Don´t let hearing loss limit you.

Alþjóðlegi heyrnardagurinn er í dag þann 3. mars og er hann haldinn ár hvert til að minna á mikilvægi þess að vernda heyrnina og koma í veg fyrir heyrnarleysi og heyrnarskerðingu.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur á hverju ári verið með ýmsar uppákomur í tilefni dagsins og boðið öðrum heilbrigðisstofnunum að taka þátt í því með sér.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands heldur upp á daginn að þessu sinni, í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vinnueftirlitið, með því að heyrnarmæla meðlimi Sinfóníuhljómsveitarinnar og mæla hávaða á mismunandi vinnustöðum Sinfóníunnar.

Þá var mjög gott viðtal við framkvæmdastjóra HTÍ, Kristján Sverrisson, í morgunútvarpi RÚV .
Það er hægt að hlusta á það í Sarpinum
https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunutvarpid/23822/7grqtf

Um leið og við hjá Heyrnarhjálp þökkum fyrir framtakið, bæði WHO- Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og HTI sem er heilbrigðistofnun fyrir okkar geira, hvetjum við alla til að huga vel að heyrninni og það fyrr en seinna.

Skemmd heyrn verður ekki bætt og því er mjög mikilvægt að huga vel að hávaða í umhverfinu, einkum umhverfi barna og ungmenna. Þeirra heyrn er viðkvæmari en okkar sem erum fullorðin.
Allir foreldrar ættu að hafa app ( dB Sound Meter t.d. ) í símanum sínum til að kíkja á hver hávaðinn er hverju sinni.

Við ykkur sem eldri eruð viljum við ítreka að það er engin ástæða til að láta heyrnarskerðingu hefta sig þegar tæknin er orðin eins mögnuð og hún er í dag.  Nú eru heyrnartæki við allra hæfi og það er lykillinn að því að lifa góðu og litríku lífi.

Látum ekki heyrnarskerðinguna hefta okkur eða eins og þeir segja þetta árið hjá Who  : Don´t let hearing loss limit you.