Nýleg rannsókn um leiðnitap heyrnar hjá þeim sem eru með liðagigt

http://www.dreamstime.com/stock-photography-desolate-old-man-image763962

Nýleg rannsókn kannaði samhengið á milli heyrnartaps og liðagigtar. Niðurstöður benda til þess að fólki með liðagigt sé hættara við heyrnartapi vegna sjúkdóms síns en heilbrigðum einstaklingum.

Leiðnitap heyrnar var algengt meðal liðagigtarsjúklinga eða milli 25-72% algengi. Heyrnarmælingar (pure-tone) á liðagigtarsjúklingum leiddi í ljós verulegt heyrnartap á öllum tíðnisviðum.

Hvað er liðagigt (Rheumatoid Arthritis)?

Liðagigt er langvinnur bólgusjúkdómur sem veldur verkjum, stífleika, bólgum og hamlaðri hreyfigetu og virkni margra liða líkamans. Sjúkdómurinn kemur oftast fram í liðum í höndum og fótum.
Lengi hefur verið vitað að sjúkdómurinn geti haft einhver áhrif á heyrn en tengslin á milli heyrnartaps og liðagigtar hafa ekki áður verið jafn skýrt mæld og skilgreind.

Meðferð heyrnartaps hjá liðagigtarsjúklingum

Liðagigtarsjúklingum með heyrnarskerðingu getur gagnast ýmis önnur heyrnarhjálpandi meðferð en öðrum með heyrnartap, bæði heyrnartæki og ígrædd tækni. Þá er talið að andoxunarefni s.s. E-vítamín geti leikið fyrirbyggjandi hlutverk til að viðhalda virkni innra eyrans hjá liðagigtarsjúklingum.

Höfundar rannsóknarskýrslunnar, sem birtist í The Open Rheumatology Journal, mæla með að fólk með liðagigt sé heyrnarmælt reglulega, bæði loft- og beinleiðnimælingar sem og s.k. Transiently Evoked Otoacoustic Emmisions (TEOAE) prófun.

Heimild: www.audiology-worldnews.com

Fréttin er af síðu Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands.

 

 

 

 

 

 

Textun er mál okkar allra – Áskorun til alþingismanna

ingolfurmar (2)stefan_vilbergsson_a (2)

Á þessum tímum upplýsinga og tækniframfara er framboð af sjónvarpsefni enn takmarkað fyrir einstaka hópa. Enn er mikill misbrestur á því að íslenskt sjónvarpsefni sé textað. Allt að 16% þjóðarinnar er heyrnarskert að einhverju leyti, sem þýðir að um 54.000 manns getur illa notið þeirra mannréttinda að fylgjast með útsendu efni. Það hefur áhrif á samfélagsþátttöku fólks að geta ekki fylgst með stjórnmálaumræðu og öðru sem er í gangi í þjóðfélaginu hverju sinni. Sjónvarpsáhorf er ekki síst félagsleg athöfn.

Textun á innlendu sjónvarpsefni gagnast mun stærri hóp en heyrnarskertu fólki. Hún auðveldar fólki með þroskahömlun að njóta áhorfs, styður við læsi barna og gagnast jafnframt eldra fólki og fólki með annað móðurmál að læra íslenskt mál.

Að auki má benda á að textað efni vekur meiri athygli og fær betra áhorf. Þegar stuðningur er við bæði hljóð og texta er athygli fólks einfaldlega meiri á efninu. Stjórnmálaflokkar hafa þegar áttað sig á þessu formi, eins og sást á myndböndum þeirra sem birtust á samfélagsmiðlum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Textun í íslensku sjónvarpi

Af íslenskum sjónvarpsstöðvum stendur RÚV sig best og er eina fjölmiðlaveitan sem er með íslenska málstefnu. Það þýðir þó ekki að RÚV sé til fyrirmyndar. Fréttir eru textaðar kl. 19, en ekki kl. 22 og ekki fréttatengt efni. Kastljós er afar sjaldan textað og þá bara ef talað er við erlenda aðila eða um málefni fatlaðs fólks. Í fréttatímum 365 er íslenskt efni textað ef rætt er við heyrnarskertan einstakling.

Aðrar innlendar sjónvarpsstöðvar texta eingöngu erlent efni. Rök þeirra við kröfum um textun eru að það sé of íþyngjandi vegna kostnaðar. Það hefur þó ekki hamlað þeim að texta erlent efni.

Fjölmiðlaveitur nýta sér það ákvæði um textun innlends efnis eru mun vægari en um textun erlends efnis í lögum um fjölmiðla. Samkvæmt 29. grein laganna er þeim skylt að texta allt erlent efni í því skyni að efla íslenska tungu, en innlent efni sem fellur undir 30. greinina skuli texta eftir því sem kostur er. Það þýðir í raun að fjölmiðlaveitum er veitt umboð til að mismuna fólki um aðgengi að innlendu efni.

Í samanburði má benda á að sjónvarpsstöðvar á hinum Norðurlöndunum texta allt innlent efni.

Samþykkjum breytingu á lögum um fjölmiðla

Nú liggur fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 þar sem lagt er til að fjölmiðlaveitum verði skylt að texta allt útsent myndefni, óháð því hvort um erlenda eða innlenda framleiðslu er að ræða. Íslenskt mál á undir högg að sækja og í 29. grein laganna segir að fjölmiðlaveitur skulu eftir því sem við á efla íslenska tungu. Því eru ríkar kröfur settar um textun eða talsetningu erlends efnis. Sömu kröfur ættu að eiga við um innlenda dagskrárgerð af þeim sökum.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er aðildarríkjum samningsins gert skylt að tryggja viðeigandi ráðstafanir til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, að tryggja því aðgang til jafns við aðra að upplýsingum og samskiptum auk menningarefnis, til að tryggja að það geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis. Ísland fullgilti samninginn 20. september 2016 og ber þar af leiðandi að fylgja ákvæðum hans.

Það er brýnt að ráðamenn þjóðarinnar vanmeti ekki þörfina fyrir textun sjónvarpsefnis og þeir eru því hvattir til að samþykkja frumvarpið. Mismunun er óheimil.

Greinarhöfundar eru Ingólfur Már Magnússon stjórnarmaður í Heyrnarhjálp og
Stefán Vilbergsson verkefnastjóri hjá Öryrkjabandalagi Íslands

Birtist sem aðsend grein í Morgunblaðinu 18. apríl 2017

Kosningaréttur heyrnarskertra

Hjörtur Jónsson - small

Ef þú fengir keppnisrétt í boðhlaupi á ólympíuleikum þá væri það ekki aðeins rétturinn til að mæta til leiks. Að mæta til leiks og komast í mark væri endapunkturinn á löngu ferli þar sem þú hefðir meðal annars verið í aðstöðu til að þjálfa hlaup um langan tíma, afla þér upplýsinga og taka þátt í námskeiðum, fræðast um næringu, mikilvægi hvíldar og fleira sem skiptir máli fyrir hlaup. Þú hefðir tekið þátt í sameiginlegum æfingum með öðrum liðsfélögum þar sem þið hefðuð rökrætt útfærslu hlaupsins, hvernig hlaupurum væri raðað og rætt styrk og veikleika helstu keppinauta. Og þótt sjálfur keppnisdagurinn væri mikilvægastur í flestra hlúa þá væri hann einungis lokaáfanginn í löngu ferli.

Á sama hátt og keppnisréttur í boðhlaupi er ekki aðeins rétturinn til að mæta til leiks á sjálfan keppnisdaginn, þá er kosningaréttur ekki aðeins rétturinn til að setja kross á blað inni í kjörklefa á kosningadegi. Að setja kross á kjörseðil er endapunktur á löngu ferli, líklega ævilöngu, sem felur meðal annars í sér þjálfun í að taka þátt í samfélaginu, sækja sér menntun og þroska hæfileika sína, taka þátt í fundum og ráðstefnum um stjórnmál, og eiga í rökræðum við fólk, bæði á skipulögðum fundum og dags daglega.

Það að veita hópi fólks kosningarétt felur því ekki einungis í sér að því sé tryggður réttur til að mæta á kjördag og setja kross á blað. Kosningaréttur felur óhjákvæmilega í sér að fólki sé gert kleift að taka upplýsta afstöðu, að það geti lært af öðrum um leið og aðrir læra af þeim, sem aftur felur í sér allt ofangreint og fleira.

Í þessu ljósi er hæpið að halda því fram að mikið heyrnarskert og heyrnarlaust fólk hafi fullan kosningarétt. Heyrnarskertu fólki er meðal annars haldið frá þátttöku í stjórnmálaviðburðum og starfi með því að neita því um túlkun (táknmálstúlkun og rittúlkun). Opinberir viðburðir og umræða er yfirleitt hvorki túlkuð né textuð og því óaðgengileg heyrnarskertu og heyrnarlausu fólki. Mörgum er haldið í einangrun þar sem nauðsynleg samskiptatæki, t.d. heyrnartæki, eru afar dýr og þar með óaðgengileg. Svo ekki sé minnst á allar þær brotalamir sem eru í menntun heyrnarskertra og heyrnarlausra.

Vonandi verður það einhvern tíman bæði sjálfsagt og venjulegt að heyrnarskert og heyrnarlaust fólk sé jafn virkt í stjórnmálastarfi og annað fólk og sé jafnvel ofarlega á listum, en áður en af því getur orðið er mikið verk óunnið. Ef við viljum taka kosningaréttinn alvarlega þá þurfum við öll að leggjast á árarnar.

Hjörtur H. Jónsson

Formaður Heyrnarhjálpar.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 6. júlí 2015

Helstu kostir heyrnartækja

Ellisif

Grein eftir Ellisif Katrínu Björnsdóttur: “Rannsóknir hafa leitt það í ljós að eldra fólki með heyrnarskerðingu er hættara við að fá elliglöp”

Undanfarið hefur verið fjallað um heyrnartæki í fjölmiðlum. Aðallega hefur verið rætt um kostnaðinn við þau en gleymst hefur að fjalla um hvaða ávinning einstaklingar hafa af því að nota heyrnartæki. Nútíma heyrnartæki nýtast flestum heyrnarskertum vel. Þess vegna er óþarfi að láta heyrnarskerðingu aftra sér frá að taka þátt í félagslegum samskiptum.

Hér verða taldir upp nokkrir helstu kostir þess fyrir heyrnarskerta að nota heyrnartæki.

Auknir tekjumöguleikar – Góð heyrn skilar betri vinnuafköstum, kemur í veg fyrir misskilning. Tími sem fer í að hvá og að biðja fólk um að endurtaka það sem það sagði nýtist í annað. Heyrnarskert fólk sem notar heyrnartæki hefur forskot á þá sem nota ekki tæki í atvinnuviðtölum og er líklegra til að verða ráðið í vinnu. Fólk með heyrnartæki er með lengri vinnualdur og fer síðar á eftirlaun heldur en þeir sem viðurkenna ekki heyrnarskerðingu sína.

Aukin nánd við annað fólk – Að geta deilt tilfinningum sínum og líðan með sínum nánustu byggist á snurðulausum samskiptum. Heyrnarskerðing gerir það að verkum að hljómfallið í ástarjátningum og blíðuhótum milli fólks hverfur og verður ekki eins tilfinningaríkt. Með heyrnartækjum verður því meiri nánd og tilfinningin kemst til skila. Það kannast allir við það að brandari verður aldrei eins fyndinn þegar hann er endurtekinn.

Betra skap, afslappaðra viðmót – Heyrnarskertir þurfa að nota mikið af kröftum sínum í að vera sífellt á varðbergi vegna þess sem fram fer í kringum þá. Þetta veldur gremju yfir því að fólk skuli ekki tala hærra og skýrara og skapar einnig kvíða, tilfinningalegt ójafnvægi, félagslega einangrun og þunglyndi. Með notkun heyrnartækja sést oft að viðmót fólks breytist til hins betra þegar það nær betur valdi á samskiptum sínum.

Aukið sjálfstraust – Heyrnarskertir geta ekki treyst á að hafa náð öllu sem fram fer og þurfa oft að biðja aðra að endurtaka það. Þetta dregur úr sjálfstrausti og kemur í veg fyrir að fólk treysti sér í vandasamari verkefni í vinnu, fjölskyldu- og félagslífi. Rannsóknir hafa sýnt fram á að heyrnartækjanotkun felur í sér aukið sjálfstraust og meiri andlega vellíðan.

Virkari heilastarfsemi – Mikil athygli hefur beinst undanfarið að elliglöpum með hækkandi aldri þjóða. Rannsóknir hafa leitt það í ljós að eldra fólk með heyrnarskerðingu er í meiri hættu á að fá elliglöp heldur en heyrnarskert fólk sem notar heyrnartæki. Heyrnartæki örva heyrnarstöðina í heilanum sem hefur jákvæð áhrif á úrvinnslu heilans úr hljóðum og heldur heilanum í þjálfun.

Ekki láta heyrnarskerðingu aftra þér. Taktu til þinna ráða og fáðu tíma í heyrnargreiningu og jafnvel að prófa heyrnartæki. Þú veist ekki af hverju þú ert að missa fyrr en þú heyrir það.

Höfundur er heyrnarfræðingur hjá Heyrn í Kópavogi.

Bætt þjónusta við hinar dreifðu byggðir landsins

afhendingGæðastyrkja2014small

Í október s.l. auglýsti Velferðarráðuneytið eftir umsóknum um styrki til gæðaverkefna á sviði heilbrigðismála. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands sendi inn umsókn um verkefni sem lýtur að fjarþjónustu talmeinasviðs við notendur og umönnunaraðila á landsbyggðinni.

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, hefur nú tilkynnt um þau verkefni sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar og njóta styrkveitingar Gæðastyrkja velferðarráðuneytis 2014.

Verkefni HTÍ er eitt af sex verkefnum sem hljóta gæðastyrki að þessu sinni. Styrkirnir voru afhentir hamingjusömum styrkþegum við athöfn í ráðuneytinu fimmtudaginn 15.janúar. Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd stofnunarinnar. Þakkaði hann nafna sínum og ráðuneytinu kærlega fyrir stuðninginn og hafði uppi heitstrengingar um bætta þjónustu talmeinasviðs HTÍ við hinar dreifðari byggðir landsins.

 

Hræðsla við heyrnartæki

 Ellisif

Ellisif Katrín Björnsdóttir

Það er algegnt vandamál að heyrnin versnar með árunum, en samt er talið að það líði um 7 ár frá því að fólk verður vart við heyrnarskerðingu, þar til það leitar sér aðstoðar. Þetta segir Ellisif Katrín Björnsdóttir heyrnarfræðingur hjá Heyrn í Kópavogi. Líklega er það vegna þess misskilnings að eðlilegt sé að bíða með að fá sér heyrnartæki þar til að maður er orðinn gamall. Hvernig stendur á þessu?

Þetta er heyrnartækið sem maðurinn á myndinni hérna fyrir ofan er með

Hver bíður með að fá sér gleraugu?

„Það er alkunna að bæði sjón og heyrn versna með aldrinum“, segir Ellisif Katrín. „Fólk, á öllum aldri, er með gleraugu og engum dettur í hug að segjast ætla að bíða með að fá sér gleraugu þar til hann er hættur að vinna, er orðinn eldri og nota peninginn frekar í eitthvað annað áður en hann fær sér gleraugu. Það sama á við um heyrnartæki, heyrnarskert fólk á öllum aldri hefur not fyrir heyrnartæki“.

Heyrnarskerðing getur lýst sér sem þreyta

„Í mörgum tilvikum virðast áhrif heyrnarskerðingar vera ómeðvituð. Menn vita ekki af henni og grunar ekki að þreyta í lok vinnudags og kulnun í starfi geti verið heyrninni að kenna, segir Ellisif Katrín. Hún segir að dönsk rannsókn sem gerð var fyrir nokkrum árum sýni fram á þetta. Fólk treysti sér ekki í ákveðin verkefni og hættir störfum jafnvel fyrr en ella. Heyrnarskerðing geti líka dregið fólk niður, það einangrist og verði jafnvel þunglynt. Hún segir að fyrirtæki gætu haft akk af því að hvetja og styrkja starfsmenn til að fara í heyrnargreiningu.

Um 30% fólks á aldrinum 40 til 65 ára eru heyrnarskert

Heyrnarskerðing er lúmsk, maður getur heyrt þrátt fyrir hana en hljóðrófið heyrist ekki allt. Hátíðnihljóð hverfa til dæmis. Í margmenni, þar sem er skvaldur, eða annar hávaði, er erfiðleikum bundið að halda uppi samræðum því það er erfitt að greina tal viðmælanda frá öðrum hljóðum. „Sá, sem þannig er settur, virkar í sumum tilvikum sljór eða utan við sig, hann hváir oft og á erfitt með að vera í margmenni, í umferðinni getur hann átt í vandræðum með að heyra hvaðan hljóð berast en það veldur óöryggi“, segir Ellisif Katrín.  Ef menn grunar að þeir séu farnir að tapa heyrn er hægt að byrja á að taka heyrnarpróf á heimasíðunni www.heyrn.is Hér  Skrái menn sig þar inn, eru upplýsingarnar sendar Heyrn til skoðunar og heyrnarfræðingur metur hvort það er ástæða fyrir viðkomandi að fara í frekari greiningu eða ekki.

Greinin er tekin af heimasíðu www.heyrn.is og þar er hægt að taka heyrnarpróf ókeypis.

 

 

 

 

AÐGENGI HEYRNARSKERTRA AÐ ÍSLENSKUM FJÖLMIÐLUM

Ingó 009

Aðgengi heyrnarskertra að íslensku sjónvarpi er alls ekki nógu gott og langt frá því sem það gæti verið en talið er að um 15 – 16% þjóðarinnar sé á hverjum tíma heyrnarskertur.

Við heyrnarskertir höfum barist fyrir því að fá rittúlkun og textun viðurkennda sem eina af aðgengisleiðum okkar. Stjórnvöld hafa því miður ekki verið nógu hliðholl okkur og hvergi nærri nóg áunnist í þeirri baráttu. Við getum nefnilega ekki alltaf greint og/eða náð öllum hljóðum í samtölum manna á milli og alls ekki öllu í sjónvarpi, jafnvel ekki með bestu heyrnartækjum. Textun (rittúlkun) mundi þar breyta aðgengi allt að 50 þúsund Íslendinga að íslensku sjónvarpsefni. Við heyrnarskertir viljum nefnilega líka gjarnan fylgjast með Kastljósi, Íslandi í dag, íslenskum spennuþáttum sem og öllum öðrum íslenskum þáttum í sjónvarpi.

,,Samkvæmt 29. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, er fjölmiðlaveitum einungis skylt að texta erlent efni sem þær senda út. Í 30. gr. laganna eru fjölmiðlaveitur hins vegar hvattar til þess að „leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun“ með táknmáli, textun og hljóðlýsingu en engin skylda er lögð á fjölmiðlaveiturnar hvað þetta varðar“

Eins og kostur er segir lagagreinin en engin skylda lögð á fjölmiðlaveitur hvað þetta varðar.

Nú á haustdögum leggja 7 alþingismenn – allt konur –  fram frumvarp á Alþingi (108 mál) um breytingu á 30. gr. laga 38/2011, þar sem textinn verður svohljóðandi. „Myndefni sem fjölmiðlaveitur miðla skal ávallt fylgja texti á íslensku sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnis eins nákvæmlega og kostur er.“  Hafi  sjömenningarnir þökk fyrir.

Nú verður gaman að sjá hvort aðrir þingmenn sjá sóma sinn í því að greiða fyrir þessari breytingu á lögunum

Ágætu þingmenn; Mismunun er óheimil. Það að heyrnarskertir séu útilokaðir frá því að njóta íslensks sjónvarpsefnis er mismunun. Því skora ég á ykkur að samþykkja þetta frumvarp um breytingu á lögum nr. 38/2011. Sú breyting mun koma allt að 50 þúsund Íslendingum til góða.

Ingólfur Már Magnússon

Varaformaður Heyrnarhjálpar félags heyrnarskertra á Íslandi.

Könnun um þörf á rittúlkun

http://www.dreamstime.com/royalty-free-stock-images-survey-clipboard-research-questions-who-what-where-why-how-reserach-check-boxes-marks-to-symbolize-searching-image31479079

Ágætu lesendur heimasíðu,

Okkur þætti mjög vænt um ef þið gætuð svarað þessarri örstuttu könnun, það skiptir okkur afar miklu máli.

Linkurinn á könnunina er hér:   https://www.surveymonkey.com/s/heyrnarhjalp

Tinnitushittingur á Akureyri

Tinnitushittingur

Akureyrarhópurinn ætlar að  hittast mánudaginn 11.nóv kl: 20:00 á Kaffi Ilmi.
Þessi hópur hefur verið duglegur að hittast og ræða málin.
Á oktoberfundi hópsins  fræddi Annetta Maria fólk um tvö hjálpartæki, vekjaraklukkur með náttúruhljóðum og suðara fyrir fólk með eyrnasuð.
Annetta hefur notað svokallaðan „suðara“, þ.e. tæki sem drekkir (maskar) eyrnasuðinu í stöðugum nið.
„Suðararnir“ hafa gagnast henni við að takast á við eyrnasuðið sitt. Þeir virka þannig að í þeim heyrist þægilegt suð, svokallað „white noise” eða „pink noise”.
Þetta hvort tveggja er suð sem er bærilegt og ef eitthvað er, jafnvel róandi.
Það tekur að vísu sinn tíma að læra inn á suðarana og er vissulega einstaklingsbundið hvernig fólk nýtir sér þá tækni. Mikilvægt er að taka fram að suðið í suðurunum á ekki að yfirgnæfa eyrnasuðið, heldur má alveg heyrast aðeins í eyrnasuðinu.
Þar sem suðið í suðurunum er mun þægilegra en eyrnasuðið, getur heilinn þjálfast smám saman í því að hlusta frekar á þægilega suðið í suðurunum og hættir að einblína sér að eyrnasuðinu.
Þau vonast til að sjá sem flesta og finnst gott að hittast.

Amma, þú heyrðir í mér!

Hjördís Guðmundsdóttir

Við sex ára aldur lenti ég í slysi sem orsakaði það að heyrninni hrakaði mjög hratt. Um tíu ára aldur var ég svo til heyrnarlaus.  Ég var hins vegar svo heppin að ég lærði mjög ung að lesa og hef ætíð viljað halda íslenskunni við. Þær litu heyrnaleyfar sem ég hafði ásamt því að vera dugleg að lesa af vörum hafa svo hjálpað mér að halda talmálinu við. Frá því á fyrsta skólaári hef ég verið með heyrnartæki, upplifað einelti og fordóma í garð heyrnarlausra og skort á stuðningi í samfélaginu. Síðan ég byrjaði að nota heyrnartæki hefur tækninni fleygt fram og  þegar byrjað var að örva kuðunginn í eyrunum með rafboðum sá ég tækifæri til að ná til baka hluta af þeirri heyrn sem ég hafði misst.

Slíkar aðgerðir eru kallaðar kuðungsígræðsla.  Móttakara er komið fyrir undir húð fyrir ofan eyrað og rafskaut þrædd inn í kuðunginn. Ytri hluti tækjabúnaðarins er bæði staðsettur og hefur svipað útlit og hefðbundin heyrnartæki.  Ytri tækjabúnaðurinn nemur og flytur hljóðin í móttakarann sem sendir þau áfram sem rafboð í kuðunginn, sem áframsendir svo hljóðin í heyrnarstöð heilans.

En ég var hrædd,  hrædd við fordóma gagnvart kuðungsígræðslu og hrædd við að missa þá litlu heyrn sem ég þó hafði.  Árið 2004 lét ég til skarar skríða og fór í aðgerðina í Svíþjóð.  Læknarnir gerðu ekki ráð fyrir að ég myndi ná til baka meira en 40 % af heyrninni, því lítil reynsla var komin á aðgerðir af þessu tagi, sér í lagi á fullorðnum einstaklingum sem hafa verið mikið heyrnarskertir í mörg ár.

En í stuttu máli má segja að lífið hafi farið að hljóma öðruvísi eftir að kveikt var á kuðungsígræðslutækinu árið 2005 og það hljómar sífellt betur. Ég hafði aldrei látið mér detta í hug að það yrðu svona miklar breytingar í lífi mínu.  Allt var svo nýtt og ég er enn að kynnast og upplifa ýmislegt sem var ógerlegt áður. Öll samskipti eru nú mun auðveldari. T.d. tala ég nú við börnin mín og systkini í síma, sem áður var ómögulegt, og það tók þau nokkurn tíma að átta sig á því að hægt væri að hringja í mig.  Tónlist hefur alla tíð verið mér mjög  mikilvæg og ég skil bara ekki hvernig ég fór að áður, heyrði alltaf óminn af henni í útvarpinu en talað mál í útvarpi var ómögulegt að skilja. Vissi ekki að það heyrðist svona í fuglunum og að þeir hefðu svona hátt og ég skil núna hvað það er að heyra læk hjala við stein. Mér brá þegar ég opnaði kornflexpakka eftir aðgerð og komst að því að það heyrðist eitthvað hljóð.  Skil núna hvað maðurinn minn átti við þegar hann talaði um prjónglamur og ég mun ylja mér lengi vel við minninguna um það þegar sex ára gamalt barnabarnið mitt kallaði á mig í verslun þegar ég snéri baki í hann og ég svaraði honum. Hann starði á mig stóreygður og sagði upprifin: „Amma, þú heyrðir í mér“.

Þeir sem eiga kost á að fara í svona ígræðslu ættu að ekki að hugsa sig tvisvar um því þetta er svo mikil breyting til batnaðar. Ég gæti haldið upptalningunni áfram á jákvæðum upplifunum og bættum lífsgæðum eftir aðgerð. Í dag er veruleikinn sá að ég er í þeirri skapandi og krefjandi vinnu sem hugurinn stefndi alltaf til. Ég sinni félagsmálum og er m.a. í stjórn Heyrnarhjálpar og hef mjög gaman af.  Á þessu ári fagnar Heyrnarhjálp 75 ára starfsafmæli og mun þeim áfanga verða fagnað með ýmsum uppákomum. Við vonumst til að geta vakið fólk til umhugsunar á því hve dýrmæt heyrnin er.  Nýverið vorum við í Smáralind og buðum þar uppá fría heyrnarmælingu.  Mikil áhugi og góð þátttaka sýndi greinilega að fólk kunni að meta framtakið.  Vonandi verður fólk áfram duglegt að spyrjast fyrir og leita sér upplýsinga. Heyrnarskerðing er svo dulin og getur orðið mikill fötlun ef fólk fær ekki aðstoð strax. Ég hvet alla sem heyra illa til að fara í mælingu og skoða hvað ami að og betra er að gera það fyrr en seinna.  Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, það hef ég sannreynt.

Hjördís Guðmundsdóttir

Höfundur sat í stjórn Heyrnarhjálpar.

Greinin birtist 7. júlí 2012 í Morgunblaðinu og á eldri heimasíðu Heyrnarhjálpar.