14.11.1937


Það er tilvalið að staldra aðeins við í dag og minnast þess að þegar félagið var stofnað, en það var einmitt þennan dag fyrir 82 árum síðan.
Það byrjaði þannig að Pétur Þ. Gunnarsson kaupmaður í Reykjavík sá mann með heyrnartæki á ferð sinni til Frakklands.
Hann kom heim og fékk til liðs við sig fólk sem lét sig málefnið varða. Hann og fleira áhugafólk um heyrn spurðu sig í framhaldinu, hvort ástæða væri til að sætta sig við að heyra bara hálfa heyrn. Þau stofnuðu félagið Heyrnarhjálp 14. nóvember 1937 til að vinna að framgangi þessara mála.
Í mörg ár var Heyrnarhjálp eina félagið sem vann í okkar málaflokki og gerði það í marga áratugi m.a. með innflutningi og sölu heyrnartækja.
Árið 1979 tók Heyrnar- og talmeinastöð við keflinu og við snérum okkur meira að fræðslu og baráttumálum heyrnarskertra.

Fæstir leiða hugann að því að heyrnarskerðing er einn algengasti heilsufarskvilli sem hrjáir fólk sem komið er um og yfir miðjan aldur.
Ef þessi kvilli er ekki meðhöndlaður hefur hann mikil áhrif á lífsgæði fólks.
Þannig þarf það ekki að vera ef skerðingin uppgötvast nógu fljótt og ef brugðist er við í tíma.
Þessi heyrnarskerti hópur stækkar og yngist ár frá ári þar sem unga fólkið býr við miklu meira hávaðaáreiti en við gerðum sem nú erum um og yfir  miðjum aldri.
Við í Heyrnarhjálp höfum reynt að vekja athygli á því að flestir fara allt of seint að nota heyrnartæki.
Því fyrr þess betra segjum við en almennt er talið að fólk fari u.þ.b. 10 árum of seint að huga að þessum vandamálum sínum.
Við lítum á það sem okkar hlutverk að vekja athygli á lausnum og leiðum til lífshamingju.
Látum ekki eigin fordóma taka okkur úr leik.

Markmið Heyrnarhjálpar

er að vekja athygli á þeirri fötlun sem heyrnarskerðing er og á þá einangrun sem henni fylgir ef ekki er brugðist rétt við.

…að deila þekkingu á hjálpartækjum tengdum heyrn og ráðleggingum til fólks svo það geti haldið áfram að vera virkir samfélagsþegnar.

… að deila fróðleik til ungra foreldra og ungs fólks um hávaðaskemmdir og hvetja það til að vernda heyrn sína og barna sinna.

…að berjast gegn fordómum með því að auka sýnileika og gefa út blöð og upplýsingabæklinga til fróðleiks.

… að berjast fyrir menntun rittúlka og ná sömu stöðu og nágrannalöndin í þeirri þjónustu við heyrnarskerta að þeir eigi rétt á rittúlkun við ýmsar athafnir og við ýmis tækifæri.

…við berjumst fyrir því að réttindi heyrnarskertra séu virt og aukin til jafns við aðra sambærilega fötlunarhópa.

Við viljum líka að einstaklingar með heyrnarfötlun fái fullt valfrelsi um hvaða túlkunarform þeir velja hverju sinni.

Rjúpan

Nú er veiðitímabil fyrir rjúpnaveiði hafið og ef að líkum lætur er mikill hugur í veiðimönnum landsins og miklar væntingar um góða veiði.
Það er búið að fjölga dögum úr 15 í 22 og er það er vel.
Það hlýtur að gefa fleirum tækifæri til að fara á rjúpu og menn fara síður út í vafasamt veður.
Við hjá Heyrnarhjálp viljum minna veiðimenn á að gæta að heyrnarheilsu sinni af sömu fyrirhyggju og öðrum öryggisþáttum sem huga þarf að þegar gengið er til rjúpna.
Eitt skot getur skert heyrnina og þá er það til frambúðar og varanlegt.
Góðir eyrnatappar vernda heyrnina en menn heyra samt jafnvel í rjúpunni eftir sem áður.
Það er sannarlega þess virði að huga vel að þessum þætti og vonandi gera það sem flestir.

Góða skemmtun og komið heilir heim  ….

 

hlaupastyrkur


Nú var Íslandsbanki að leggja inn á bankareikning hjá okkur fjárhæð sem okkur munar um.
Þetta er fé sem safnaðist í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst s.l.
Við erum þakklát fyrir þetta og þann hlýhug sem fylgir.
Við viljum sérstaklega þakka þeim einstaklingum sem hlupu til styrktar málefndum heyrnarskertra en það voru:
Davíð Þór Björgvinsson, Jón Reginbald Ívarsson, Búi Þór Birgisson og Guðmundur Ágúst. Hafi þeir kæra þökk fyrir hlaupið.
Talið er að u.þ.b. 50.000 manns séu með einhverskonar heyrnarmein ( WHO – alþjóða heilbriðgisstofnunin ) og vert að huga að því hve margir þjást af þeirri fötlun þó mismikil sé.
Stuðningur við okkur er því stuðningur við mjög marga því við vinnum fyrir heildina eins og við getum best.

Ungliðahreyfing ÖBI


Ungliðahreyfing ÖBÍ stendur fyrir opnum fundi þriðjudaginn 5. nóvember n.k. í húsakynnum ÖBÍ að Sigtúni 42

Fundurinn hefst kl 17 og stendur til 19.

Félagsmenn sem eru á aldrinum 18 til 35 ára eru hvattir til að mæta og taka þátt.

 

 

Heymsókn í Rangárvallasýslu

Mánudaginn 14. okt. var  haldinn fræðslufundur í samvinnu við eldri borgara í Rangárvallasýslu um heilbrigðismál.
Þar var kynning á baráttumálefnum heyrnarskertra og kynning á félaginu Heyrnarhjálp, bæði sögu þess og starfsemi fram til dagsins í dag.
Kolbrún Stefánsdóttir framkvæmdastjóri sá um þá kynningu en Helgi Hólm stjórnarmaður og ritstjóri Fréttablaðs Heyrnarhjálpar kynnti nýjustu fréttir frá Almannarómi um talgervil sem verið er að hanna og á hann að breyta talmáli í texta.
Á þessum fundi voru einnig fulltrúar frá Heilaheill, þeir Þórir Steingrímsson formaður og sr. Baldur Kristjánsson stjórnarmaður og kynnti i Þórir nýtt símaforrit sem er öryggistæki fyrir þá sem eru að fá slag og getur flýtt mjög fyrir aðstoð og hjálp en þar skiptir hver mínúta sköpum. Sr. Baldur sagði frá sínu slagi og gerði það á gamansaman hátt þó engum dyldist alvara málsins.
Fundurinn var haldinn í Menningarsal safnaðarheimilisins á Hellu og var nokkuð vel sóttur.
Við hjá Heyrnarhjálp þökkum fyrir móttökurnar og hlý orð og hrós sem við fengum eftir fundinn.

Heimsóknir á Landsbyggðina


Nú eru hafnar okkar árlegu heimsóknir út á land.
Þann 3. október var fyrirlestrarfundur og kynning á félaginu Heyrnarhjálp í Fundasal Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði.
Fundurinn var nokkuð vel sóttur og tókst með miklum ágætum enda þátttaka úr sal með besta móti og nokkuð um reynslusögur sem alltaf gefa umræðunni aukinn kraft.

Þar var farið yfir nokkur af markmiðum félagsins til lengri og skemmri tíma sem eru:

að gæta hagsmuna félagsmanna
að efla skilning innan félagsins og utan á heyrnarfötlun
að hvetja til heyrnarverndar
að fylgjast með framförum og nýjungum og efla notkun hjálparbúnaðar
að bæta aðgengi heyrnarskertra að samfélaginu
að viða að okkur fræðsluefni er tengist heyrnarfötlun
að gefa út fréttabréf með fræðslu og kynningarefni
að gefa út bæklinga af ýmsu tagi.

Um leið og ég þakka fyrir góðan fund og góðar móttökur þá hvet ég fólk til að kynna sér starfsemi félagsins.
Einnig vil ég geta þess að við erum ávallt tilbúin að koma á fund hjá öðrum félögum þegar óskað er.

 

Aðalfundur NHS og þemadagar

Skrifstofa Heyrnarhjálpar verður lokuð frá miðvikudegi 28.8 til mánudagsins 1. sept vegna aðalfundar NHS – systursamtaka okkar á Norðurlöndum- sem haldinn verður í Kaupmannahöfn.
Ef erindið er brýnt er velkomið að hringja í síma 8666444

Kveðja
Kolbrún

Táknmálsnámskeið Samskiptamiðstöðvar

Næstu táknmálsnámskeið á Samskiptamiðstöð verða haldin nú í haust sem hér segir:

Táknmál 1 verður kennt kl. 12 -13 á mánudögum og miðvikudögum.

Námskeiðið byrjar 2. september og lýkur 14. október.

Táknmál 2 verður kennt kl. 12 -13 á mánudögum og miðvikudögum.

Námskeiðið byrjar 16. október og lýkur 27. nóvember.

Kennt verður í húsnæði Samskiptamiðstöðvar að Grensásvegi 9, þriðju hæð.

Hvert námskeið kostar 16.640 kr.

Nánari upplýsingar veitir Eyrún Helga Aradóttir: eyja@shh.is

Skráning fer fram á shh@shh.is Þar þurfa að koma fram upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer.

Nýr starfsmaður Heyrnarhjálpar

Nýr starfsmaður hefur verið ráðinn til að sjá um sérstakt tímabundið verkefni sem við ráðumst nú í hér hjá Heyrnarhjálp.

Sigríður Fossberg Thorlacius, sem jafnframt er formaður Málbjargar, ætlar að vinna rannsókn fyrir okkur og sækja upplýsingar sem nýtast til að móta heilstæða stefnu fyrir þá sem eru heyrnarskertir á Íslandi.
Hún mun kanna stefnu systurfélaga okkar á Norðurlöndunum og hjá Evrópusamtökunum – greina þær upplýsingar og bera saman.
Stjórnin mun svo í haust fara í faglega stefnumótunarvinnu og nýta þessa rannsóknarvinnu til þess meðal annars.
Áður en sú stefna verður birt opinberlega mun um við kanna viðhorf þeirra sem búa við skerta heyrn á henni.

Við bjóðum Sigríði hjartanlega velkomna til starfa og væntum mikils af hennar vinnu.

Fundargerð 1-2019

Fundargerð stjórnar Heyrnarhjálpar 26. mars 2019

Á fundinum voru: Hjörtur,, Kolbrún, Sigrún og Sturla en auk þess kom Margrét við til að árita ársreikninginn.

Formaður setti fundinn en aðalefni fundarins var að fara yfir og árita reikninga ársins 2018 ásamt undirbúningi fyrir aðalfund.

Þessir liðir ræddir skv. dagskrá.

  • Fundargerð síðasta fundar samþykkt með undirritun.
  • Reikningar ársins 2018 tilbúnir og liggur fyrir að kjörinn skoðunarmaður SE gerir athugasemdir við form reikningsins ásamt nokkrum athugasemdum við stafsetningu og á þeim forsendum mun hann ekki árita reikninginn. Annar skoðunarmaður hefur áritað reikninginn.  Þetta var rætt nokkuð en ekki talin ástæða til aðgerða þar sem ekki eru gerðar athugasemdir um niðurstöðu reikningsins.
  • Nokkrir liðir í reikningnum sveiflast aðeins milli ára og er það langmest vegna ársfundar NHS sem haldinn var á Íslandi s.l ár. Kolbrún mun taka saman samtals kostnað vegna ársfundarins og hafa með á aðalfundinn.
  • Samþykkt að leggja til óbreytt árgjald.
  • Fyrir liggur að Margrét gefur ekki kost á sér áfram í stjórn.

Undir liðnum önnur mál – þetta helst:

  • Félagið tók þátt í „Degi heyrnar“ í byrjun mars og vann með Heyrnar- og talmeinastöðinni undir átakinu „Láttu mæla þig.“
  • Kolbrún og Hjörtur fóru til Danmerkur á formannafund NHS og einnig var gagnlegur fundur með fulltrúum Norðurlandaráðs um málefni okkar.
  • Fundað hefur verið með Félagi heyrnarlausra vegna sameiginlegs áhuga á textun efnis ljósvakamiðla.
  • Aðgengishópur ÖÍ er komið í samstarf við MBL um greinaskrif og birt var stór grein eftir Hjört á þeim vettvangi fyrir stuttu.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið.

Reykjavík 27. Mars 2019 – Sturla Þengilsson