Aðalfundur NHS og þemadagar

Skrifstofa Heyrnarhjálpar verður lokuð frá miðvikudegi 28.8 til mánudagsins 1. sept vegna aðalfundar NHS – systursamtaka okkar á Norðurlöndum- sem haldinn verður í Kaupmannahöfn.
Ef erindið er brýnt er velkomið að hringja í síma 8666444

Kveðja
Kolbrún

Táknmálsnámskeið Samskiptamiðstöðvar

Næstu táknmálsnámskeið á Samskiptamiðstöð verða haldin nú í haust sem hér segir:

Táknmál 1 verður kennt kl. 12 -13 á mánudögum og miðvikudögum.

Námskeiðið byrjar 2. september og lýkur 14. október.

Táknmál 2 verður kennt kl. 12 -13 á mánudögum og miðvikudögum.

Námskeiðið byrjar 16. október og lýkur 27. nóvember.

Kennt verður í húsnæði Samskiptamiðstöðvar að Grensásvegi 9, þriðju hæð.

Hvert námskeið kostar 16.640 kr.

Nánari upplýsingar veitir Eyrún Helga Aradóttir: eyja@shh.is

Skráning fer fram á shh@shh.is Þar þurfa að koma fram upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer.

Nýr starfsmaður Heyrnarhjálpar

Nýr starfsmaður hefur verið ráðinn til að sjá um sérstakt tímabundið verkefni sem við ráðumst nú í hér hjá Heyrnarhjálp.

Sigríður Fossberg Thorlacius, sem jafnframt er formaður Málbjargar, ætlar að vinna rannsókn fyrir okkur og sækja upplýsingar sem nýtast til að móta heilstæða stefnu fyrir þá sem eru heyrnarskertir á Íslandi.
Hún mun kanna stefnu systurfélaga okkar á Norðurlöndunum og hjá Evrópusamtökunum – greina þær upplýsingar og bera saman.
Stjórnin mun svo í haust fara í faglega stefnumótunarvinnu og nýta þessa rannsóknarvinnu til þess meðal annars.
Áður en sú stefna verður birt opinberlega mun um við kanna viðhorf þeirra sem búa við skerta heyrn á henni.

Við bjóðum Sigríði hjartanlega velkomna til starfa og væntum mikils af hennar vinnu.

Fundargerð 1-2019

Fundargerð stjórnar Heyrnarhjálpar 26. mars 2019

Á fundinum voru: Hjörtur,, Kolbrún, Sigrún og Sturla en auk þess kom Margrét við til að árita ársreikninginn.

Formaður setti fundinn en aðalefni fundarins var að fara yfir og árita reikninga ársins 2018 ásamt undirbúningi fyrir aðalfund.

Þessir liðir ræddir skv. dagskrá.

 • Fundargerð síðasta fundar samþykkt með undirritun.
 • Reikningar ársins 2018 tilbúnir og liggur fyrir að kjörinn skoðunarmaður SE gerir athugasemdir við form reikningsins ásamt nokkrum athugasemdum við stafsetningu og á þeim forsendum mun hann ekki árita reikninginn. Annar skoðunarmaður hefur áritað reikninginn.  Þetta var rætt nokkuð en ekki talin ástæða til aðgerða þar sem ekki eru gerðar athugasemdir um niðurstöðu reikningsins.
 • Nokkrir liðir í reikningnum sveiflast aðeins milli ára og er það langmest vegna ársfundar NHS sem haldinn var á Íslandi s.l ár. Kolbrún mun taka saman samtals kostnað vegna ársfundarins og hafa með á aðalfundinn.
 • Samþykkt að leggja til óbreytt árgjald.
 • Fyrir liggur að Margrét gefur ekki kost á sér áfram í stjórn.

Undir liðnum önnur mál – þetta helst:

 • Félagið tók þátt í „Degi heyrnar“ í byrjun mars og vann með Heyrnar- og talmeinastöðinni undir átakinu „Láttu mæla þig.“
 • Kolbrún og Hjörtur fóru til Danmerkur á formannafund NHS og einnig var gagnlegur fundur með fulltrúum Norðurlandaráðs um málefni okkar.
 • Fundað hefur verið með Félagi heyrnarlausra vegna sameiginlegs áhuga á textun efnis ljósvakamiðla.
 • Aðgengishópur ÖÍ er komið í samstarf við MBL um greinaskrif og birt var stór grein eftir Hjört á þeim vettvangi fyrir stuttu.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið.

Reykjavík 27. Mars 2019 – Sturla Þengilsson

Aðalfundargerð Heyrnarhjálpar 28.03.2019

Aðalfundur Heyrnarhjálpar

 1. mars 2019 kl. 20:00

Safnaðarsal Langholtskirkju

 

 

Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Kosinn fundarstjóri og var Gísl Ólafur Pétursson, tilnefndur fundarstjóra.
Rittúlkur var Þórný Björk Jakobsdóttir að venju og styðst fundargerð við hennar skýrslu.

Kolbrún framkvæmdastjóri flutti skýrslu stjórnar:

Skýrsla Heyrnarhjálpar fyrir starfsárið 2018

 

Núverandi stjórn tók við eftir aðalfundur Heyrnarhjálpar 2018, sem var haldinn var 21.mars kl. 20 í safnaðarheimili Langholtskirkju

Stjórnarmenn voru þá kjörnir eftirfarandi :

 

Hjörtur Jónsson formaður

Ingólfur Már Magnússon varaformaður – var ekki í kjöri

Stefán Benediktsson,  kosinn til tveggja ára

Sturla Þengilsson kosinn til tveggja ára.

Margrét Friðþjófsdóttir – var ekki í kjöri

Sigrún Magnúsdóttir  kosin í varastjórn til eins árs
Kristín Margrét Bjarnadóttir  varamaður kosin til eins árs

 

Starfsemi Heyrnarhjálpar hefur verið með hefðbundnu sniði síðastliðin ár.

Stjórnarfundir hafa verið eftir verkefnum og þörfum eða alls 6 fundir á þessu ári.

Auk þess hafa verið nokkrir fundir vegna undirbúnings fyrir ársfund og þemadaga í Norrænu samtökunum okkar NHS-sem við erum aðilar að.

 

Fjármál

 

Farið verður yfir fjármálin hér á eftir og reikningana 2018 en þess má geta að reksturinn er í ágætu jafnvægi en allt veltur á að fá styrki til starfseminnar frá ríki og frá ÖBI. Fyrir þetta ár er hagnaðurinn 615.324,-
Að þessu sinni voru styrkir lægri en áður eða sem nemur 1.540.459,- og því minni hagnaður sem því nemur en réttu megin við strikið samt.
Auk þess erum við með óvenjulegan kostnaður vegna þess að við sáum um ársfund og þemadaga NHS hér á Íslandi. Okkar kostnaður vegna þess er 1.137.738,-

 

Aðrir fundir og samstarf

 

Við höfum ávallt leitast við að vinna með öðrum aðilum í okkar geira og svo hefur einnig verið þetta árið. Þar ber að nefna ÖBI, en þar höfum við boðið fram krafta okkar þegar eftir er kallað.
Hjörtur Kolbrún og Ingólfur sitja í nefndum fyrir Öryrkjabandalagið.

 

Hjörtur er í Nefnd félagsmálaráðuneytisins um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra barna, tilnefndur af ÖBÍ. Einnig í stjórn Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hann er líka í stjórn Foreldrafélags heyrnarskertra og heyrnardaufra barna.

 

Ingólfur hefur setið í Aðgengishópi ÖBI sem fulltrúi Heyrnarhjálpar og er einnig í Ferlinefnd Reykjavíkur og sem varafulltrúi í nefnd um umferðamál en sú nefnd er á vegum Sveitastjórna- og samgönguráðuneytisins.
Þá er hann einnig í nefnd um Almannaróm sem fulltrúi ÖBÍ.

Kolbrún er aðalfulltrúi ÖBÍ í Öldrunarráði Íslands en samtökin eiga þar einn fulltrúa og

einn varafulltrúa.

Við höfum auk þess alltaf mætt með fullskipað lið á aðalfund Öryrkjabandalagsins en nú er farið að taka tillit til þess í úthlutun styrkja hjá ÖBI.

 

Við höfum átt mjög gott samstarf við HTÍ- Heyrnar -og talmeinastöðvar Íslands og barist fyrir bættum aðstæðum hjá þeim enda eru það þau sem eru að veita víðtækustu þjónustuna og það er ávinningur fyrir heyrnarskert fólk að fá sem besta þjónustu.
Starfsfólk HTÍ hefur alltaf verið reiðubúið að leggja okkur lið bæði í útgáfu blaðsins með myndarlegu auglýsingarframlagi og með viðtöl og fróðleg erindi í blaðið okkar sem kemur út á hverju ári.

Fundir á landsbyggðinni voru haldnir samkvæmt áætlun stjórnar og voru þeir allir vel heppnaðir.
Við heimsóttum Austurlandið að þessu sinni og erum þá búin að loka hringnum ef svo má segja.
Farið var á Eskifjörð, Neskaupstað og Seyðisfjörð.
Að þessu sinni var Kolbrún framkvæmdastjóri ein á ferð og heimsótti jafnframt

Egilsstaði og Akureyri þar sem hún dreifði  blöðum á leið sinni um þetta svæði.

Á Seyðisfirði var skemmtilegur ”aukafundur” í aðalsjoppu bæjarins þar sem ”heimakarlar” voru fræddir um ýmis heyrnartengd vandamál og var það hin skemmtilegsta stund og mikið fjör í umræðunum.
Það er oftast mikið um reynslusögur og skemmtileg stemming á þessum fundum.

Allt voru þetta góðir fundir með mikilli þátttöku fundarmanna í umræðum, spurningum og frásögnum um reynslu sína og upplifun.

 

Útgáfa Fréttablaðins.

Fréttablaðið okkar kom út að venju og er það tuttugasta og annað árið í röð sem það er gefið út. Við höfum nú fengið nýjan ritstjóra til liðs við okkkur Helga Hólm sem er margreyndur í útgáfu- og félagsmálum og auk þess hörku golfari og hefur verið landsliðsmaður þar.

 

Fyrri ritstjórum okkar hefur vegnað vel og má til gamans nefna að Kolbeinn Óttarson Proppe fór frá okkur og inn á Alþingi Íslendinga og Ingimar Karl Helgason fór frá okkur til Öryrkjabandalagsins sem samskiptastjóri .

Það greinilega  skemmir ekki fyrir ferilskránni að hafa starfað fyrir Heyrnarhjálp og stórfínt fyrir okkur að lykilmenn þekki okkar málefni í gegnum þessa vinnu sína hér.
Við fögnum því bara og óskum þeim velfarnaðar í sínum störfum.
Helgi tók við keflinu á lokametrunum árið 2017 og hellti sér af eldmóði í þessi mál og svo var hann með blaðið í fyrra líka.
Við viljum samt halda honum sem lengst hjá okkur J

 

 

Erlent samstarf:
Þátttaka í norrænu samstarfi er einnig hluti af hefðbundnu starfi félagsins, en við höfum lengi verið í samstarfi við systurfélög á Norðurlöndunum.  NHS (Nordiska Hörselskadades Samarbetskommitté)
Við sendum tvo fulltrúa til Kaupmannahafnar í mars 12.mars 2018 á formannafund eins og venja er í mars.

Að þessu sinni fengum við hin félögin í NHS til okkar og var aðalfundur og þemadagar haldið hér á Íslandi 30 ágúst til 2 sept.
Við leiguðm sali og aðstöðu alla á Hótel Selfoss en það var mun ódýrar en að vera í Reykjavík.

Við leigðum rútur frá Guðmundi Tyrfingssyni ehf  og var farið í skoðunarferð um nágrennið.  Síðan var séríslenskt ” Gardenparty” heima hjá foreldrum formannsins  en þau  búa á Selfossi.

Grillvagninn sá um að grilla og var þetta mjög vel heppnað og einsdæmi í þessum samtökum að einhver taki allan hópinn  heim til sín og þar sé partý fram á nótt.
Glaumur og gleði og mikið hlegið.

Ég held að við höfum alveg staðið undir þeim ummælum sem maður heyrir oft sagt um okkur Íslendinga að ” þeir kunni að skemmta sér” .

 

Samvinna – rittúlkun

 

Heyrnarhjálp  hefur haldið árlega í samvinnu við Langholtskirkju, eina rittúlkaða messu og oftast á jólaföstunni.
Þær hafa verið vel sóttar og farið fjölgandi þeim gestum sem koma enda höfum við auglýst þær vel í útvarpi og á heimasíðu félagsins.

Kirkjan hefur lagt til prestinn en séra Jóhanna Gísladóttir hefur séð um þann þátt en við útvegað rittúlkinn og það er Þórný Björk Jakobsdóttir sem hefur verið okkar maður þar. Hún hefur líka rittúlkað aðalfundi félagsins og ef við erum að gera eitthvað sem vekur athygli á kostum rittúlkunar.
Við erum henni verulega þakklát fyrir að vera til taks fyrir okkur.

 

Samvinna – textun

 

Við höfum síðustu undanfarin ár verið í góðu samstarfi við Umboðsmann Alþingis og meðal annars lagt honum til gögn og upplýsingar um textun á RÚV. Hann fór sjálfur í það að kanna frammistöðu RÚV við að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til stofnunarinnar í samningum við ríkið um aðgengi allra að efni sem er sýnt.

Nú í ár erum við að hefja samstarf við Félag Heyrnarlausra – Döff – um átak til að krefjast betri textunar hjá RÚV og viljum láta lögleiða textun í fjölmiðlum.
Þetta er okkar helsta baráttumál og mikið mál fyrir þau líka í Döff til að fylgjast með innlendu efni bæði myndum og þáttum um íslenskt efni.
Það má segja að það þokist í rétta átt hjá RÚV en mjög hægt.

 

Þakkir:
Stjórn Heyrnarhjálpar og framkvæmdastjóri vilja svo að lokum þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóg í okkar málum, stutt okkur með framlagi sínu bæði í starfi og málefnavinnu.

Við viljum þakka þeim fyrirtækjum sem hafa sýnt okkur velvilja og styrkt okkur með ýmsum hætti. Helst ber að nefna Hagkaup og Heyrnar-og talmeinastöðina sem auglýsir alltaf myndarlega í blaðinu auk þess að vera alltaf til taks fyrir okkur.

 

Þá þökkum við okkar samstarfsaðilum í hinum ýmsu verkefnum fyrir gott samstarf og samskipti í þágu þeirra sem eru með skerta heyrn eða annan heyrnarvanda.

Hjartans þakkir sendum við svo til þeirra sómahjóna Jóns Hjartarsonar og Áslaugar Ólafssdóttur sem gerðu okkur svo stolt og þakklát á Selfossi síðastliðið sumar með því að halda fyrir okkur partýið sem ég nefndi hér áðan.

F.h. stjórnar

Kolbrún Stefánsdóttir

Framkvæmdastjóri

 

Nú er komið að skýrslu formanns

Hjörtur fór yfir stöðu okkar sem félags og taldi að starfsemin  gengi vel miðað við allt og allt með þetta fjármagn og svo um stöðuna í okkar málefnum almennt.
Hann talar um nýja tækni og nýjar framfarir  og var bjartsýnn á framtíðina
Nokkrar umræður urðu um slaka þjónustu við heyrnarskerta og skilningsleysi RÚV en fram kom að miklar vonir eru bornar til Svandísar Svavars heilbrigðisráðherra sem hefur lagt fram frumvarp um textun en það heyrist ekkert um það frumvarp nú.
Kristín Lena nýr forstöðumaður hjá SHH spurðist fyrir um samstarf á milli þeirrar stofnunar og Heyrnarhjálp og fékk þær upplýsingar að það hefði verið frekar lítið en þó aðeins t.d. þátttaka í verkefni Sky High og þátttaka í fundarröð hjá þeim.
Bæði Heyrnarhjálp og nýr forstöðumaður SHH lýstu miklum áhuga á að bæta samstarf og auka samskipti.

Umræður um reikninga félagsins sem farið var yfir í upphafi fundar og um skýrslu stjórnar og formanns.
Samþykkt samróma.

Tillaga stjórnar um óbreytt árgjöld 2000,- kr – samþykkt

 

Engar lagabreytingar

Kosningar
Kosning formanns : Hjörtur Jónsson einn í framboði og kjörinn með lófataki.
Kosning í aðalstjórn : Tillaga stjórnar Ingólfur Már Magnússon og Sigrún Magnúsdóttir kosin til tveggja ára.
Kosning í varastjórn : Helgi Hólm og Kristín Margrét Bjarnadóttir  til eins árs í senn
Kosning í félagskjörna skoðunarmanna : Sigurður Einarsson og Tómas Hallgrímsson
kosning varamanna skoðunarmanna: Magnea Sólveig Bjartmarz og Daniel B. Björnsson

 

Önnur mál:

Ekkert sérstakt mál tekið fyrir en nokkrar umræður um eitt og annað og góð stund

Formaður þakkaði fundarmönnum komuna og fundarstjóra og rittúlki fyrir vel unnin störf og sleit síðan fundi.

 

Fundi lauk  kl 21:30

 

 

 

Aðalfundur Heyrnarhjálpar 28. mars kl 20:00


Aðalfundur heyrnarhjálpar – félags heyrnarskertra á Íslandsi -verður haldinn fimmtudaginn 28. mars 2019 í Safnaðarheimili Langholtskirkju kl 20:00.

Venjuleg aðalfundarstörf
Lagabreytingar
Önnur mál

Fundurinn er rittúlkaður og boðið upp á kaffi og meðlæti.
Allir hjartanlega velkomnir sem áhuga hafa á okkar málefnum.

Stjórnin

Aðalfundargerð 21.3.2018

Aðalfundur Heyrnarhjálpar

 1. mars 2018, kl. 20:00

Langholtskirkju

 

 

Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
Það var fámennt og góðmennt eins og venjulega.

Kosinn fundarstjóri og var Gísl Ólafur Pétursson, tilnefndur fundarstjóra.
Rittúlkur var Þórný Björk Jakobsdóttir að venju og styðst fundargerð við hennar skýrslu.

Kolbrún framkvæmdastjóri flutti skýrslu stjórnar:

Skýrsla Heyrnarhjálpar fyrir starfsárið 2017

 

Síðasti aðalfundur var haldinn  hér þriðjudaginn 12 apríl  2017 kl: 20:00
Á aðalfundinum 2015 voru samþykktar breytingar á lögum  sem m.a. gera ráð fyrir að kjörtímabil stjórnarmanna, fyrir utan formann og varastjórn, sé tvö ár.

Nú er það þannig að þetta skarast og á hverju ári hafa tveir stjórnarmenn lokið sínu kjörtímabili og tveir eiga eitt ár eftir.
Þetta tryggir að það fari ekki allir frá á sama tíma.

Núverandi stjórn er þannig skipuð :

 

Hjörtur Jónsson formaður

Ingólfur Már Magnússon varaformaður – á eitt ár eftir

Þráinn Sigurbjörnsson meðstjórnandi – hefur lokið tveimur árum

Sigrún Magnúsdóttir meðstjórnandi- hefur lokið tveimur árum.
Margrét Friðþjófsdóttir  – á eitt ár eftir.
Atli Ágústsson varamaður
Kristín Margrét Bjarnadóttir  varamaður.

 

Starfsemi Heyrnarhjálpar hefur verið með hefðbundnu sniði síðastliðið ár.

Fundir á landsbyggðinni voru haldnir samkvæmt áætlun stjórnar og voru þeir misvel sóttir, en vel heppnaðir og ánægjulegir.

Að þessu sinni var farið í Fjallabyggð og fundað á Siglufirði 17. október í Sal Skálahlíðar. Síðan var fundað í Vestmannaeyjum 8. Nóvember  og síðast en ekki síst var farið á Höfn í Hornafirði 16. nóvember. Það var geysilega skemmtilegur og fjölmennur fundur og ánægjuleg heimsókn í alla staði.

Við- stjórnarmenn- mættum í Kringluna 11. nóvember til að kynna félagið og vorum þar einn laugardag. Það var gert í tilefni afmælis félagsins en Heyrnarhjálp varð 80 ára þann 14.nóvember.
Við hreiðruðum um okkur á fyrstu hæð og vorum með rittúlk til taks og í sérmerktum bolum. Fyrr en varði var formaðurinn kominn á kaf í heyrnarmælingu með nýja spjaldtölvu félagsins að vopni.
Stjórnarmenn voru duglegir að spjalla við gesti og gangandi og söfnuðumst nokkrir nýir félagar en það er jú markmið okkar að ná til fólks og virkja það í baráttunni.
Ég vil þakka þeim sérstaklega fyrir það.

Okkar árlega rittúlkaða guðsþjónusta var svo  haldin í samvinnu við Langholtskirkju eins og undanfarin ár þann 26. nóvember þar sem „okkar maður“ sr. Jóhanna Gisladóttir þjónaði fyrir altari en Magnús Ragnarsson sá um orgelleik.
Ungt tónlistarfólk í söfnuðnum sá um sönginn.
Þórný Björk Jakobsdóttir rittúlkur sá um textun á efninu.

 

Að venju sendum við okkar fulltrúa á aðalfund ÖBÍ en þeir sem fóru voru Hjörtur formaður Ingólfur Már varaformaður og Kolbrún framkvæmastjóri.
Óhætt er að segja að þessi aðalfundur var ekki eins dramatískur og sá síðasti en nýr formaður var kjörin sem er Þuríður Harpa Sigurðardóttir – fulltrúi frá Sjálfsbjörg Landssambandi hreyfihamlaðra á Íslandi. Við óskum henni velfarnaðar í viðamiklu starfi. Ítarlegt viðtal er við hana í nýjasta Fréttablaði Heyrnarhjálpar.

 

Aðrir fundir og samstarf:

 

Það voru nokkrir  atburðir og fundir sem við við tókum þátt í.

Þar má nefna t.d. tveggja daga sýningu/ kynningu sem Þekkingamiðstöð Sjálfsbjargar stóð fyrir á hjálpartækjum og þar gafst félögum kostur á að kynna starfsemi sína og söluvörur.
Við tókum bás og vorum þarna í tvo daga eða meðan sýningin stóð yfir.
Við fengum margar heimsóknir í básinn og vakti tónskalinn (hávaðaskalinn ) okkar mikla athygli.
Við vorum með Fréttablöðin okkar og buðum upp á fræðslu og spjall.

 

Við sóttum málþing á Grand Hótel sem Þroskahjálp og ÖBI stóðu fyrir þann 16. maí um Sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

 

Annað málþing um Hjalpartæki daglegs lífs var haldið á Hilton Nordica 27.9 af ÖBI en þar var formaðurinn Hjörtur Jónsson með erindi sem hann kallaði ”Margþættur vandi heyrnarskerts fólks”

 

Við áttum góðan fund með Heyrnar-og talmeinastöð Íslands Í byrjun september þar sem fjallað var um þjónustu við einstaklinga með heyrnarskerðingu/ og talmein.
Farið var yfir stöðuna eins og hún blasir við okkur.
Þar kom fram að bæði skortir fjármagn og fagfólk til að ná markmiðum HTI um þá þjónustu sem þeir vilja veita.
Sænskir farandsérfræðingar hjá HTI leysa helsta vandann nú um stundir.

Þeirra vandi er okkar vandi og því höfum við áhyggjur af þessari stöðu.

 

Skömmu eftir þennan fund skipaði svo þáverandi heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé starfshóp um þá þjónustuþætti sem heyra undir Heyrnar-og talmeinastöð.
Ætlunin var  að fara yfir það sem er í boði fyrir fólk með heyrnarmein og hvað betur megi fara í þeim efnum – heilt yfir.
Svo bar við að Heyrnarhjálp var ekki boðið að koma að þessu borði og rataði sú ákvörðun ráðherrans í fjölmiðla. Stjórn Heyrnarhjálpar vildi ekki sætta sig við þessa  framkomu og var ráðherra og starfsmanni starfshópsins send krafa um að við fengjum að koma að þessari umræðu um okkar baráttumál og var það samþykkt.
Ingólfur Már Magnússon var tilnefndu fyrir okkar hönd.
Að loknum  fyrirfram ákveðnum líftíma starfshópsins var samin skýrsla um niðurstöðu sem við gátum ekki samþykkt og því skiluðum við því inn séráliti.

 

Við sóttum málþing um kjaramál sem Málefnahópur ÖBI um kjaramál stóð fyrir 1. nóvember á Grand Hótel.

 

Við greiddum fyrir rittúlkun á ráðstefnum um aðgengismál sem Málefnahópur ÖBI um aðgengismál stóð fyrir. Rittúlkun er ein af okkar helstu aðgengisleiðum til að fylgjast með og fræðast um það sem rætt er á ýmsum vettvangi.
Hagkaup styrkti þetta átak okkar með 300.000,- kr framlagi sem var eyrnarmerkt rittúlkun.

 

 

Útgáfa fréttablaðs:

Fréttablaðið okkar kom út að venju og er það 21. árið í röð sem það kemur út.
Við rétt náðum að koma því í dreifingu fyrir áramótin, en það dróst úr hömlu vegna mikilla anna ritstjórans. Að lokum var þolinmæðin þrotin og fenginn nýr maður til að ganga í verkið.

Sá sem ráðinn var í staðinn  er Helgi Hólm og hellti hann sér í verkefnið af brennandi áhuga og skilaði okkur fínu blaði sem við erum ákaflega ánægð með og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.
Í blaðinu er m.a. fjallað um reynslu tveggja einstaklinga sem bæði fengu kuðungsígræðslu og hve miklu það breytti þeirra lífi. Viðtal við forstjóra HTI, við söluaðila, við lækni og við nýjan formann ÖBI.
Smá umfjöllun um hljóðvist og gildi hennar og rittúlkun sem við reynum að hafa í hverju blaði hjá okkur enda mikil hagsmunamál fyrir heyrnarskerta.

 

 

Erlent samstarf:
Þátttaka í norrænu samstarfi er einnig hluti af hefðbundnu starfi félagsins, en við höfum lengi verið í samstarfi við systurfélög á Norðurlöndunum.
Við sendum  tvo  fulltrúa til Stockholms þann  16-17. mars á leiðtogafund NHS
(Nordiska Hörselskadades Samarbetskommitté)
og til Asker í Noregi 24-27 ágúst 2017 á ársfund og þemadaga NHS.
Félagið gerðist líka aðili að Evrópusamtökum heyrnarskertra EFHOH
( European Federation of Hard Of Hearing ) og einnig að IFHOH ( International Federatin of Hard of Hearing)  en aðild okkar í þessum samtökum eru fyrst og fremst til að auka vægi norrænu félaganna innan þessarra samtaka.

 

 

Innlent samstarf:
Heyrnarhjálp tekur virkan þátt í starfsemi Öryrkjabandalagsins og hafa stjórnar- og félagsmenn lagt sig fram um að sýna ábyrgð og samvinnu í sínum störfum þar.

Hjörtur var í nefnd þar um endurskoðun úthlutunarreglna og auk þess er hann í
Starfshópi Velferðarráðuneytisins um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna (tilnefndur af ÖBÍ)

Hann er einnig í stjórn Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (skipaður af Menntamálaráðherra.)

Sigrún Magnúsdóttir hefur setið  sem okkar fulltrúi í nefnd um snemmtæka íhlutun sem var samstarfsverkefni með HTI ,SHH, Félagi Heyrnarlausra ofl .

Kolbrún og Ingólfur sóttu málþing um aðgengismál utandyra sem haldinn var á Grand Hótel fyrir stuttu. Málefnið var að beita sér m.a. fyrir hagsbótum í aðgengismálum t.d. um aðgengi á flugþjónustu og um textun, auk þess að beita þrýstingi á ráðamenn í samfélaginu.


Stjórn og framkvæmdastjóri vilja svo að lokum þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóg í okkar málum og stutt okkur með framlagi sínu bæði í starfi og málefnavinnu.

Þá viljum við þakka þeim fyrirtækjum sem hafa sýnt okkur velvilja og styrkt okkur með ýmsum hætti. Helst bera að nefna þar Hagkaup fyrir þeirra framlag til rittúlkunar og Heyrnar-og talmeinastöð sem auglýsir alltaf myndarlega í blaðinu okkar og er okkur til halds og traust með eitt og annað.
Þá höfum við átt mjög góð samskipti við starfsfólk HTI sem alltaf er boðið og búið að styðja við starfsemina hjá okkur með ráðum og dáð.

 

 

 

Þá var farið í ársreikninga

Staðan um áramót var nokkuð góð.
Það verður verkefni nýrrar stjórnar að ákveða hvert skal stefna en núverandi stjórn ákvað að einbeita sér að því að greiða niður skuldir  og auka aðgengi að þeirri þjónustu sem mest er sótt til okkar sem er stuðningur og þjónustu í síma.
Þetta höfum við gert og er nú síminn opinn í raun allan sólahringinn en reyndar er fólk mest að hringja á bilinu 9-17 þar sem það er að hringja í skrifstofusímann sem er áframsendur í gsm-símann minn.

Lán sem félagið var með vegna húsakaupa er uppgreitt en það var upphaflega 6 milljónir.

Þá kemur að rekstrarreikning ársins 2017 að félagið var með 16,5 milljón í tekjur á árinu. Langmest af því er styrktarfé frá ríkinu annars vegar og ÖBÍ hins vegar, en einnig tekjur af auglýsingum í blaðinu go styrkir frá fyrirtækjum.

 

Ef við kíkjum á efnahagsreikninginn, sjáið þið að stærsta eign félagsins er Fasteignin Langholtsvegur 111, sem er bókfærð á 20,7 milljónir. Hún er eitthvað verðmætari en það í raun, en þar sem við hyggjum ekki á sölu þá skiptir það kannski ekki máli.

 

Það stendur fyrir dyrum viðhald á fasteigninni. Þannig að á komandi misserum, og vonandi sem fyrst lendum við í einhverjum kostnaði vegna þess, til dæmis að skipta um glugga í hluta húsnæðisins.
Reikningar samþykktir samhljóða.

Tillaga um félagsgjald – óbreytt 2000,- kr.

 

Lagabreytingar eru engar.

 

Kosningar samkvæmt 5. Grein.
Nú er kosinn formaður til eins árs, Hjörtur Jónsson í kjöri eins og áður og þar sem engin önnur tillaga kemur fram, kosinn einróma með lófataki.

 

Þá er það þannig að Þráinn Sigurbjörnsson og Sigrún Magnúsdóttir hafa lokið tveggja ára tímabili sínu í stjórn og þá þarf að kjósa 2 nýja í stað þeirra.
Þeir hafa gefið kost á sér, Stefán Benediktsson og Sturla Þengilsson.
Ekki fleiri gefa kost á sér og þeir kjörnir með lófataki.

 

Svo þarf að kjósa 2 varamenn, tillaga er um Sigrúnu Magnúsdóttur og Kristínu Margréti Bjarnadóttur og þær kjörnar einróma.

 

Þá er komið að því að kjósa 2 skoðunarmenn reiknigna til eins árs.
Það eru hér tillaga um Sigurjón Einarsson, og Tómas Hallgrímsson, til eins árs. skoðunarmenn reikninga til vara, eru Daniel G. Björnsson og Sigurður Einarsson.

Þeir kjörnir allir án mótframboða.

 

Önnur mál,
Orðið gefið laust:

Hjörtur formaður sagði frá nokkuð stóru og spennandi verkefni hjá félaginu á árinu sem framundan er, en það er að í ár heldur Heyrnarhjálp ársfund og þemadaga fyrir norrænu félögin, fyrir NHS. Kannski svona til að þið áttið ykkur á því hvernig þetta er uppbyggt allt saman, þá eru félög heyrnarskertra í öllum norðurlöndum og í sumum löndum fleiri en eitt og þau hafa sameinast um formlegan samstarfsvettvang sem heitir NHS.

 

Þessi formlegi samstarfsvettvangur norrænu félaganna meðala annars hefur það hlutverk að vinna fyrir norrænu ráðherranefndina og þetta er ekki síður mikilvægt fyrir okkukr á Íslandi, þarna fáum við mikla innsýn í það hvað er að gerast í málefnum heyranrskertar á norðurlöndum, en þessi samstarfsvettvangur norrænu félaganna, heldur aðalfund einu sinni á ári go til að gera fundina meira spenanndi hefur einn dagur verið tekinn frá sem þemadagur, þar sem eru fyrirlestrar og framsögur sem eru opnar félagsmönnum ef þeir vilja um eitthvað tiltekið málefni og í ár verður málefnið hvernig tækniþróun hefur áhrif á líf heyrnarskertra.

 

En sem sagt, undir lok ágúst þá stendur Heyrnarhjálp fyrir aðalfund á þemadögum norðurlandanna. Þemadagurinn og aðalfundurinn verður á Hótel Selfossi. Þemadagurinn verður laugardagurinn 31 ágúst og þemadagur 1. september

 

Formaður þakkaði fundarstjóra og rittúlki- gestum og velunnurum og sleit fundi.

 

 

 

Tímabundin hlutastörf hjá ÖBI


Öryrkjabandalag Íslands auglýsir eftir tveimur starfsmönnum í tímabundin hlutastörf við átaksverkefni á sviði aðgengismála á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Samanlagt er gert ráð fyrir 100% starfshlutfalli sem skiptist á milli starfsmanna eftir samkomulagi. Átaksverkefnið mun standa yfir í sex mánuði.
Fatlað fólk/fólk með skerðingar er sérstaklega hvatt til að sækja um.

Ítarleg auglýsing hefur verið birt á vef ÖBÍ (https://www.obi.is/is/utgafa/frettir/adgengisatak-obi) og munu auglýsingar jafnframt birtast í blöðum um helgina auk þess sem henni verður dreift á Facebook síðu ÖBÍ.

 

 

 

Ingimar Karl Helgason, samskiptastjóri

Öryrkjabandalag Íslands

Sigtúni 42

105 Reykjavík

www.obi.is

Gsm. 659-3442

Netfang: ingimarkarl@obi.is

Ósk um nýtt embætti

Þessi póstur er tekinn af heimasíðu ÖBI 10. janúar þegar formaður ÖBI, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, og formaður Þroskahjálpar, Bryndís Snæbjörnsdóttir, hittu forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, að máli og lögðu fram kröfur um embætti umboðsmanns fyrir öryrkja og langveika.
*****
UMBOÐSMAÐUR FATLAÐS- LANGVEIKS FÓLKS
ÖBÍ leggur til að sett verði á fót embætti Umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks. Formleg tillaga um þetta var lögð fram á fundi formanna ÖBÍ, Þroskahjálpar og forsætisráðherra sem haldinn var í morgun.

Mannréttinda sé gætt

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, afhenti Katrínu Jakobsdóttur skriflega tillögu um embættið, hlutverk þess og verkefni. Samkvæmt tillögunni yrði hlutverk umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks að taka við erindum frá einstaklingum og fella úrskurði út frá gildandi lögum, sem væru til grundvallar skaðabótamála ef ekki er brugðist við. Þá hefði embættið það hlutverk að benda stjórnvöldum á gloppur í íslenskri löggjöf um mannréttindi út frá skuldbindingum alþjóðasáttmála.

Grundvallarmarkmið í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er viðurkenning á rétti fatlaðs fólks til að njóta sömu mannréttinda og aðrir samfélagsþegnar og skyldu aðildarríkjanna til að tryggja þau. Embætti umboðsmanns fatlaðs fólks og sjúklinga væri liður í innleiðingu og lögfestingu SRFF.

Fram kemur í tillögu ÖBÍ að sams konar embætti eru starfrækt annars staðar á Norðurlöndunum. Mikilvægt sé að svona embætti verði sett á stofn hérlendis sem fyrst enda hljóti það að vera vilji stjórnvalda að tryggja réttindi þessa hóps og standa þar með jafnfætis þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við.

Undarleg vegferð

Þuríður Harpa og Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, ræddu ítarlega um kjaramálin á fundinum með Katrínu. Meðal annars var farið yfir fjárlagafrumvarp ársins, fyrirhugaðar breytingar á almannatryggingakerfinu, krónu-á-móti-krónu skerðinguna, SFRR og vinnumarkaðinn og fatlað fólk.

Bent var á að fjárlagafrumvarp þessa árs hefði valdið Öryrkjabandalaginu vonbrigðum. Ljóst væri að kjör öryrkja myndu ekki batna að raungildi í ár. ÖBÍ og Þroskahjálp fagna hækkun atvinnuleysisbóta, en benda á um leið á að þær hækkuðu langt umfram bætur lífeyrisþega. Það væri umhugsunarvert á hvaða vegferð ríkisstjórnin væri þegar svo augljóslega og freklega væri gengið framhjá lífeyrisþegum almannatrygginga.

Þvingunartaktík stjórnvalda

Þuríður Harpa og Bryndís bentu jafnframt á að stórkostlegur niðurskurður á fyrirhugaðri aukningu á framlögum til málaflokksins væri slæmur. Búið var að lofa fjórum milljörðum króna, jafnt í fjármálaáætlun sem lögð var fram síðasta vor, sem og í því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi í haust. Þessi breyting ein leiðir til þess að öryrkjar á Íslandi verða af ellefu hundruð milljónum króna á árinu 2019 eða sem svarar 55 þúsund krónum að meðaltali á hvern einstakling á ári. Að halda því fram að þetta hafi verið gert vegna vinnu starfshóps sem samtök okkar hafa í góðri trú tekið þátt í stenst enga skoðun. Það er því engin furða að mjög margir öryrkjar telji að stjórnvöld vilji með þessu þvinga þá til að samþykkja nýtt kerfi um starfsgetumat.

Þá er það, að mati samtaka okkar, Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar, mjög mikið áhyggju- og umhugsunarefni að í allri umræðunni um skerðingar, fjölgun öryrkja og hugsanlega nýtt matskerfi hefur að mestu gleymst að ræða megintilgang almannatrygginga sem er að tryggja framfærslu þess hóps sem vegna fötlunar eða langvarandi sjúkdóma getur ekki séð sér farborða.

Órétt þarf að bæta

Á fundinum í morgun lögðu Þuríður Harpa og Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, einnig fram minnisblað um vistun fatlaðs fólks á stofnunum og ræddu við forsætisráðherra um skyldur stjórnvalda til að bregðast við því sem fyrir liggur um þau mál með viðeigandi hætti sem og að bæta þeim sem urðu fyrir órétti eftir því sem mögulegt er.

 

Gleðilegar fréttir frá RÚV


Nú voru að  berast góðar fréttir frá RÚV.

Nú á að vera hægt frá 18. desember að nálgast allt íslenskt efni sem hefur verið for-textað með íslenskum texta á vef RÚV.

Næsta og síðasta skrefið hjá RÚV er að texta efni sem sent er beint út með sama hætti.

Þetta eru gleðifréttir og við förum bjartsýn inn í jólahátíðina með væntingar í brjósti um góða samvinnu á næsta ári.

Stjórn Heyrnarhjálpar fagnar þessum áfanga og óskar lesendum og félagsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári um leið og við þökkum stuðning og samvinnu á árinu.