Aðalfundur og þemadagar NHS -2015

Formaður og framkvæmastjóri, Hjörtur og Kolbrún, mættu á aðalfund systursamtaka okkar á Norðurlöndum sem haldinn var í Uppsala í Svíþjóð dagana 28.-30. ágúst sl.
Farið var í næturflugi til Arlanda aðfararnótt föstudagsins 28. ágúst og þaðan í lest í 20 mín til Uppsala, en þangað vorum við komin um klukkan 7:30 um morguninn.
Dagskrá hófst kl 12:00 með hádegisverði og síðan var farið í kynningarferð um Gamla Uppsala og næsta nágrenni með leiðsögumanni. Við enduðum á því að skoða vel dómkirkjuna í Uppsala og hlýða á langa og viðburðaríka sögu byggingarinnar, þar sem m.a. Gústaf Vasa Svíakonungur hvílir.
Deginum lauk á kvöldverði á grískum matsölustað í miðborg Uppsala.
Á laugardag hófust þemadagar með dagskrá sem stóð frá því kl 9:00 til kl 21:30.
Fjallað var um ýmis efni en Jan Peter Strömgren hóf dagskrá á að fara yfir þróun heyrnartækja og annarra hjálpartækja á síðustu árum og stöðu og horfur mismunandi framleiðanda á markaði. Framleiðsla heyrnartækja einkennist m.a. af talsverðum fjölda framleiðenda, sem margir hverjir eru frekar litlir og var það mat Peters að líklegt væri að næstu ár myndu einkennast af samruna á markaði, þar sem stærri og öflugri fyrirtækin myndu taka yfir þau smærri.
Þá var fjallað um endurhæfingarmiðstöð fyrir ungmenni og fjölskyldur þeirra í Finnlandi, en finnsku samtökin reka þessa endurhæfingarmiðstöð með stuðningi frá ríki.
Að því loknu fjallaði Peter Nordqvist, forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvar sænsku samtakanna, um niðurstöður rannsókna sem rannsóknarstofnunin gerir reglulega. Rannsóknastofnunin, sem heitir Forskningsinstitutet Hörselbron (http://www.horselbron.se), var stofnuð 2011 og hefur frá upphafi gert rannsóknir og kannanir til að fylgjast með gæðum tækja og þjónustu og árangri af stuðningi við heyrnarskerta. Þessi vinna hefur m.a. gert Það að verkum að í dag er góð þekking á þjónustu mismunandi fylkja við heyrnarskerta og hvar umbóta er þörf.
Næst fjallaði Mattias Lundgren um sænska heyrnarvernd í nútímanum og að því loknu var fjallað um SMER skýrsluna um greiðsluþátttöku, en SMER er Siðanefnd lækna í Svíþjóð (Svensk Medicinsk Etiska Råd). Niðurstaða SMER var í meginatriðum sú að eigin greiðsluþátttaka sjúklinga (þ.m.t. heyrnarskertra) stríði gegn markmiðum og gildum heilbrigðisþjónustunnar, sem miða að góðri heilsu og þjónustu við alla íbúa.
Þá var fulltrúi Norræna velferðarráðsins (Nordens Välfärdcenter) með erindi, en ráðið er ein af stofnunum Norræna ráðherraráðsins og hefur að markmiði að vinna að bættum félagspólitískum kjörum á norðurlöndunum.
Loks var svo fjallað um stöðu í heyrnargeiranum í hverju landi fyrir sig og endað á að formenn fluttu erindi um stöðu mála í hverju landi fyrir sig.
Finnar og Norðmenn eru í raun með frí heyrnartæki, þótt að í Finnlandi sé ekki að fullu frjálst val um tegun (framleiðanda tækis). Svíar fá niðurgreidd tæki, en bera nokkurn kostnað sjálfir. Ástandið er þó misjafnt milli fylkja í Svíþjóð, allt frá því að heyrnartæki eru í raun ókeypis yfir í umtalsverða kostnaðarþátttöku heyrnarskertra.
Textunarmál eru langt komin á flestum Norðurlöndunum, en barattán er þó ekki unnin og t.d. var nefnt að vilji er til þess að auka textun á netinu og fá barnamyndir sem eru með tali á móðurmálinu textaðar. Finnar stefna að því að 100% textun verði í höfn árið 2016 bæði í sjónvarpi og á netmiðlum.
Óhætt er að segja að við erum töluvert mikið á eftir okkar nágrannaþjóðum hvað varðar kjör og réttindi. Víða eru heyrnartæki ókeypis og alls staðar er rittúlkaþjónusta viðurkennd leið til samskipta en misjafnt hversu mikið er í boði frítt.
Hjörtur flutti sína kynningu á dönsku en ofursnjallir rittúlkar, sem voru reyndar bræður og synir táknmálstúlks sem var á svæðinu, snöruðu henni jafnharðan yfir á ylhýru sænskuna. 
Í hléi var boðið upp á leiksýningu heyrnarskerta leikhópsins Teater Hipp-Happ, sem var með sýningu um heyrnarskerðingu og þjónustu kerfisins við þá sem búa við hana. Þetta var skemmtileg sýning og hefur hópurinn áhuga á að sækja öll löndin heim og sýndi mikinn áhuga á Íslandi.
Þetta kvöld endaði á mjög svo fallegum stað sem heitir Skarholmens Wärdshus og er við mikla skútuhöfn og mjög fallegt útsýni þaðan.
Sunnudaginn 30. hófst svo ársfundurinn kl 9:00
Farið var yfir fjárhagsstöðu samtakanna og ákveðið að leggja til skilyrt framlag í verkefni sem er í gangi og er þýðing á leiðbeiningum fyrir tónmöskva af norsku yfir á öll norrænu tungumálin. Framlag NHS er skilyrt því að styrkur fáist frá Norðurlandaráði vegna verkefnisins.
Jan Peter Strömgren sem verið hefur formaður í langan tíma hættir nú í ár og óvíst er hver tekur við í staðinn.
Þá taka Norðmenn við fjárreiðum samtakanna en þau hafa verið í 4 ár í höndum Svía.
Ákveðið var með dagsetningar á árlegum fundum samtakanna :
Framkvæmdastjórafundurinn (Kanslichefer) fundurinn verður haldinn í Kaupmannahöfn
þann 13. nóvember 2015
Formannafundurinn verður haldinn 9. mars 2016 líklega í Noregi .
Aðalfundur og þemadagar verða í Færeyjum 26.-28. ágúst 2016.

Kolbrún Stefánsdóttir framkvæmdastjóri
Hjörtur H. Jónsson formaður