Málstofa hjá SHH um merkingu litaheita milli tveggja heimsálfa

dreamstime_m_12653621
Áttunda málstofan verður þann 10. nóvember kl. 14:30-15:30 á SHH,
Grensásvegi 9, Reykjavík.

Viðfangsefni: Sinn er siður í landi hverju – um merkingu og orðmyndun litaheita milli tveggja heimsálfa
Fyrirlesari: Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, doktorsnemi í íslensku við HÍ og stundakennari í ensku

Tvær meginhugmyndir eru gildandi um tilvist merkingar. Annars vegar sú að hugarfar mannsins hafi áhrif á málið, þannig að hugtök og merkingarsvið ættu fremur að vera einsleit vegna sameiginlegra skynfæra mannanna; og hins vegar sú að vegna þess að tungumál séu mörg og mismunandi ættu hugtök og merkingarsvið að vera mjög ólík, því að tungumálið hafi áhrif á hugann.
Litaheiti eru hentugt merkingarsvið til að skoða merkingu vegna nálægðar þess við skynjun. Með hugmyndirnar tvær sem útgangspunkt er spurningin svo hvort að litaskynjunin hefur meiri áhrif á litaheitin heldur en málin sjálf, skyldleiki þeirra og mismunur. Í þessari athugun eru skoðuð málin íslenska, íslenskt táknmál, vesturíslenska, amerísk enska og bresk enska, til þess að reyna að svara því hvort sérstök einkenni hvers máls hafi áhrif, fram yfir málfræðina sjálfa og yfir í merkinguna. Þrátt fyrir það að sum málin séu mjög skyld (t.d. íslenska og vesturíslenska), og önnur mjög óskyld (t.d. íslenska og íslenskt táknmál) og aðferðir þeirra til orðmyndunar því mjög ólíkar, þá virðist sem svo að raunverulegur merkingarmunur sé svo gott sem enginn.

Sé rittúlkunar óskað þarf að panta hana með því að senda póst á netfangið tulkur@shh.is fyrir
kl. 16:00 fimmtudaginn 3. nóvember.

Málstofan er öllum opin.

Kosningar heilbrigða fólksins

Áslaug Ýr Hjartardótir

Í aðdraganda forsetakosninga veltir Áslaug Ýr Hjartardóttir fyrir sér hvort lýðræði Íslands nái einnig til „fatlaðra“ Íslendinga.

Íslenskan er hreinasta tungan á Norðurlöndunum, íslenskt lambakjöt er það besta sem fyrirfinnst, íslenska vatnið er ótakmarkað og hreint, Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu, jafnrétti kynjanna er hvergi betra en einmitt á Íslandi og Ísland er mikil mannréttindaþjóð… Eða hvað?

Það hefur varla farið framhjá neinum að kosningar til embættis forseta Íslands eru í aðsigi. Sem lýðveldi kjósa Íslendingar forseta á fjögurra ára fresti en til þess að þeir kynnist forsetaframbjóðendum betur og fá tækifæri til að vanda valið er að sjálfsögðu haldin kosningabarátta þar sem frambjóðendur reyna að vinna hug og hjörtu Íslendinga með orðum og gjörðum, m.a. með því að halda kappræður sín á milli. Hér spila fjölmiðlar veigamikið hlutverk þar sem þeir eru gjarna nýttir sem tengiliðar milli forsetaframbjóðenda og þjóðarinnar. Fjölmiðlar birta greinar, gera spjallþætti, búa til auglýsingar og miðla upplýsingum í gegnum útvarp, sjónvarp og síðast en ekki síst Netið. En það er hins vegar á ábyrgð ríkisins að framkvæma kosningarnar, og til þess að niðurstöðurnar séu sanngjarnar og réttar eru kosningalög sem ríkistjórnin fer eftir. En hver er þessi umrædda þjóð? Er íslenska lýðræðið fyrir alla?

Í Íslenskri orðabók handa skólum og almenningi í ritstjórn Árna Böðvarssonar má finna hvorki meira né minna en fimm skilgreiningar á hugtakinu þjóð. Má þar helst nefna tvær fyrstu skilgreiningarnar sem eru annarsvegar að þjóð er hópur fólks sem hefur sameiginlega tungu, sögu og menningu og finnur til samkenndar, og hinsvegar merkir þjóð þegna ríkis. Þessar skilgreiningar samrýmast þýsku og frönsku kenningunum um þjóð. Fyrri skilgreiningin á vel við þýsku kenninguna sem rekja má allt til upphafs 19. aldar, en orðabókin er þó að gera mikla einföldun á flókinni pólitískri kenningu sem margir fræðimenn hafa rætt og ritað um í gegnum tíðina. Seinni skilgreiningin á við um frönsku kenninguna sem segir að þjóð er hópur fólks með sama ríkisborgararétt, gerist einhver ríkisborgari samþykkir hann að vera hluti af þjóðinni. Þetta eru tvær andstæðar kenningar, enda má þess geta að Frakkar og Þjóðverjar voru lengi vel miklir andstæðingar. Kenning Frakka felur í sér lýðræði, fólk þarf t.a.m. að hafa íslenskan ríkisborgararétt till að mega kjósa hérlendis, eins og rætt verður um síðar í greininni. Það er þó bein vísun í þýsku kenninguna þegar fólk segir að allir Íslendingar tali íslensku, sem er ekki raunin ef nánar er farið út í það með tilliti til frönsku kenningarinnar. Hér á eftir verður sjónum beint að „fötluðu“ Íslendingunum, og hvort lýðræði Íslands nær einnig til þessa stóra jaðarhóps.

Áður en lengra er haldið er réttast að rýna aðeins í orðið lýðræði. Samkvæmt íslensku stjórnarskránni er Ísland lýðveldi. Almenn þýðing á lýðveldi er að lýðurinn kýs sinn eigin þjóðarhöfðingja og telja Íslendingar sig búa við lýðræði. Margar skilgreiningar eru á dýpri merkingu lýðræðis, en á yfirborðinu merkir hugtakið að lýðurinn ræður. Í riti sínu, Democratic and Undemocratic States, skilgreinir Richard Rose lýðræði sem ríki þar sem eru kosningar með frjálsri og sanngjarnri kosningabaráttu og þar sem ríkja lög og reglur. Því meiri kröfur sem fólk gerir til lýðræðis, því meira verður það, en mörkin milli lýðræðis og einræðis eru þó örmjó og er stundum talað um bananalýðræði þ.e. lýðræðisríki þar sem ríkir mikil spilling. Hér á eftir verður stuðst við skilgreiningu Rose þegar fjallað er um lýðræði Íslendinga.

Samkvæmt íslensku stjórnarskránni eru allir sem eru 18 ára og eldri og með íslenskan ríkisborgararétt kjörgengir. Þá er stjórnarskráin að meina alla Íslendinga sem hafa náð 18 ára aldri, hvort sem þetta eru konur eða karlar, verkamenn, milljónanæringar, ellilífeyrisþegar eða öryrkjar. Ennfremur stendur í 33. gr. laga um kosningar til Alþingis að kosningarétt hefur hver sá sem hefur náð 18 ára aldri, er íslenskur ríkisborgari og á lögheimili á Íslandi. Í 34. gr. sömu laga segir að kjörgengur sé hver sá sem hefur kosningarétt og óflekkað mannorð, að hæstaréttardómurum undanskildum, og gilda þessi lög einnig um forsetakosningar. En til þess að fólk geti kosið þarf það að vita hverjir eru í framboði og hafa aðgang að upplýsingum, kjörstað og jafnvel kjörseðli. Nú fer málið að vandast, því staðreyndin er sú að oft gleymist að gera ráð fyrir fötluðu fólki. Sem dæmi má nefna kappræður milli fjögurra forsetaframbjóðenda á opinni dagskrá Stöðvar 2 þann 26. maí síðastliðinn, en þær voru hvorki textaðar né táknmálstúlkaðar og eru þetta ekki einu kappræðurnar í ár þar sem aðgengið er mjög takmarkað. Þess má geta að í íslenskum lögum sem samþykkt voru á Alþingi þann 11. maí 2011, er kveðið á um að íslenskt táknmál (ÍTM) sé móðurmál heyrnarlausra og sé jafnrétthátt íslenskunni. Rúmlega 200 Íslendingar hafa ÍTM að móðurmáli en samt var ekkert hugsað út í það í þessum kappræðum.

„Það má því segja að það sé alls ekki í samræmi við áðurnefnd ákvæði þegar kosningabarátta er hvorki textuð né táknmálstúlkuð.“

Einnig má geta að í 9. gr. Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks stendur m.a. að aðildaríki skulu tryggja aðgang fatlaðs fólks að upplýsingum, s.s. með viðeigandi tækjabúnaði og táknmálstúlkun. Ísland er eina Norðurlandið og eitt af þeim 23 ríkjum í Sameinuðu þjóðunum sem hefur ekki enn fullgilt þennan sáttmála og miðað við hvernig staðan er í dag þarf að gera miklar breytingar hér á landi áður en Ísland getur fullgilt hann, en það er efni fyrir aðra og mun lengri grein. En það er þó viðurkennt á alþjóðavettvangi að það að fá táknmálstúlkun eru almenn mannréttindi en ekki forréttindi. Það má því segja að það sé alls ekki í samræmi við áðurnefnd ákvæði þegar kosningabarátta er hvorki textuð né táknmálstúlkuð.

Annað dæmi um mismunun við fatlað fólk eru lög um aðstoð við að kjósa. Í 63 og 86 gr. laga um kosningar til Alþingis, sem einnig gilda í lögum um forsetakosningar, segir m.a. að kjörstjóri skuli aðstoða ef kjósandi getur ekki kosið sjálfur sökum sjónleysis eða vegna þess að hann getur ekki notað hendurnar. En vilji kjósandi ráða hver aðstoði hann skal kjörstjóri gera hlé á atkvæðagreiðslunni og leyfa þeim sem eru á staðnum að klára að kjósa. Svo skulu allir nema kjörfundurinn og kjósandinn sem þarf aðstoð, yfirgefa staðinn. Kjósandinn á að útskýra mál sitt einn og óstuddur á skýran hátt. Ef hann getur ekki tjáð sig, þarf hann að framvísa vottorði frá réttargæslumanni fatlaðra. Aðstoðarmaðurinn má ekki vera viðstaddur þegar kjósandinn skýrir mál sitt, sem hentar heyrnarlausum kjósendum afar illa og enn verr ef kjósandinn bæði sér og heyrir illa. Kjósandinn getur kannski vel tjáð sig, en hann hvorki heyrir né sér viðbrögðin og verður þar af leiðandi óöruggur þegar hann hefur engan til að túlka fyrir sig og greina frá þvi sem er að gerast í kringum hann. Auk þess má sama manneskjan ekki aðstoða tvívegis í sömu kosningum, sem er ekki að henta litla Íslandi, þar sem tveir aðilar geta deilt sama aðstoðarmanni alveg án þess að vita af því. Við erum nefnilega að tala um starfsgrein þar sem aðstoðarfólk fær laun og er bundið trúnaði. Í 3. gr. Sáttmála S.Þ. um réttindi fatlaðs fólks stendur m.a. að fatlað fólk á rétt á að taka eigin ákvarðanir og að aðildaríki skulu tryggja að það geti tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra. Einnig er lagt blátt bann við mismunun, og áhersla lögð á að virðing sé borin fyrir fjölbreytileikanum. Svo má ekki gleyma 29. gr. sáttmálans en þar er fjallað um þátttöku til stjórmála og kosninga. Þar stendur að aðildarríki skulu tryggja aðgang fatlaðs fólks að kosningum og stjórnmálum til jafns við aðra og án þvingana. Í 2 mgr. þessarar greinar stendur að aðildaríki skulu tryggja að:

,,fatlað fólk geti tjáð frjálst vilja sinn sem kjósendur og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði.“ (þýðing Ágústu Þorbergsdóttur, 2013)

En ef fatlaður kjósandi má ekki ráða sjálfur hver aðstoðar hann við að kjósa og þarf að hafa mikið fyrir því að komast í kjörklefann með aðstoðarmann sinn, þá er varla hægt að tala um frjálsar og sanngjarnar kosningar, hvað þá jafnrétti.

Þegar allt kemur til alls þá er þessi þjóð sem minnst var á í upphafi greinarinnar líklega sá hluti þjóðarinnar sem hefur fulla heyrn, sjón og hreyfigetu. Dæmi eru til um að fatlað fólk sleppi því að kjósa af því að það fær ekki viðeigandi aðstoð eða er ekki sátt með hvernig fyrirkomulagið virkar. Það er skiljanlegt ef ríkið vill tryggja að kosningarnar séu réttar, en það er e.t.v. ekki á réttri leið ef það er að setja flókin lög um aðstoð í kosningum, sem eiga að vera sjálfsögð mannréttindi. Þá er varla hægt að tala um lýðræði ef ekki allir Íslendingar fá tækifæri til að fylgjast með forsetakosningarbaráttunni og hafa greiðan aðgang að kjörklefanum. Kannski er kominn tími til að endurskoða kosningalögin, gera viðeigandi breytingar til að tryggja aðgang allra að upplýsingum um kosningarnar og síðast en ekki síst að fullgilda Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Lokað vegna sumarleyfa 4. og 5. júlí.

Skrifstofa Heyrnarhjálpar verður lokuð mánudaginn 4. júlí og þriðjudaginn 5. júlí vegna sumarleyfia
Opnað aftur 6. júlí. 2016 kl 9:00

?????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????

Aðalfundur Heyrnarhjálpar 2016

Nú er komið að aðalfundi félagsins þetta árið og verður hann haldinn þriðjudaginn 12. apríl kl 20:00 í Safnaðarheimili Langholtskirkju að þessu sinni.

Ástæðan fyrir staðsetningunni er sú að við höfum nú leigt út meirihluta af okkar húsnæði og þetta er bara handan við götuna. Auk þess höfum við átt afar ánægjulegt og gott samstarf við Langholtskirkju og starfsfólk þar.

Það verða næg bílastæði og allir hjartanlega velkomnir.

Þeir sem eru til í að gefa kost á sér í stjónr félagsins endilega hafið samband við Kolbrúnu framkvæmdastjóra í síma 8666444.

Það er bæði fróðlegt og gefandi að vinna að félagsmálum og þetta er ekki mikill tími sem fer í þetta.

Í dag 3. mars er Alþjóðadagur Heyrnar.

 

Eyrnasuðsþjáningar

 

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur valið 3. mars ár hvert til að vekja athygli á mikilvægi heyrnar og heyrnarverndar og málefnum því tengdum.

 

Hljóðvist – hávaðavarnir og fræðsla er eitthvað sem þarf stöðugt að huga að.

 

Öll fyrirtæki og stofnanir sem vilja gefa sig út fyrir að vera í gæðaflokki  varðandi þjónustu ættu að leggja metnað sinn í að gera húsnæði sitt þannig að auðvelt sé fyrir heyrnarskerta að leita til þeirra. Það kostar ekki mikla peninga en gerir mikið fyrir heyrnarskerta.

 

Stofnanir þar sem börn dvelja, svo sem skólar, leikskólar og félagsmiðstöðvar ættu að leggja mikla áherslu á góða hljóðvist sem og strangt eftirlit með hávaða í sínum húsakynnum. Heyrn barna er viðkvæmari fyrir hávaða en heyrn fullorðinna.

 

Samkvæmt tölum frá WHO er talið að 5 % af íbúum heimsins séu með einhverja  heyrnarskerðingu eða heyrnarmein  þó í mismiklum mæli. Það gera um það bil 360 milljónir og er talið að af þeim séu um  það bil 32 milljónir börn.

 

Þetta  heilbrigðisvandamál fær litla umfjöllun og skilning, en erfitt er að átta sig á því af hverju þetta stafar þar sem þetta hefur gríðarleg áhrif á möguleika fólks til að lifa eðlilegu lífi og bitnar á félagslífi, atvinnu og daglegum samskiptum við aðstandendur og aðra.

 

Félagsleg einangrun fylgir fljótt í kjölfar skerðingar ef ekki er brugðist við í tíma, t.d. með heyrnartækjum, textun og aðstoð við að tileinka sér þau hjálpartæki sem henta.

 

Ágæti lesandi

 

Megi þér auðnast að halda sem lengst í góða heyrn og endilega sýndu okkur hinum skilning.

 

Afdrifarík fagnaðarlæti

Tinnitus-kvalir

Samkvæmt Borås Tidning er  34. ára gamall stuðningsmaður fótboltaliðs Norrköpings í Svíþjóð ákærður fyrir að hafa sprengt  hvellhettur  meðan á keppni stóð milli Norrköping og Elfsborg í október s.l.
Þetta leiddi til þess að þrír menn fengu mikla verki og suð í eyrun.
Nú eru tveir þeirra að jafna sig en sá þriðji, sem er ungur leikmaður, hefur nýlega verið hjá lækni og fengið staðfest að hann sé nú með tinnitus sem er varanlegt eyrnasuð.
Þetta er kannski eitthvað sem við ættum að huga að.
Oft eru  mikil læti og hávaði á íþróttakeppnum hér á landi.
Þá er fólk ekki að leiða hugann að afleiðingunum fyrir aðra, jafnvel óþægindum fyrir lífstíð.

Heyrnartól í eyra geta skaðað heyrnina

???????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????

Samkvæmt nýlegri rannsókn getur maður tapað allt að 90 % af taugavirkni í kuðungi innra eyrans með of mikilli notkun á eyrnartappa- heyrnartólum. 

Heyrnartól í eyra (Ear bud headphones) geta, jafnvel við lágan hljóðstyrk, valdið varanlegum skaða á heyrn þinni.

Rannsóknarteymi við Harvard Medical Schoo í Bandaríkjunum (Eaton Peabody Laboratory) hafa komist að því að allt að 90% af taugafrumum í kuðungi innra eyrans geta orðið fyrir skaða án þess að tapa hæfileika til að nema hjóð í kyrrlátu umhverfi. En um leið og umhverfishávaði myndast þá hrapar heyrnin verulega. Hárfrumur í innra eyra geta þannig verið til staðar en heyrnin er sködduð vegna þess að taugaendar eru skemmdir og gegna ekki hlutverki sínu.

Falið heyrnartap

Síðustu áratugina hafa vísindamenn nær eingöngu talið að heyrnarskaði sé einkum af völdum þess að hárfrumur tapist eða virkni þeirra hætti. Nýleg rannsókn sem birtist í Acoustical Society of America skýrir hins vegar frá nýjum niðurstöðum um „falið heyrnartap“ sem gæti varpað nýju ljósi á heyrnartap og heyrnarvernd.

Hljóð berst um miðeyra og til kuðungs innra eyrans þar sem bylgjur í vökva hanns örva hárfrumur. Hreyfingar hárfrumanna mynda síðan rafboð sem berast um heyrnartaugina og til heilans. Og það er einmitt að þessari virkni sem þessi nýja uppgötvun beinist

Taugaskemmdir

Heyrnartæki í eyra (ear-bud headphones) færa sterkari og hættulegri bylgjur beint í kuðung eyrans – jafnvel við ekki mjög háan hljóðstyrk. Þar sem engin meðferð er til við taugaskemmdum í kuðungi innra eyrans ráðleggja vísindamennirnir eindregið að aðgát sé höfð.

“Skemmdir taugaendar munu aldrei tengjast aftur“ segir Charles Liberman, forstöðumaður Eaton Peabody Lab. “Þeir sýna ekki lengur viðbrögð við hljóði og afgangur af virkni taugafrumanna mun síðan hverfa á nokkrum mánuðum eða árum.“

Prófið 60/60 regluna!

Til að hægja á heyrnarskerðingum af þessum völdum er ráðlagt að nota frekar heyranrtól sem falla yfir eyru (ekki í eyru). Slík heyrnartól dreifa hljóði á eðlilegri máta til eyrans og minnka áfallið sem innra eyrað verður fyrir.

Sérfræðingarnir ráðleggja einnig fólki að fylgja s.k. 60/60 reglu: Aldrei stilla hljóðstyrk hærra en 60% og aldrei lengur en í 60 mínútur í einu.

Heimildir: www.nydailynews.com og www.sciencedaily.com

Lokun skrifstofu

???????????????????????????????

 

Skrifstofa Heyrnarhjálpar verður lokuð frá og með 14. til og með 22 desember.

Við sendum okkar bestu óskir um ánægjulega aðventu og vonum að sem flestir eigi góða daga í aðdraganda jólanna.

 

Með góðu fólki

Rittúlkunarmessa 15.11.2015
Það er gaman að segja frá því að rittúlkaða messan sem haldin var 15 nóvember tókst mjög vel.
Tveir prestar, þau sr. Jóhanna Gísladóttir og Jón Dalbú Hróbjartsson sáu um guðsþjónustuna.
Yndislega fallegur söngur hjá stúlknakórnum Graduale Futuri gladdi kirkjugesti svo mjög að gefið var leyfi til að klappa.
Fermingarstúlkan Emma Eyþórsdóttir söng einsöng og stóð sig mjög vel.
Þórný Björk Jakobsdóttir sá um rittúlkun.
Það var gerður góður rómur að því hve það væri gott að hafa þetta upp á skjá líka.
Það var ánægjulegt að sjá hve margir mættu í messuna en kirkjan var nánast fullsetin.
Vonandi urðu margir fróðari um hvað rittúlkun er og hvernig hún virkar til hagsbóta fyrir þá sem eru heyrnarskertir.
Við þökkum Langholtskirkju fyrir samvinnuna en þetta er í þriðja sinn sem þeir bjóða upp á rittúlkaða messu í samvinnu við Heyrnarhjálp.

Rittúlkuð messa í Langholtskirkju

Lang 3
Sunnudaginn 15. nóvember er messa í Langholtskirkju kl. 11
.00

Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson þjónar fyrir altari og sr. Jóhanna Gísladóttir predikar.

Organisti er Jón Stefánsson.

Stúlknakórinn Graduale Futuri leiðir safnaðarsöng og tekur lagið undir stjórn Rósu Jóhannesdóttur.

Emma Eyþórsdóttir, verðandi fermingarbarn, mun einnig koma fram og syngja. 

Messuþjónar og fermingarbörn aðstoða við messuhald.

Messan verður rittúlkuð í samvinnu við félagið Heyrnarhjálp.
Rittúlkur er Þórný Björk Jakobsdóttir.

Sunudagaskólinn fer fram á sama tíma undir stjórn Snævars Jóns

Andrjessonar og Hafdísar Davíðsdóttur.

Barnakórinn sem syngur í messunni ætlar að vera með

kaffi- og kökusölu eftir messuna í safnaðarheimili kirkjunnar.

Allir velkomnir!