Ha, hvað sagðirðu?

Fjölskyldulíf

Það er komið kvöld. Fjölskyldan er sest niður í kjölfar þess að hafa borðað saman og ætlar að horfa á sjónvarpið.

Það er komið kvöld. Fjölskyldan er sest niður í kjölfar þess að hafa borðað saman og ætlar að horfa á sjónvarpið. Pabbinn er með fjarstýringuna og hann hækkar í tækinu þar til allir ætla að ærast. Hann er beðinn um að lækka í snatri en skilur ekkert í þessu fjaðrafoki. Dóttirin spyr: “Æi pabbi, ertu heyrnarlaus?” Hvað er þetta eiginlega? Hann verður að heyra hvað fréttaþulurinn segir! Gerir sér enga grein fyrir því að hann er að hlusta á allt öðrum forsendum en hinir.

Samt hefur hann tekið eftir því að honum finnst hann ekki alltaf heyra það sem sagt er. Áður fyrr var þetta ekki vandamál en núna finnst honum eiginlega ekkert gaman lengur að fara í gleðskap og forðast það. Alltof mikið glamur og hann heyrir ekkert hvað fólk er að segja. Konan meira að segja kvartar, þau hjónin fara sjaldnar út en áður vegna þessa. Þetta hefur áhrif á sambandið, henni finnst hann ekki hlusta á sig, sem er rétt, hann heyrir ekki alltaf það sem hún er að segja. Hérna áður fyrr heyrði hann en kaus bara að láta sem hann heyrði ekki. Það var ágætt stundum en núna er þetta orðið óþægilegt. Hann þarf ítrekað að láta viðskiptavini sína endurtaka það sem þeir segja, biðja þá að tala hægar og skýrar, sérstaklega ef það eru umhverfishljóð til viðbótar eða margir að tala í einu. Þetta hlýtur að vera aldurinn, hugsar hann, og gerir ekkert í málinu. Hann vann áður fyrr þar sem var mikill hávaði og heyrnin hlýtur að hafa farið með því, ekkert við því að gera … en hann er bara 55 ára.

Klassísk saga

Þessi saga er klassísk og við getum flest tengt hana við einhvern sem við þekkjum. Við vitum að heyrnin versnar með árunum, ákveðin hrörnun á sér stað, rétt eins og gerist þegar við fáum hrukkur. Þá spila erfðaþættir, lyf og sjúkdómar líka inn í heyrnarmissi einstaklinga. Hins vegar er það alveg stórmerkilegt hvað einstaklingum er oft lítið annt um heyrn sína. Þeir átta sig kannski ekki á því undir hvaða kringumstæðum þeir geta misst hana eða fá einfaldlega lélegar leiðbeiningar og búnað til að verjast heyrnarskaða. Svo eru þeir sem ekki geta varið sig sjálfir og þurfa að treysta á aðra.

Það að missa heyrnina alveg er vitaskuld mikil fötlun og það að missa ákveðin tíðnisvið út er óþægilegt og getur haft afleiðingar, jafnvel leitt til þess að viðkomandi geti ekki sinnt starfi sínu lengur. Sá sem tapar heyrn gerir það oftast varanlega, því miður. Vinnuverndarlögin og reglugerð um varnir gegn hávaða á vinnustöðum eiga að varna gegn slíku og setja ríkar skyldur á herðar bæði starfsfólks og vinnuveitenda. Það hefur orðið mikil bragarbót undanfarin ár en betur má ef duga skal og því verkefni er aldrei lokið. Umræðan er oft tengd stórum vinnustöðum og iðnaði, en það gleymist að við getum orðið fyrir heyrnarskaða víðar.

Töff að verja sig

Það er til dæmis þekkt að jafngildishávaði á leikskólum er í flestum tilvikum of hár og hægt að færa rök fyrir því að leikskólakennarar ættu að nota heyrnarhlífar ekki síður en börnin sjálf, svipað og inni í álveri. Það hljómar ankannalega en er staðreynd. Það hljómar líka fáránlega að vera með heyrnarhlífar í spinning- eða eróbikktíma, en það væri sennilega afar skynsamlegt. Reyndar er alveg merkilegt að

hugsa til þess að fara í heilsurækt og byggja upp líkamann en eyðileggja mögulega heyrnina í leiðinni. Þeir einstaklingar sem lesa þessa grein og hafa farið út úr tíma með suð í eyrum vita hvað ég er að tala um. Hið sama gildir um tónleika þar sem markmiðið virðist vera að valda skaða fremur en að njóta tónlistar. Ekki má gleyma unglingunum með nýrri og flottari útgáfur af vasadiskó en við þekktum hér áður.

Þeir sem stunda skotveiði án góðra heyrnarhlífa eru að leika sér að eldinum. Eitt skot úr byssu er nóg til að eyðileggja heyrnina fyrir lífstíð. Það hlýtur að vera hvimleitt þegar lagt er við hlustir til að átta sig á bráðinni að heyra ekki nægjanlega vel. Þeim ætti því að vera sérstaklega umhugað um varnir.

Ég gæti eflaust talið upp mun fleiri dæmi en markmiðið með þessari grein er hins vegar að opna umræðu og auka vitund um heyrnarskaða og varnir gegn honum. Það er töff að verja sig og það eru lífsgæði að vera ekki með suð í eyrunum, geta fylgst með samræðum í gleðskap og þurfa ekki að segja “Ha?” fyrir aldur fram.

Höf. Teitur Guðmundsson .. grein sem birtist í Fréttablaðinu í ágúst 2013