Fréttabréf Heyrnarhjálpar


Nú er Fréttablaðið okkar komið í hús.
Það er í pökkun og á leið í dreifingu í dag og næstu daga.
Ég vil þakka þeim sem lögðu okkur lið með því að deila fróðleik eða sögum af lífshlaupi sínu, öllum sem styrktu okkur á einhvern hátt og þeim sem unnu við blaðið.
Sérstakar þakkir fær Helgi Hólm ritstjórinn sem kom inn á síðari stigum og vann geyslilega vel á knöppum tíma.
Blaðið verður svo sent styrktaraðlilum aðeins seinna.
Þeir sem ekki eru í félaginu eða á póstlista hjá okkur geta komið við á skrifstofunni og fengið blað ef þeir vilja.
Góðar stundir og njótið jólaföstunnar.

 

Skrifstofa Heyrnarhjálpar lokuð til 11. des


Skrifsstofan verður lokuð frá 5 til 8 desember vegna frídaga starfsmanns.

Opnað aftur 11.des kl 9:00

Ef erindið er brýnt má hringja í 8666444

Með bestu kveðju

Kolbrún Stefánsdóttir

Rittúlkuð Guðsþjónusta 26.11.2017 kl: 11:00

Hin árlega rittúlkaða Guðsþjónusta sem haldin hefur verið í samvinnu við Langholtskirkju undanfarin ár verður nú haldin sunnudaginn 26/11 kl: 11:00
Athöfnni er ætlað að vekja athygli á og kynna rittúlkun sem góða leið fyrir heyrnarskert fólk til að njóta messunnar eins vel og kostur er.

Sr. Jóhanna Gísladóttir þjónar og organisti er Magnús Ragnarsson

Kór Langholtskirkju leiðir safnaðarsöng en einsöngvari er Kristrún Friðriksdóttir.

Rittúlkur er Þórný Björk Jakobsdóttir.

Sunnudagaskólinn verður á sínum stað á sama tíma og svo kaffi og piparkökur eftir samveruna.

Verið öll hjartanlega velkomin.

Kynningarfundur á Höfn 16.11.2017


Kynning á starfsemi Heyrnarhjálpar verður í Ekru- sal eldri borgara á Höfn fimmtudaginn 16.11. og hefst kl: 15,30
Farið verður yfir 80 ára sögu félagsins og baráttumálin eins og þau eru í dag.
Ekki er síður mikilvægt að heyra skoðanir og reynslusögur fundarmanna sem og álit þeirra á hvað og hvernig megi bæta  aðstöðu heyrnarskertra til að þeir eigi sem best með aðgengi að samfélaginu.

Verið öll hjartanlega velkomin

Með bestu kveðju

Kolbrún s-8666444

Heimsókn í Kringluna 11. nóv 2017

Stjórn Heyrnarhjálpar ætlar að vera í Kringlunni laugardaginn 11 nóv. frá kl 10-15 á  fyrstu hæðinni til að kynna félagið og hitta þá sem hafa áhuga á okkar málefnum.

Endilega kíkið á okkur og látið okkur heyra hvað ykkur finnst að betur megi fara í málefnum heyrnarskerta..

Heimsókn til vestmannaeyja 8.nóv 2017

 

Nú er ákveðið að heimsækja Vestmannaeyjar og búið að gera allt klárt bæði bátsferð og gistingu, fundarsal og auglýsingar og annað sem tilheyrir.
Spurning hvort maður geti tryggt að veðrið verði í lagi.
Allavega nokkuð víst að það verður gaman að koma til Vestmannaeyja eins og alltaf.
Endilega látið sjá ykkur sem flest og gangið til liðs við félagið.
Allir hjartanlega velkomnir.

Málþing ÖBI 1. nóvember um kjaramál

 

Málefnahópur ÖBÍ um kjaramál minnir á málþing sitt á Grand Hótel, miðvikudaginn 1. nóvember 2017 kl. 13-17 undir yfirskriftinni „Bætum kjör lífeyrisþega.“ Dagskrá málþingsins liggur nú fyrir.

Tími: Miðvikudagurinn 1. nóvember 2017 kl. 13-17

Staður: Grand hótel – Sigtúni 38 – 105 Reykjavík

Skráning á málþingið

Rætt verður um kjör lífeyrisþega frá ýmsum sjónarhornum.

Dagskrá

Ávarp: Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.

Skuldir – áhrif og úrlausnir: Ingunn Árnadóttir félagsráðgjafi hjá Umboðsmanni skuldara

Bætum kjör lífeyrisþega: Staðan og nokkrar tillögur að leiðum: María Óskarsdóttir málefnahópi ÖBÍ um kjaramál.

Galið kerfi: Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Örinnlegg frá örorkulífeyrisþegum: Ágústa Dröfn Guðmundsdóttir og Bára Halldórsdóttir

Nýkjörnum þingmönnum boðið að svara spurningunni: Hvað ætlar þinn þingflokkur að gera til að bæta kjör lífeyrisþega á kjörtímabilinu og hvenær?

Pallborðsumræður.

Lokaorð: Rósa María Hjörvar, málefnahópi ÖBÍ um kjaramál.

Fundarstjóri er Sigmundur Ernir Rúnarsson, fjölmiðlamaður.

 

 

Opinn fyrirlestur um réttindi fatlaðs fólks í HÍ


Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks
Umbreytingatæki fyrir jöfn borgararéttindi um allan heim

 Gerard Quinn, prófessor við lagadeild National University of Ireland, Galway

 Hátíðarsalur Háskóla Íslands, þriðjudag 31. október kl. 12.00-13.00

Í fyrirlestrinum fjallar dr. Gerard Quinn um tilurð Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og deilir með áheyrendum vonum og væntingum þeirra sem tóku þátt í gerð þessa nýja mannréttindasáttmála. Meðal þess sem einkenndi vinnuna var virk þátttaka fatlaðs fólks í öllu ferlinu. Dr. Quinn mun fjalla sérstaklega um hvaða áhrif þetta hafði á vinnubrögð og endanlega gerð sáttmálans. Hann beinir jafnframt sjónum að þeim lýðræðislegu nýjungum í sáttmálanum sem gera kröfu um náið samstarf stjórnvalda við samfélagsþegna og félagasamtök um stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks. Þessi tegund samstarfs gerð það kleift að unnt var að þróa áherslur í sáttmálanum umfram hefðbundnar áherslur á jöfn tækifæri og setja sjálfræði með viðeigandi stuðningi í öndvegi. Þá mun hann lýsa þeim róttæku kerfisbreytingum sem, að hans mati, þurfa að eiga sér stað á þjónustu við fatlað fólk þannig að hún mæti í raun þörfum þess. Í lokin mun hann bregða ljósi á þær breytingar sem mannréttindasáttmálinn hefur nú þegar leyst úr læðingi um allan heim.

Fyrirlesturinn verður haldinn á ensku, hann er opinn öllum og verður táknmálstúlkaður.

 Gerard Quinn er prófessor við lagadeild Natinal University of Ireland í Galway og forstöðumaður Centre for Disability Law & Policy. Árið 2002 var hann annar tveggja höfunda að skýrslu sem unnin var fyrir Sameinuðu þjóðirnar en skýrsla þessi átti stóran þátt í að ýta úr vör vinnu við Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Hann leiddi síðan sendinefnd Rehabilitation International við gerð samningsins. Dr. Quinn hefur tekið virkan þátt í starfi að mannréttindum í heimalandi sínu og situr í ráðgjafarnefnd forseta Írlands um stjórnarskrármál. Hann hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir störf sín að mannréttindum fatlaðs fólks og er ráðgjafi ýmissa alþjóðastofnana á sviði mannréttinda. Hann hefur doktorsgráðu frá lagadeild Harvard háskóla. Rannsóknir hans fjalla meðal annars um heimspekilegan grundvöll virkrar og merkingarbærrar samfélagsþátttöku fatlaðs fólks og kenningar um grundvallarréttindi einstaklinga.

Nýr formaður ÖBÍ

Á aðalfundi ÖBÍ þann. 20. 10. 2017 var Þuríður Harpa Sigurðardóttir kjörin nýr formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa tekur við af Ellen Calmon, sem hefur verið formaður bandalgsins síðustu tvö kjörtímabil eða frá 2013.

Þuríður Harpa fékk 68 atkvæði í formannskjörinu en Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland, fékk 58 atkvæði.

Þuríður Harpa er með BA próf í grafískri hönnun frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands. Hún lauk diplómanámi í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands 2015. Síðustu 13 ár hefur hún gengt starfi framkvæmdastjóra prentsmiðju og auglýsingastofu á Suðárkróki, og meðal annars gefið vikulega út svæðisfréttablað og dagskrárblað auk ýmissa prent- og hönnunarverkefna. Frá 2011 hefur Þuríður Harpa verið formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði og er í dag varaformaður landssambands Sjálfsbjargar. Þá situr hún einnig í stjórn Sjálfsbjargarheimilisins. Hún hefur einnig starfað í vinnuhópum á vettvangi ÖBÍ þar sem fjallað hefur verið um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá hefur Þuríður Harpa átt sæti í málefnahópi ÖBÍ um sjálfstætt líf, komið fram á ýmsum málþingum og ráðstefnum um málefnið og skrifað greinar í blöð.

„Ég mun hafa samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi í mínum störfum,“ segir Þuríður Harpa. „Samninginn þurfum við að fá lögfestann til að hann veiti okkur þau réttindi og þann slagkraft sem þarf í mannréttindabaráttunni. Fátækt, útskúfun, mismunun eða misrétti á ekki að líðast. Þá legg ég áherslu á lögfestingu á NPA (notendastýrðri persónulegri aðstoð) og baráttu fyrir bættum kjörum örorkulífeyrisþega, fatlaðs fólks og langveikra.“

Heimsókn í Fjallabyggð 17.10. 2017 kl 14:00


Heyrnarhjálp verður með kynningu á sögu, starfsemi og bráttumálum sínum i Fjallabyggð næstkomandi þriðjudag.

Fundurinn verður haldinn í Sal Skálarhlíðar á Siglufirði.

Allir eru velkonmir sem áhuga hafa á málefnum heyrnarskertra og bættum hag þeirra sem búa nú þegar við skerta heyrn.

Hlakka til að sjá sem flesta.

Ath. Skrifstofan að Langholtsvegi 111 verður lokuð mánudag og þriðjudaag vegna þessa.

Besta kveðja

Kolbrún
Sími -8666444