskerðing er og á þá einangrun sem henni fylgir ef ekki er brugðist rétt við.

…að deila þekkingu á hjálpartækjum tengdum heyrn og ráðleggingum til fólks svo það geti haldið áfram að vera virkir samfélagsþegnar.

… að deila fróðleik til ungra foreldra og ungs fólks um hávaðaskemmdir og hvetja það til að vernda heyrn sína og barna sinna.

…að berjast gegn fordómum með því að auka sýnileika og gefa út blöð og upplýsingabæklinga til fróðleiks.

… að berjast fyrir menntun rittúlka og ná sömu stöðu og nágrannalöndin í þeirri þjónustu við heyrnarskerta að þeir eigi rétt á rittúlkun við ýmsar athafnir og við ýmis tækifæri.

…við berjumst fyrir því að réttindi heyrnarskertra séu virt og aukin til jafns við aðra sambærilega fötlunarhópa.

Við viljum líka að einstaklingar með heyrnarfötlun fái fullt valfrelsi um hvaða túlkunarform þeir velja hverju sinni.