Amma, þú heyrðir í mér!

Hjördís Guðmundsdóttir

Við sex ára aldur lenti ég í slysi sem orsakaði það að heyrninni hrakaði mjög hratt. Um tíu ára aldur var ég svo til heyrnarlaus.  Ég var hins vegar svo heppin að ég lærði mjög ung að lesa og hef ætíð viljað halda íslenskunni við. Þær litu heyrnaleyfar sem ég hafði ásamt því að vera dugleg að lesa af vörum hafa svo hjálpað mér að halda talmálinu við. Frá því á fyrsta skólaári hef ég verið með heyrnartæki, upplifað einelti og fordóma í garð heyrnarlausra og skort á stuðningi í samfélaginu. Síðan ég byrjaði að nota heyrnartæki hefur tækninni fleygt fram og  þegar byrjað var að örva kuðunginn í eyrunum með rafboðum sá ég tækifæri til að ná til baka hluta af þeirri heyrn sem ég hafði misst.

Slíkar aðgerðir eru kallaðar kuðungsígræðsla.  Móttakara er komið fyrir undir húð fyrir ofan eyrað og rafskaut þrædd inn í kuðunginn. Ytri hluti tækjabúnaðarins er bæði staðsettur og hefur svipað útlit og hefðbundin heyrnartæki.  Ytri tækjabúnaðurinn nemur og flytur hljóðin í móttakarann sem sendir þau áfram sem rafboð í kuðunginn, sem áframsendir svo hljóðin í heyrnarstöð heilans.

En ég var hrædd,  hrædd við fordóma gagnvart kuðungsígræðslu og hrædd við að missa þá litlu heyrn sem ég þó hafði.  Árið 2004 lét ég til skarar skríða og fór í aðgerðina í Svíþjóð.  Læknarnir gerðu ekki ráð fyrir að ég myndi ná til baka meira en 40 % af heyrninni, því lítil reynsla var komin á aðgerðir af þessu tagi, sér í lagi á fullorðnum einstaklingum sem hafa verið mikið heyrnarskertir í mörg ár.

En í stuttu máli má segja að lífið hafi farið að hljóma öðruvísi eftir að kveikt var á kuðungsígræðslutækinu árið 2005 og það hljómar sífellt betur. Ég hafði aldrei látið mér detta í hug að það yrðu svona miklar breytingar í lífi mínu.  Allt var svo nýtt og ég er enn að kynnast og upplifa ýmislegt sem var ógerlegt áður. Öll samskipti eru nú mun auðveldari. T.d. tala ég nú við börnin mín og systkini í síma, sem áður var ómögulegt, og það tók þau nokkurn tíma að átta sig á því að hægt væri að hringja í mig.  Tónlist hefur alla tíð verið mér mjög  mikilvæg og ég skil bara ekki hvernig ég fór að áður, heyrði alltaf óminn af henni í útvarpinu en talað mál í útvarpi var ómögulegt að skilja. Vissi ekki að það heyrðist svona í fuglunum og að þeir hefðu svona hátt og ég skil núna hvað það er að heyra læk hjala við stein. Mér brá þegar ég opnaði kornflexpakka eftir aðgerð og komst að því að það heyrðist eitthvað hljóð.  Skil núna hvað maðurinn minn átti við þegar hann talaði um prjónglamur og ég mun ylja mér lengi vel við minninguna um það þegar sex ára gamalt barnabarnið mitt kallaði á mig í verslun þegar ég snéri baki í hann og ég svaraði honum. Hann starði á mig stóreygður og sagði upprifin: „Amma, þú heyrðir í mér“.

Þeir sem eiga kost á að fara í svona ígræðslu ættu að ekki að hugsa sig tvisvar um því þetta er svo mikil breyting til batnaðar. Ég gæti haldið upptalningunni áfram á jákvæðum upplifunum og bættum lífsgæðum eftir aðgerð. Í dag er veruleikinn sá að ég er í þeirri skapandi og krefjandi vinnu sem hugurinn stefndi alltaf til. Ég sinni félagsmálum og er m.a. í stjórn Heyrnarhjálpar og hef mjög gaman af.  Á þessu ári fagnar Heyrnarhjálp 75 ára starfsafmæli og mun þeim áfanga verða fagnað með ýmsum uppákomum. Við vonumst til að geta vakið fólk til umhugsunar á því hve dýrmæt heyrnin er.  Nýverið vorum við í Smáralind og buðum þar uppá fría heyrnarmælingu.  Mikil áhugi og góð þátttaka sýndi greinilega að fólk kunni að meta framtakið.  Vonandi verður fólk áfram duglegt að spyrjast fyrir og leita sér upplýsinga. Heyrnarskerðing er svo dulin og getur orðið mikill fötlun ef fólk fær ekki aðstoð strax. Ég hvet alla sem heyra illa til að fara í mælingu og skoða hvað ami að og betra er að gera það fyrr en seinna.  Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, það hef ég sannreynt.

Hjördís Guðmundsdóttir

Höfundur sat í stjórn Heyrnarhjálpar.

Greinin birtist 7. júlí 2012 í Morgunblaðinu og á eldri heimasíðu Heyrnarhjálpar.