Aðalfundargerð 21.3.2018

Aðalfundur Heyrnarhjálpar

  1. mars 2018, kl. 20:00

Langholtskirkju

 

 

Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Það var fámennt og góðmennt eins og venjulega.

Kosinn fundarstjóri og var Gísl Ólafur Pétursson, tilnefndur fundarstjóra.
Rittúlkur var Þórný Björk Jakobsdóttir að venju og styðst fundargerð við hennar skýrslu.

Kolbrún framkvæmdastjóri flutti skýrslu stjórnar:

Skýrsla Heyrnarhjálpar fyrir starfsárið 2017

 

Síðasti aðalfundur var haldinn  hér þriðjudaginn 12 apríl  2017 kl: 20:00
Á aðalfundinum 2015 voru samþykktar breytingar á lögum  sem m.a. gera ráð fyrir að kjörtímabil stjórnarmanna, fyrir utan formann og varastjórn, sé tvö ár.

Nú er það þannig að þetta skarast og á hverju ári hafa tveir stjórnarmenn lokið sínu kjörtímabili og tveir eiga eitt ár eftir.
Þetta tryggir að það fari ekki allir frá á sama tíma.

Núverandi stjórn er þannig skipuð :

 

Hjörtur Jónsson formaður

Ingólfur Már Magnússon varaformaður – á eitt ár eftir

Þráinn Sigurbjörnsson meðstjórnandi – hefur lokið tveimur árum

Sigrún Magnúsdóttir meðstjórnandi- hefur lokið tveimur árum.
Margrét Friðþjófsdóttir  – á eitt ár eftir.
Atli Ágústsson varamaður
Kristín Margrét Bjarnadóttir  varamaður.

 

Starfsemi Heyrnarhjálpar hefur verið með hefðbundnu sniði síðastliðið ár.

Fundir á landsbyggðinni voru haldnir samkvæmt áætlun stjórnar og voru þeir misvel sóttir, en vel heppnaðir og ánægjulegir.

Að þessu sinni var farið í Fjallabyggð og fundað á Siglufirði 17. október í Sal Skálahlíðar. Síðan var fundað í Vestmannaeyjum 8. Nóvember  og síðast en ekki síst var farið á Höfn í Hornafirði 16. nóvember. Það var geysilega skemmtilegur og fjölmennur fundur og ánægjuleg heimsókn í alla staði.

Við- stjórnarmenn- mættum í Kringluna 11. nóvember til að kynna félagið og vorum þar einn laugardag. Það var gert í tilefni afmælis félagsins en Heyrnarhjálp varð 80 ára þann 14.nóvember.
Við hreiðruðum um okkur á fyrstu hæð og vorum með rittúlk til taks og í sérmerktum bolum. Fyrr en varði var formaðurinn kominn á kaf í heyrnarmælingu með nýja spjaldtölvu félagsins að vopni.
Stjórnarmenn voru duglegir að spjalla við gesti og gangandi og söfnuðumst nokkrir nýir félagar en það er jú markmið okkar að ná til fólks og virkja það í baráttunni.
Ég vil þakka þeim sérstaklega fyrir það.

Okkar árlega rittúlkaða guðsþjónusta var svo  haldin í samvinnu við Langholtskirkju eins og undanfarin ár þann 26. nóvember þar sem „okkar maður“ sr. Jóhanna Gisladóttir þjónaði fyrir altari en Magnús Ragnarsson sá um orgelleik.
Ungt tónlistarfólk í söfnuðnum sá um sönginn.
Þórný Björk Jakobsdóttir rittúlkur sá um textun á efninu.

 

Að venju sendum við okkar fulltrúa á aðalfund ÖBÍ en þeir sem fóru voru Hjörtur formaður Ingólfur Már varaformaður og Kolbrún framkvæmastjóri.
Óhætt er að segja að þessi aðalfundur var ekki eins dramatískur og sá síðasti en nýr formaður var kjörin sem er Þuríður Harpa Sigurðardóttir – fulltrúi frá Sjálfsbjörg Landssambandi hreyfihamlaðra á Íslandi. Við óskum henni velfarnaðar í viðamiklu starfi. Ítarlegt viðtal er við hana í nýjasta Fréttablaði Heyrnarhjálpar.

 

Aðrir fundir og samstarf:

 

Það voru nokkrir  atburðir og fundir sem við við tókum þátt í.

Þar má nefna t.d. tveggja daga sýningu/ kynningu sem Þekkingamiðstöð Sjálfsbjargar stóð fyrir á hjálpartækjum og þar gafst félögum kostur á að kynna starfsemi sína og söluvörur.
Við tókum bás og vorum þarna í tvo daga eða meðan sýningin stóð yfir.
Við fengum margar heimsóknir í básinn og vakti tónskalinn (hávaðaskalinn ) okkar mikla athygli.
Við vorum með Fréttablöðin okkar og buðum upp á fræðslu og spjall.

 

Við sóttum málþing á Grand Hótel sem Þroskahjálp og ÖBI stóðu fyrir þann 16. maí um Sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

 

Annað málþing um Hjalpartæki daglegs lífs var haldið á Hilton Nordica 27.9 af ÖBI en þar var formaðurinn Hjörtur Jónsson með erindi sem hann kallaði ”Margþættur vandi heyrnarskerts fólks”

 

Við áttum góðan fund með Heyrnar-og talmeinastöð Íslands Í byrjun september þar sem fjallað var um þjónustu við einstaklinga með heyrnarskerðingu/ og talmein.
Farið var yfir stöðuna eins og hún blasir við okkur.
Þar kom fram að bæði skortir fjármagn og fagfólk til að ná markmiðum HTI um þá þjónustu sem þeir vilja veita.
Sænskir farandsérfræðingar hjá HTI leysa helsta vandann nú um stundir.

Þeirra vandi er okkar vandi og því höfum við áhyggjur af þessari stöðu.

 

Skömmu eftir þennan fund skipaði svo þáverandi heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé starfshóp um þá þjónustuþætti sem heyra undir Heyrnar-og talmeinastöð.
Ætlunin var  að fara yfir það sem er í boði fyrir fólk með heyrnarmein og hvað betur megi fara í þeim efnum – heilt yfir.
Svo bar við að Heyrnarhjálp var ekki boðið að koma að þessu borði og rataði sú ákvörðun ráðherrans í fjölmiðla. Stjórn Heyrnarhjálpar vildi ekki sætta sig við þessa  framkomu og var ráðherra og starfsmanni starfshópsins send krafa um að við fengjum að koma að þessari umræðu um okkar baráttumál og var það samþykkt.
Ingólfur Már Magnússon var tilnefndu fyrir okkar hönd.
Að loknum  fyrirfram ákveðnum líftíma starfshópsins var samin skýrsla um niðurstöðu sem við gátum ekki samþykkt og því skiluðum við því inn séráliti.

 

Við sóttum málþing um kjaramál sem Málefnahópur ÖBI um kjaramál stóð fyrir 1. nóvember á Grand Hótel.

 

Við greiddum fyrir rittúlkun á ráðstefnum um aðgengismál sem Málefnahópur ÖBI um aðgengismál stóð fyrir. Rittúlkun er ein af okkar helstu aðgengisleiðum til að fylgjast með og fræðast um það sem rætt er á ýmsum vettvangi.
Hagkaup styrkti þetta átak okkar með 300.000,- kr framlagi sem var eyrnarmerkt rittúlkun.

 

 

Útgáfa fréttablaðs:

Fréttablaðið okkar kom út að venju og er það 21. árið í röð sem það kemur út.
Við rétt náðum að koma því í dreifingu fyrir áramótin, en það dróst úr hömlu vegna mikilla anna ritstjórans. Að lokum var þolinmæðin þrotin og fenginn nýr maður til að ganga í verkið.

Sá sem ráðinn var í staðinn  er Helgi Hólm og hellti hann sér í verkefnið af brennandi áhuga og skilaði okkur fínu blaði sem við erum ákaflega ánægð með og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.
Í blaðinu er m.a. fjallað um reynslu tveggja einstaklinga sem bæði fengu kuðungsígræðslu og hve miklu það breytti þeirra lífi. Viðtal við forstjóra HTI, við söluaðila, við lækni og við nýjan formann ÖBI.
Smá umfjöllun um hljóðvist og gildi hennar og rittúlkun sem við reynum að hafa í hverju blaði hjá okkur enda mikil hagsmunamál fyrir heyrnarskerta.

 

 

Erlent samstarf:
Þátttaka í norrænu samstarfi er einnig hluti af hefðbundnu starfi félagsins, en við höfum lengi verið í samstarfi við systurfélög á Norðurlöndunum.
Við sendum  tvo  fulltrúa til Stockholms þann  16-17. mars á leiðtogafund NHS
(Nordiska Hörselskadades Samarbetskommitté)
og til Asker í Noregi 24-27 ágúst 2017 á ársfund og þemadaga NHS.
Félagið gerðist líka aðili að Evrópusamtökum heyrnarskertra EFHOH
( European Federation of Hard Of Hearing ) og einnig að IFHOH ( International Federatin of Hard of Hearing)  en aðild okkar í þessum samtökum eru fyrst og fremst til að auka vægi norrænu félaganna innan þessarra samtaka.

 

 

Innlent samstarf:
Heyrnarhjálp tekur virkan þátt í starfsemi Öryrkjabandalagsins og hafa stjórnar- og félagsmenn lagt sig fram um að sýna ábyrgð og samvinnu í sínum störfum þar.

Hjörtur var í nefnd þar um endurskoðun úthlutunarreglna og auk þess er hann í
Starfshópi Velferðarráðuneytisins um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna (tilnefndur af ÖBÍ)

Hann er einnig í stjórn Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (skipaður af Menntamálaráðherra.)

Sigrún Magnúsdóttir hefur setið  sem okkar fulltrúi í nefnd um snemmtæka íhlutun sem var samstarfsverkefni með HTI ,SHH, Félagi Heyrnarlausra ofl .

Kolbrún og Ingólfur sóttu málþing um aðgengismál utandyra sem haldinn var á Grand Hótel fyrir stuttu. Málefnið var að beita sér m.a. fyrir hagsbótum í aðgengismálum t.d. um aðgengi á flugþjónustu og um textun, auk þess að beita þrýstingi á ráðamenn í samfélaginu.


Stjórn og framkvæmdastjóri vilja svo að lokum þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóg í okkar málum og stutt okkur með framlagi sínu bæði í starfi og málefnavinnu.

Þá viljum við þakka þeim fyrirtækjum sem hafa sýnt okkur velvilja og styrkt okkur með ýmsum hætti. Helst bera að nefna þar Hagkaup fyrir þeirra framlag til rittúlkunar og Heyrnar-og talmeinastöð sem auglýsir alltaf myndarlega í blaðinu okkar og er okkur til halds og traust með eitt og annað.
Þá höfum við átt mjög góð samskipti við starfsfólk HTI sem alltaf er boðið og búið að styðja við starfsemina hjá okkur með ráðum og dáð.

 

 

 

Þá var farið í ársreikninga

Staðan um áramót var nokkuð góð.
Það verður verkefni nýrrar stjórnar að ákveða hvert skal stefna en núverandi stjórn ákvað að einbeita sér að því að greiða niður skuldir  og auka aðgengi að þeirri þjónustu sem mest er sótt til okkar sem er stuðningur og þjónustu í síma.
Þetta höfum við gert og er nú síminn opinn í raun allan sólahringinn en reyndar er fólk mest að hringja á bilinu 9-17 þar sem það er að hringja í skrifstofusímann sem er áframsendur í gsm-símann minn.

Lán sem félagið var með vegna húsakaupa er uppgreitt en það var upphaflega 6 milljónir.

Þá kemur að rekstrarreikning ársins 2017 að félagið var með 16,5 milljón í tekjur á árinu. Langmest af því er styrktarfé frá ríkinu annars vegar og ÖBÍ hins vegar, en einnig tekjur af auglýsingum í blaðinu go styrkir frá fyrirtækjum.

 

Ef við kíkjum á efnahagsreikninginn, sjáið þið að stærsta eign félagsins er Fasteignin Langholtsvegur 111, sem er bókfærð á 20,7 milljónir. Hún er eitthvað verðmætari en það í raun, en þar sem við hyggjum ekki á sölu þá skiptir það kannski ekki máli.

 

Það stendur fyrir dyrum viðhald á fasteigninni. Þannig að á komandi misserum, og vonandi sem fyrst lendum við í einhverjum kostnaði vegna þess, til dæmis að skipta um glugga í hluta húsnæðisins.
Reikningar samþykktir samhljóða.

Tillaga um félagsgjald – óbreytt 2000,- kr.

 

Lagabreytingar eru engar.

 

Kosningar samkvæmt 5. Grein.
Nú er kosinn formaður til eins árs, Hjörtur Jónsson í kjöri eins og áður og þar sem engin önnur tillaga kemur fram, kosinn einróma með lófataki.

 

Þá er það þannig að Þráinn Sigurbjörnsson og Sigrún Magnúsdóttir hafa lokið tveggja ára tímabili sínu í stjórn og þá þarf að kjósa 2 nýja í stað þeirra.
Þeir hafa gefið kost á sér, Stefán Benediktsson og Sturla Þengilsson.
Ekki fleiri gefa kost á sér og þeir kjörnir með lófataki.

 

Svo þarf að kjósa 2 varamenn, tillaga er um Sigrúnu Magnúsdóttur og Kristínu Margréti Bjarnadóttur og þær kjörnar einróma.

 

Þá er komið að því að kjósa 2 skoðunarmenn reiknigna til eins árs.
Það eru hér tillaga um Sigurjón Einarsson, og Tómas Hallgrímsson, til eins árs. skoðunarmenn reikninga til vara, eru Daniel G. Björnsson og Sigurður Einarsson.

Þeir kjörnir allir án mótframboða.

 

Önnur mál,
Orðið gefið laust:

Hjörtur formaður sagði frá nokkuð stóru og spennandi verkefni hjá félaginu á árinu sem framundan er, en það er að í ár heldur Heyrnarhjálp ársfund og þemadaga fyrir norrænu félögin, fyrir NHS. Kannski svona til að þið áttið ykkur á því hvernig þetta er uppbyggt allt saman, þá eru félög heyrnarskertra í öllum norðurlöndum og í sumum löndum fleiri en eitt og þau hafa sameinast um formlegan samstarfsvettvang sem heitir NHS.

 

Þessi formlegi samstarfsvettvangur norrænu félaganna meðala annars hefur það hlutverk að vinna fyrir norrænu ráðherranefndina og þetta er ekki síður mikilvægt fyrir okkukr á Íslandi, þarna fáum við mikla innsýn í það hvað er að gerast í málefnum heyranrskertar á norðurlöndum, en þessi samstarfsvettvangur norrænu félaganna, heldur aðalfund einu sinni á ári go til að gera fundina meira spenanndi hefur einn dagur verið tekinn frá sem þemadagur, þar sem eru fyrirlestrar og framsögur sem eru opnar félagsmönnum ef þeir vilja um eitthvað tiltekið málefni og í ár verður málefnið hvernig tækniþróun hefur áhrif á líf heyrnarskertra.

 

En sem sagt, undir lok ágúst þá stendur Heyrnarhjálp fyrir aðalfund á þemadögum norðurlandanna. Þemadagurinn og aðalfundurinn verður á Hótel Selfossi. Þemadagurinn verður laugardagurinn 31 ágúst og þemadagur 1. september

 

Formaður þakkaði fundarstjóra og rittúlki- gestum og velunnurum og sleit fundi.