Helstu kostir heyrnartækja

Ellisif

Grein eftir Ellisif Katrínu Björnsdóttur: “Rannsóknir hafa leitt það í ljós að eldra fólki með heyrnarskerðingu er hættara við að fá elliglöp”

Undanfarið hefur verið fjallað um heyrnartæki í fjölmiðlum. Aðallega hefur verið rætt um kostnaðinn við þau en gleymst hefur að fjalla um hvaða ávinning einstaklingar hafa af því að nota heyrnartæki. Nútíma heyrnartæki nýtast flestum heyrnarskertum vel. Þess vegna er óþarfi að láta heyrnarskerðingu aftra sér frá að taka þátt í félagslegum samskiptum.

Hér verða taldir upp nokkrir helstu kostir þess fyrir heyrnarskerta að nota heyrnartæki.

Auknir tekjumöguleikar – Góð heyrn skilar betri vinnuafköstum, kemur í veg fyrir misskilning. Tími sem fer í að hvá og að biðja fólk um að endurtaka það sem það sagði nýtist í annað. Heyrnarskert fólk sem notar heyrnartæki hefur forskot á þá sem nota ekki tæki í atvinnuviðtölum og er líklegra til að verða ráðið í vinnu. Fólk með heyrnartæki er með lengri vinnualdur og fer síðar á eftirlaun heldur en þeir sem viðurkenna ekki heyrnarskerðingu sína.

Aukin nánd við annað fólk – Að geta deilt tilfinningum sínum og líðan með sínum nánustu byggist á snurðulausum samskiptum. Heyrnarskerðing gerir það að verkum að hljómfallið í ástarjátningum og blíðuhótum milli fólks hverfur og verður ekki eins tilfinningaríkt. Með heyrnartækjum verður því meiri nánd og tilfinningin kemst til skila. Það kannast allir við það að brandari verður aldrei eins fyndinn þegar hann er endurtekinn.

Betra skap, afslappaðra viðmót – Heyrnarskertir þurfa að nota mikið af kröftum sínum í að vera sífellt á varðbergi vegna þess sem fram fer í kringum þá. Þetta veldur gremju yfir því að fólk skuli ekki tala hærra og skýrara og skapar einnig kvíða, tilfinningalegt ójafnvægi, félagslega einangrun og þunglyndi. Með notkun heyrnartækja sést oft að viðmót fólks breytist til hins betra þegar það nær betur valdi á samskiptum sínum.

Aukið sjálfstraust – Heyrnarskertir geta ekki treyst á að hafa náð öllu sem fram fer og þurfa oft að biðja aðra að endurtaka það. Þetta dregur úr sjálfstrausti og kemur í veg fyrir að fólk treysti sér í vandasamari verkefni í vinnu, fjölskyldu- og félagslífi. Rannsóknir hafa sýnt fram á að heyrnartækjanotkun felur í sér aukið sjálfstraust og meiri andlega vellíðan.

Virkari heilastarfsemi – Mikil athygli hefur beinst undanfarið að elliglöpum með hækkandi aldri þjóða. Rannsóknir hafa leitt það í ljós að eldra fólk með heyrnarskerðingu er í meiri hættu á að fá elliglöp heldur en heyrnarskert fólk sem notar heyrnartæki. Heyrnartæki örva heyrnarstöðina í heilanum sem hefur jákvæð áhrif á úrvinnslu heilans úr hljóðum og heldur heilanum í þjálfun.

Ekki láta heyrnarskerðingu aftra þér. Taktu til þinna ráða og fáðu tíma í heyrnargreiningu og jafnvel að prófa heyrnartæki. Þú veist ekki af hverju þú ert að missa fyrr en þú heyrir það.

Höfundur er heyrnarfræðingur hjá Heyrn í Kópavogi.