Ingó 008

Fjölmiðlalög – fyrir hverja?

Aðgengi að prent- og ljósvakamiðlum. Hvað þýðir það? Það þýðir að allir hafi sama rétt til að njóta þess sem þar birtist. Flestum borgurum eru tryggð þessi réttindi, öðru máli gegnir um heyrnarskerta, heyrnarlausa og sjónskerta. Þeir hafa ekki sama aðgengi að fjölmiðlum og aðrir.

Í þessari grein er einkum litið til aðgengis heyrnarskertra og heyrnarlausra til þess sem í sjónvarpi birtist.  Í fjölmiðlalögum nr 38/ 2011, segir svo í 30. grein:

Aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndmiðlunarefni.

Þær fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni skulu eins og kostur er leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun. Úrræði til að tryggja aðgengi eru m.a. táknmál, textun og hljóðlýsing“

Hvers konar lagasetning er þetta? Orðalagið „eins og kostur er“ eftirlætur sjónvarpsstöðvum að ákveðan hvenær þess sé kostur og þeim þar með gert kleift að brjóta á rétti einstaklinga til aðgengis.  Hefði ekki verið réttara að í lögunum væri málsgreinin frekar:

„Þær fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni skulu gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun. Úrræði til að tryggja aðgengi eru m.a. táknmál, textun og hljóðlýsing“

Í  tillögu til þingsályktunar um fram­kvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014, þingskjali 682-440. mál. kemur m.a. fram:

EITT SAMFÉLAG FYRIR ALLA.Tryggt verði að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, því sé tryggð vernd og frelsi til að njóta þeirra réttinda og að virðing sé borin fyrir mannlegri reisn þess.“

AÐGENGI. Alþingi ályktar að gott aðgengi sé eitt af lykilhugtökum þegar rætt er um jafnrétti og jafna stöðu allra í samfélaginu, sama hvort átt er við aðgang að upplýsingum eða möguleikum til tjáskipta.

            Upplýsingar er varða almenning skulu vera á því formi að allir geti skilið og tileinkað sér þær og er þá átt við táknmál, textun, punktaletur og auðskilið mál…Til að svo megi verða, verði öll nýjasta tækni nýtt…“

Samkvæmt þessari þingsályktunartillögu, ef hún verður samþykkt, verður ekki annað séð en að það séu sjálfsögð mannréttindi að aðgengi að ljósvakamiðlum sé gott. Hvers vegna er sjónvarpsstöðvum þá ekki gert skylt að gera efnið aðgengilegt fyrir heyrnarskerta/heyrnarlausa? Orðalagið „eins og kostur er“ er óviðunandi þar sem hægt er að túlka það eins og sjónvarpsstöðvum best hentar!  Alls staðar í þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við er textun í mun betra horfi en hér og þar hafa fréttir og aðrar beinar útsendingar verið textaðar í áratugi. Texti nýtist fleirum en bara heyrnarskertum og má þar t.d. nefna nýbúa. Í dag eru 10-15% með skerta heyrn að hluta eða alveg, en það gerir 30-50 þúsund manns hér á landi og búast má við að sú tala eigi eftir að hækka enn frekar.

Þegar litið er til heildarkostnaðar við útsendingar er textun á sjónvarpsefni ekki stór póstur en myndi bæta lífsgæði svo ótal margra sem ekki njóta ótextaðs efnis í dag.

Sjónvarpsstöðvar ættu að vera skyldugar að texta allar útsendingar. Viðurlög við brotum á þeirri skyldu þyrftu að vera þung. Þetta mætti gerast í áföngum t.d. á 2-3 árum. Sjáandi og heyrandi fólki þætti það eflaust skondið að fylgjast með sjónvarpsútsendingum þar sem annað hvort hljóðs eða myndar nyti ekki við.

 

Tryggjum öllum aðgengi að prent- og ljósvakamiðlum.

 

Ingólfur Már Magnússon

Stjórnarmaður í Heyrnarhjálp.