Rittúlkun fyrir háskólanemendur

Klara Matthíasdóttir

Grein eftir Klöru Matthíasdóttur frá 2012

Tilefni þessara skrifa er að í nóvember næstkomandi verður Heyrnarhjálp 75 ára en félagið er félag þeirra sem eru heyrnaskertir, hafa misst heyrn að hluta eða alveg, eða þjást af eyrnasuði og öðrum vandamálum sem snúa að heyrninni (heyrnarhjalp.is).
Margir félagsmenn eru aðstandendur heyrnarskertra eða hafa áhuga á réttindamálum þeirra. Ég er í þeim hópi þar sem ég á rúmlega tvítuga dóttur sem er mikið heyrnarskert og hefur verið það frá fyrstu æviárum. Ég hef líka mikinn áhuga á rittúlkun sem leið til að miðla efni til heyrnaskertra.
Rittúlkun er jafnframt eitt af baráttumálum Heyrnarhjálpar sem vill hefja rittúlkun til sömu virðingar og táknmálstúlkun nýtur.
Auk þess telur félagið að rittúlkun og textun nýtist fleirum en táknmálstúlkun.
Staðreyndin er sú að margir eiga erfitt með að fylgjast með og ná samhenginu í því sem fer fram í ljósvakamiðlum.
Sem dæmi má nefna aldraða sem margir heyra illa talað mál og þann stóra hóp fólks sem hefur ekki íslensku að móðurmáli. Rittúlkun og textun opnar þeim möguleika á að fylgjast með því sem fram fer í samfélaginu og dregur úr einangrun.

Rittúlkun er einn þeirra möguleika sem bætir aðgengi til náms. Rittúlkun fer þannig fram að nemandanum  „fylgir“ rittúlkur sem situr við hlið hans og skrifar niður á tölvu allt það sem fram fer.  Sá heyrnarskerti þarf þá ekki að eyða allri orku sinni í það að reyna að heyra talað mál, heldur horfir hann einfaldlega á skjáinn og les það sem þar stendur.

Mikilli heyrnarskerðingu fylgja oft erfiðleikar við að fara hefðbundna leið til menntunar. Í námi reynir mikið á að hlusta og ná því sem kennarinn hefur að segja. Heyrnarskertir hika gjarnan við að fara í framhaldsnám vegna þess að þeim gengur illa að meðtaka allt það sem fram fer í kennslustofunni.

Kennsla í háskólum fer að miklu leyti fram í formi fyrirlestra. Slíkt kennsluform krefst þess að nemendur geti heyrt allt það sem kennarinn segir, þannig að þeir nái samhenginu og geti tekið niður helstu punkta úr námsefni tímans. Auk þess eru settar fram spurningar og álitamál sem svo leiða af sér umræður á milli nemenda og kennara. Hér er rittúlkurinn frábært hjálpartæki sem gerir heyrnarskertum nemanda mögulegt að fylgjast með því sem fram fer í kennslustundinni.

Dóttir mín hóf nám á hugvísindasviði Háskóla Íslands síðastliðið haust að loknu stúdentsprófi. Áður en skólinn byrjaði hafði hún samband við námsráðgjafa og fór með honum yfir stöðuna og þann stuðning sem hún á rétt á sem nemandi með sérrúrræði. Rittúlkun í hverri kennslustund gerir henni fært að fylgjast með því sem fram fer þar sem hún hefur túlkinn með sér í alla tíma. Það er vert að geta þess að nemendur hafa greiðan aðgang að þeim aðila sem heldur utan um rittúlkunina og sér jafnframt um að allt gangi snurðulaust. Ef möguleikinn á rittúlkun í námi hefði ekki verið til staðar hefði dóttur minni ekki gefist sama eða svipað tækifæri til framhaldsnáms og heyrandi nemendur eiga kost á.

Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki Háskólans fyrir góða vinnu í réttindamálum heyrnarskertra. Rittúlkun er frábær leið til að miðla hinu talaða máli og þetta hefur sannfært mig um að það er vel hægt að stunda háskólanám þrátt fyrir mikla heyrnarskerðingu. Það þarf einfaldlega að setjast niður og finna lausnir sem henta hverjum og einum. Rittúlkun er málið.

Höfundur er móðir, félagi í Heyrnarhjálp og áhugamanneskja um rittúlkun og aðgengi allra til náms.