NHS Formannafundur Oslo -7.3. 2016

Formannafundur NHS var haldinn í Oslo árið 2016
Meginefni fundarins var fjármál samtakanna, en Noregur er nýtekinn við stjórn samtakanna og fjármála þeirra.
Til fundarins voru mættir fulltrúar allra norrænu samtaka heyrnarskertra, en sérstaklega ánægjulegt var að sjá fulltrúa dönsku samtakanna eftir nokkra fjarveru.
Fjármál og skipulag NHS
Noregur hefur tekið við fjármálum NHS frá og með 2016 til næstu 4-6 ára, en skýrsluna um fjármál samtakanna flytja Svíar nú í síðasta skipti í bili. Tvær ákvarðanir koma til afgreiðslu á þessum fundi: 1) Hvaða mynt verður notuð á stjórnartímabili norsku samtakanna, 2) Hversu lengi munu norsku samtökin sinna stjórn, 2 ár (eins og í samþykktum), 4 ár eða 6 ár.
Fundurinn samþykkti að: Starfrækslumynt verður áfram sænsk króna og 2) Stjórnartímabil norsku samtakanna verður 4 ár, þ.e. 2 + 2 ár.
Rekstur samtakanna var í járnum árið 2015, en félagsgjöld (2 SEK á félagsmann hverra samtaka) og styrkur frá Nordisk Velfærdcenter (NVC) stóð að mestu undir útgjöldum, en afkoman var neikvæð um u.þ.b. 4.500 SEK. Samtökin standa annars ágætlega og eiga um 585.000 SEK í sjóðum, en hluti af því (um 44.000 SEK) eru eyrnamerkt þýðingu og útgáfu á handbók fyrir tónmöskva á öllum norðurlandamálum.
Reikningar samtakanna verða lagðir fram til samþykktar á ársfundi þeirra í ágúst, en dönsku samtökin gegna hlutverki endurskoðanda.
Fjárhagsáætlun fyrir 2016 gerir ráð fyrir tekjum upp á u.þ.b. 500.000 SEK (þar af um 200.000 SEK styrkur vegna handbókar fyrir tónmöskva) og útgjöldum upp á u.þ.b. 600.000 SEK, en þar af er gert ráð fyrir 250.000 SEK kostnaði við handbók fyrir tónmöskva. Aukinn kostnaður milli ára vegna ferðalaga kemur til af því að ársfundur samtakanna verður í Færeyjum í ár.
Norðurlandaráðið og Norræna velferðarmiðstöðin (NVC)
Norsku og sænsku samtökin áttu fund með Norðurlandaráði 4. september sl. Þessi fundur gekk vel og voru félögin beðin um að senda inn tillögur að aðgerðum fyrir heyrnarskerta, sem samtökin gerðu og voru tillögur þeirra teknar upp af mörgum flokkum innan Norðurlandaráðs.
19. nóvember áttu norsku samtökin fund með Menningar- og menntaráði Norðurlandaráðs, þar sem tónmöskvahandbókin var m.a. rædd. Fundurinn gekk vel og leiddi m.a. til þess að Norðurlandaráð samþykkti að styrkja tónmöskvahandbókina, en aðilar ákváðu að hittast aftur 19. apríl nk.
Fundirnir hafa einnig orðið til þess að styrkja persónuleg tengsl NHS við áhrifaaðila innan Norðurlandaráðs, sem kemur öllu starfi til góða. Enn fremur hefur komið skýrt fram að mikilvæg forsenda árangurs í samskiptum við Norðurlandaráð er að norrænu félög heyrnarskertra standi saman og komi sameiginlega fram.
Tónmöskvahandbókin
NHS hefur fengið styrki til að þýða tónmöskvahandbókina á öll Norðurlandamál. Það á eftir að vinna í umbroti og klára inngang og upplýsingaefni um NHS, en að öðru leyti er allt klárt fyrir útgáfu. Hugmyndin er að gefa bókina fyrst og fremst út á rafrænu formi, en að þó verði prentað takmarkað upplag á einhverjum/öllum Norðurlandamálum.
Ályktun um þjónustu við heyrnarskerta
Norrænu félögin hafa sent inn til viðkomandi stjórnvalda ályktanir um þjónustu við heyrnarskerta í kjölfar umræðu á síðasta aðalfundi. Engin félögin hafa fengið formleg viðbrögð og kvarta mörg undan áhugaleysi stjórnmálamanna og stjórnsýslunnar.
Samþykktir síðasta ársfundar
Tveimur málum var vísað til formannafundar á síðasta ársfundi: 1) Hvort/hvernig NHS getur gert greiningu á kostnaði við heyrnartæki á norðurlöndunum. 2) Hvort/hvernig NHS getur kortlagt norrænt velferðarkerfi hvað varðar tæknileg hjálpartæki fyrir heyrnarskerta, t.d. hvort ástæða sé til að stofna samstarfshóp til fjalla um málefnið.
Varðandi fyrra málið þá hafa norsku samtökin gert tillögu að sameiginlegu formi fyrir einstök félög að fylla út varðandi kostnað við heyrnartæki, en niðurstaðan af umræðunni var að norsku samtökin myndu safna svörum og ritstýra ritun niðurstaðna.
Varðandi seinna málið var samþykkt að doka við og leyfa einstökum samtökum að hugsa málið áður en lengra væri haldið.
EFHOH og IFHOH
Evrópsku samtök heyrnarskertra (EFHOH) halda ársfund í París 1.-3. apríl n.k. og alþjóðasamtökin (IFHOH) halda sinn ársfund í Washington 23.-26. júní n.k. Fulltrúar aðildarsamtaka NHS verða á báðum ársfundum, en heldur færri en oft áður á Evrópufundinum. Enginn fulltrúi Heyrnarhjálpar verður á ofangreindum fundum.
Ársfundurinn í Færeyjum 25.-27. ágúst n.k.
Undirbúningur er hafinn, en engin smáatriði hafa verið ákveðin.
Staðan í einstökum löndum
Fulltrúar allra aðildarsamtaka fóru yfir helstu breytingar/þróun í sínum löndum á síðustu mánuðum.
Fundinn sóttu
Hjörtur Jónsson formaður
Kolbrún Stefánsdóttir framkvæmdastjóri