“Heyrnartæki geta bjargað miklu hjá þeim sem eru með skerta heyrn því auk þess að bæta heyrnina halda þau heilanum í þjálfun.”
Það er kunnara en frá þurfi að segja að ef við reynum ekki á einstaka hluta líkamans þá rýrna þeir. Þetta gildir um alla vöðva, meira að segja hjartavöðvann og einnig beinin. Nú hefur vísindamönnum tekist að sýna fram á að heilastöðvar, sem fá takmarkað áreiti, rýrna meira en þær sem fá eðlilegt áreiti. Gráa efnið í þeim hluta heilans, sem meðhöndlar hljóð, rýrnar meira í heyrnarskertu fólki en hjá þeim sem hafa eðlilega heyrn. Vísindamenn við John Hopkins og National Institute on Aging hafa rannsakað áhrif heyrnartaps á heilarýrnun og komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að eðlilegt sé að heilinn rýrni með aldrinum þá rýrnar hann hraðar hjá fólki með lélega heyrn. Í annarri rannsókn, sem gerð var af prófessor í taugavísindum, dr. Wingfield, við Brandeis University í BNA í samstarfi hans með starfsbræðrum við háskólana í Pennsylvaníu og Washington, notuðu þeir segulómun og könnuðu áhrif heyrnartaps bæði á virkni og gerð heilans. Rannsóknin sýndi að þeir sem eru heyrnarskertir hafa minna gráefni í heilaberki í þeim hluta heilans sem sér um talskilning en þeir sem eru með fulla heyrn. Wingfield telur að heyrnin sé meginorsökin. Þegar örvun frá skynjun minnkar vegna heyrnarskerðingar þá minnkar virkni samsvarandi svæðis í heilanum. Þetta þýðir einnig að einstaklingur með skerta heyrn notar mikið meiri orku við að vinna úr flóknum setningum. Þessar niðurstöður sýna hversu mikilvægt er að vernda heyrnina. Fólk verður að muna að hávaði skemmir heyrnina og þegar það gerist fer heilinn að rýrna. Heyrnarskemmd er óafturkræf. Fyrir þá, sem þurfa að vera í hávaða, er mikilvægt að nota hlífðarbúnað s.s. heyrnarsíur eða heyrnarhlífar. Heyrnartæki geta bjargað miklu hjá þeim sem eru með skerta heyrn því auk þess að bæta heyrnina halda þau heilanum í þjálfun. Taugasérfræðingurinn Jonathan Peelle, Ph.d. segir (lausleg þýðing): „Þegar heyrnin verður lélegri með aldrinum er rétt að huga að heyrnartækjum ekki aðeins til að bæta heyrnina heldur einnig til að viðhalda heilanum. Fólk heyrir mismunandi og jafnvel þeir sem hafa væga heyrnarskerðingu verða að leggja meira á sig til að skilja flóknar setningar.“ Peelle segir einnig: „Hæfileiki þinn til að heyra verkar beint á hvernig heilinn meðhöndlar hljóð og hvernig þú talar. Að viðhalda heyrninni verndar ekki aðeins eyrun, það hjálpar einnig heilanum að gera sitt besta.“ Hjá flestum skerðist heyrnin smám saman á nokkrum árum þannig að maður tekur ekki eftir því, auk þess er algengt að þeir, sem verða varir við versnandi heyrn, fresti því í mörg ár að láta athuga heyrnina. Ef grunur er um heyrnarskerðingu ætti ekki að slá því á frest að fara í heyrnargreiningu. Samkvæmt fyrrnefndum rannsóknum fer heilinn strax að rýrna þegar heyrnin byrjar að skerðast. Hægt er að fá heyrnartæki til reynslu og heyra umskiptin.

Höfundur er heyrnarfræðingur hjá Heyrn í Kópavogi. ellisif@heyrn.is
Greinin birtist í MBL. 13. jan .2018