Tinnitus og Ménéres

Méniéres sjúkdómurinn er mjög breytilegur sjúkdómur sem einkennist af kröftugum svimaköstum, eyrnasuði, heyrnarskerðingu og oft hljóðbrenglun. Sjúkdómurinn er mjög einstaklingsbundinn og birtist í ólíkum myndum hjá hverjum einstaklingi. Sjúkdómurinn er ýmist bundinn við annað eyrað eða bæði. Sjúkdómurinn er fremur sjaldgæfur.

Heyrnarhjálp

Hvað er vitað um sjúkdóminn?

Rannsóknir hafa enn ekki leitt í ljós hver sé hin raunverulega orsök sjúkdómsins. Þegar orsökin liggur ekki fyrir hefur það að sjálfsögðu afgerandi áhrif á möguleika til lækninga. Í dag er engin meðferð þekkt, sem gerir sjúklinginn fullkomlega heilbrigðan á ný.

Þó er hægt að draga mjög úr einkennum í sumum tilfellum og hjá einstaka sjúklingi getur maður að nokkru leyti hindrað köst. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hve einkenni sjúklinga eru misjöfn og einstaklingsbundin. Það sem hentar einum þarf alls ekki að nýtast öðrum. Meðan læknavísindin leita orsakanna, verða læknar og sjúklingar að reyna þau úrræði sem þekkt eru og hver einstaklingur verður að takast á við sjúkdóminn eftir bestu getu og finnar sínar leiðir til að “lifa með” honum.

Hvernig birtist Méniéres sjúkdómurinn?

Eins og fram kom hér að framan kemur sjúkdómurinn í köstum. Fyrsta kastið kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Yfir sjúklinginn steypist allt í einu mikill svimi, sjúklingurinn missir jafnvægisskinið og allt hringsnýst. Þessu fylgir ógleði, uppköst, suð fyrir eyrum og heyrn dofnar. Fólk fyllist ótta og þolir ekki sterk hljóð.

Köstin eru bráðaköst, sem gera ekki boð á undan sér. Enginn veit hvenær köstin koma eða hve lengi þau standa. Þetta hlýtur að ógna bæði sjúklingi og þeim sem verða vitni að kastinu. Oftast dettur fólki í hug alvarlegur heilasjúkdómur og fyrstu viðbrögð verða því að koma sjúklingi með hraði á sjúkrahús.

Sjúklingurinn heldur fullri meðvitund, blóðþrýstingur og hjartastarfsemi er eðlileg. Sjúklingurinn kastar gjarnan upp, honum líður mjög illa og hann þolir enga hreyfingu. Hver minnsta hreyfing skapar aukinn svima, eyrnasuðið er oftast afar óvægið og viðkomandi hefur tilfinningu fyrir því að í eyranu/eyrunum sé einhvers konar hnoðri, sem dregur úr heyrninni. Sársaukatilfinning kemur í eyru við allan snöggan hávaða.

Venjulega dregur úr kastinu smátt og smátt. Eftir nokkra tíma getur versti sviminn verið liðinn hjá, en eftir stendur daufari heyrn, sem venjulega jafnast eftir nokkurn tíma.

Litið er á Méniéres sjúkdóminn sem krónískan, köstin koma aftur og aftur og heyrnarskerðingin eykst við fleiri köst, sérstaklega skerðast dimmir tónar. Milli kastanna finnur fólk oft fyrir þrýstingi og „hnoðratilfinningu“ í eyra og eyrnasuði.

Eyrnasuðið skapar oft veruleg óþægindi, stundum svo mikil að fólk getur ekki stundað vinnu.

Spurningar og svör

Nei, sjúkdómurinn er í sjálfu sér ekki hættulegur, þó hann sé ógnandi. Aftur á móti getur kast, sem kemur við erfiðar aðstæður, valdið alvarlegum skaða eða slysi t.d. ef kast kemur þegar maður ekur bíl eða stendur í stiga.

 

Köstin eru ógnandi og mjög óþægileg fyrir sjúklingana. Þau skapa óöryggi og oft viðvarandi ótta við að fá nýtt kast. Traustið liggur í því að sjúkdómurinn er ekki banvænn og að kastið gengur yfir eftir nokkra tíma. Köstin geta varað frá hálf tíma og upp í 6-12 tíma eða jafnvel lengur.

Nei, það er ekki vitað. Þó virðast flest köst tengjast álagi og streitu. Þau koma gjarnan á tímabilum þegar álag er mikið, andlegt og líkamlegt. Nefna má dæmi um mikið vinnuálag, þar sem unnið er undir langvarandi tímapressu, þegar hljóðáreiti eru mikil og langvarandi eða heimilisárekstrar og sjúkdómar skapa álag á einstaklinginn. Köst hvers einstaklings tengjast ekkert frekar einu og sama áreitinu, heldur geta mismunandi áreiti komið köstunum af stað hjá sama einstaklingnum.

Méniéres sjúkdómur kemur yfirleitt fram hjá fullorðnu fólki á besta aldri, þ.e.a. segja á þeim aldri sem fólk almennt er á vinnumarkaði. Sjúkdómurinn er frekar sjaldgæfur og börn eða eldra fólk fá sjúkdóminn afar sjaldan. Reynt hefur verið að finna orsakir sem tengjast erfðum, atvinnu, fyrri eyrnasjúkdómum, hjarta- nýrna- og lifrasjúkdómum o.fl. Enginn bein tengsl við ofangreinda þætti hafa fundist.

 

Einstaka nýrri rannsóknir sýna þó að allt að 20% Méniéres sjúklinga geti bent til ættinga sem hafa eða hafa haft sjúkdóminn. Hvort hér er um að ræða tilviljanir varðandi úrtakið eða greinilega vísbendingu um erfðir, veit maður ekki.

Eins og áður er sagt er hin raunverulega orsök enn ekki fundinn. Þó hafa rannsóknir leitt menn nær svarinu. Vandamálið liggur í innra eyranu, í jafnvægis og heyrnarlíffærum.

 

Frakkinn Prosper Méniére lýsti þessum sjúkdómi fyrst árið 1861. Rannsóknir á orsökum Méniéres sjúkdóms hafa átt sér stað síðan. Rannsóknir hafa verið og eru verulegar.

 

Vísindamenn eru sammála um að orsakanna sé að leita í vökvakerfum innra eyrans, heyrnar- og jafnvægislíffærum. Rannsóknir benda til að sjúkdómurinn komi fram þegar truflanirnar verða á starfsemi þessara líffæra sem leiða til breytinga á vökvamagni eða efnasamsetningu (saltinnihaldi) vökvans í kerfunum. Þetta ójafnvægi leiðir til þess að líffæri innra eyrans senda röng boð til heilans. Mælingar sem gerðar hafa verið á sjúklingum sýna m.a. að Méniéres-kastið eykur vökvamagn í heyrnarlíffærinu. Rannsóknum hefur fleygt fram nú síðustu ár og beinast þær einkum að þessum vökvakerfum.

 

Enn er eftir að svara spurningum um hvort orsökin er of mikil framleiðsla á vökvanum, truflun á niðurbroti hans eða sveiflur í vökvamagninu. Flest bendir til að orsökin sé sú, að hárfínt efnafræðilegt jafnvægi vökvanna í eyranu brenglist.

Þar sem við þekkjum ekki orsök sjúkdómsins, þá þekkjum við heldur ekki lækningu við honum. Það er ekki þar með sagt að ekki sé mögulegt að draga úr einkennum hans.

 

Erfitt er að meta árangur meðferðar þar sem Méniéres sjúkdómurinn er sveiflukenndur sjúkdómur og óútreiknan-legur. Fólk getur fengið köstin mjög þétt í nokkrar vikur eða mánuði samfleitt og síðan getur dregið úr köstunum eða þau horfið mánuðum saman, jafnvel árum saman. Á þessum góðu tímabilum getur hvimleitt suðið, sem iðulega er viðvarandi milli kasta, einnig horfið að hluta eða alveg. Heyranartapið, sem er bein afleiðing kastanna, gengur aftur á móti ekki til baka.

 

Fyrsti og mikilvægasti hluti meðferðar er nákvæm rannsókn og greining á ástandi sjúklings. Fólk sem fær einkenni, sem líkjast Méiéres sjúkdómi ætti ekki að draga það að fara í rannsókn til háls- nef- og eyrnalæknis. Útiloka þarf alla aðra mögulega sjúkdóma sem geta gefið svipuð einkenni og Méniéres sjúkdómurinn og sjúkdómar sem geta haft áhrif á hann verða að meðhöndlast.

 

Rannsóknir sem þurfa að fara fram:

 

  • Nákvæm sjúkrasaga og læknisskoðun
  • Almenn rannsókn hjá háls- nef- og eyrnalækni
  • Heyrnarrannsókn (mæling m.m.)
  • Rannsókn á jafvægislíffærinu
  • Hugsanlegar aðrar rannsóknir að mati læknis.

Méniéres sjúkdómur greinist ef þessi einkenni eru til staðar:

 

  • Skyndileg svimaköst án sýnilegra orsaka
  • Sveiflukennd heyrnarskerðing
  • Eyrnasuð, sem kemur og fer, en verður stöðugt með tímanum.

Ef þessi einkenni eru ekki öll til staðar, telst sjúkdómurinn ekki vera Méniéres sjúkdómur, heldur er talað um að sjúlkingurinn sé með einkenni sjúkdómsins.

Ýmislegt hefur verið reynt til að draga úr einkennum sjúkdómsins með nokkrum árangri fyrir sjúklinga. Það sem er mikilvægast við greiningu sjúkdómsins er að sjúklingurinn fái haldgóðar upplýsingar um sjúkdóminn svo hann geti á sem bestan hátt sætt sig við hann og tekist á við hann. Sjúklingurinn verður að vera tilbúinn til að gera kröfur á sjálfan sig með tilliti til breyttra lífshátta bæði er varðar atvinnu og félagslíf.

 

Það er mikilvægt að ná góðu jafnvægi, jafnt líkamlega sem andlega. Reglubundið matarræði, svefntímar og aðrar venjur eru af hinu góða og forðast skal mikið álag. Aðlaga verður vinnuna að sjúkdómnum. Það er ekki alltaf gerlegt og þarf fólk því að vera undirbúið undir breytingar atvinnulega séð.

 

Þegar talað er um andlegt jafnvægi er átt við að sá sjúki verður að reyna að forðast átök og leitast við að vinna úr ágreiningi og árekstrum svo þeir valdi ekki óþarfa streitu. Hollt er að “vera góður við sjálfan sig” í hófi og sækja í aðstæður sem skapa vellíðan.

 

Líkamlegt jafnvægi næst m.a. með því gæta heilsu og stunda holla hreyfingu. Mikilvægt er að bregðast við einkennum um líkamleg vandamál og leita til lækins þegar þess er þörf. Neyta skal almennrar hollrar fæðu. Misnotkun á áfengi og tóbaki, svo og stress og ójafnvægi geta leitt til tíðari kasta. Fólk veður því að vera tilbúið til að velja rólegan og reglubundinn lífsstíl.

 

Lausnin felst ekki í því að setjast í helgan stein. Þvert á móti felst áskorun í því fyrir hvern og einn að skapa sér aðstæður þar sem tekið er tillit til sjúkdómsins og fyrrnefndra ráðlegginga, þannig að viðkomandi geti stundað vinnu og félagslíf sem hæfir honum og er honum viðráðanlegt.

 

Nokkur dæmi um mögulegar meðferðir til að draga úr óþægindum við sjúkdóminn:
Hvað hjálpar í sjálfu kastinu? Það sem hægt er að gera til að minnka óþægindi í sjálfu kastinu er að gefa lyf við svima og ógleði. Nokkuð úrval er að slíkum lyfjum. Lyfin eru til í töflum, stykkpillum og sprautum. Vatnslosandi lyf eru stundum gefin til viðbótar.

 

Lyf sem notuð hafa verið með nokkrum árangri: Almennt er hefð fyrir því að gefa sjúklingum ýmis lyf sem hafa vatnslosandi eiginleika. Það er vegna þeirrar þekkingar sem til er varðandi truflanir í vökvakerfum innra eyrans. Ýmis lyf hafa verið reynd og þá ýmist sem fyrirbyggjandi til að reyna að draga úr köstum og eins tímabundið þegar sjúkdómurinn gefur merki um virkni (aukið heyrnartap, aukið eyrnasuð eða svimaköst).

 

Skurðaðgerðir:

Það er ekki mikið um skurðaðgerðir vegna sjúkdómsins á Norðurlöndum. Árangur er nokkuð umdeildur og orsakar það mikla varfærni við skurðaðgerðir. Þegar einkennin eru óbærileg fyrir sjúkling, hefur þó verið gripið til skurðaðgerða, þegar allt annað hefur verið reynt.

 

Sjúkraþjálfun:

Sjúkdómurinn orsakar oft spennu í hnakka og öxlum, sem hefur í för með sér bólgur sem valda verkjum, einkum höfuðverk. Þjálfun hjá sjúkraþjálfara og daglegar æfingar létta á þessum óþægindum og öðrum stífleika sem oft kemur vegna vöðvaspennu tengdri sjúkdómnum.

 

Þrýstingsmeðferð:

Margar tilraunir hafa verið gerðar í þrýstitanki, bæði með undirþrýstingi og yfirþrýstingi. Engin tilraun hefur þó gefið sannanlegar niðurstöður. Þó er ljóst að sumum líður betur einhvern tíma eftir meðferð. Eins má benda á að sumum líður betur þegar þeir eru komnir í meira en 1000 metra hæð yfir sjó. Nokkur árangur hefur verið af því að setja rör í hljóðhimnuna til að létta á þrýstingnum.

 

Annað:

Stuðningsmeðferð hefur sýnt gildi sitt. Méniéres sjúkdómurinn, með svimaköstum, heyrnarskerðingu og eyrnasuði, getur kallað fram alls konar álagseinkenni. Þar má nefna einbeitingarskort, svefntruflanir, þreytu, minnkaða vinnugetu, þunglyndi, kvíða, vöðvaspennu og höfuðverk. Þess vegna getur verið nauðsynlegt að gefa veik róandi lyf og svefnlyf tímabundið. Samtalsmeðferð getur oft komið að góðu gagni og hjálpað sjúklingnum til að skipuleggja sig og draga úr álagi.

 

Líkamleg þjálfun og slökunartækni gefa oft betri líðan og betri svefn. Margir leita í óhefðbundin lyf, eða náttúrulyf, nálastungur og svæðameðferð og telja sig ná betri líðan og jafnvel varanlegri bót. Breytt mataræði hjálpar sumum og hafa hinir ýmsu kúrar verið settir saman og reyndir í því augnamiði að vinna á eða draga úr sjúkdómnum. Eins hefur verið kannað hvort lasergeislar og rafboð nýtast til meðhöndlunar. Allar þessar aðferðir teljast mögulegar til árangurs, þó ekki sé hægt að benda á vísindalegar rannsóknir sem sanna að svo sé. Einstaklingar verða sjálfir að meta hvað og hvort þeir reyna þessar aðferðir. Nauðsynlegt er að hafa samráð við sinn lækni, ef maður vill reyna slíkt.

Méniéres sjúkdómur er krónískur, þ.e. hann er alltaf til staðar, en þarf ekki alltaf að vera virkur. Köstin eru mjög breytileg og geta verið mjög þétt eða legið niðri í lengri tíma.

 

Venjulega þróast sjúkdómurinn þannig að hann “brennur út”. verður kraftminni og breytist oft með tímanum. T.d. geta svimaköstin minnkað verulega eða horfið að mestu en fylgikvillarnir, suðið, heyrnarskerðingin og viðkvæmni fyrir háum hljóðum verða frekar einkenni hans. Þessi einkenni geta líka dofnað verulega, þó það sé engin föst regla á því. Heyrnarskerðingin hefur yfirleitt tilhneigingu til að aukast, oft það mikið að, heyrnartæki verður nauðsynlegt. Bráð svimaköst (yfirleitt stutt) halda áfram að koma á seinni stigum sjúkdómsins hjá sumum sjúklingum.

 

Méniéres sjúkdómurinn leggst oftast á annað eyrað í byrjun, en það er fremur sjaldgæft að fólk fái sjúkdóminn í bæði eyrun. Sjúkdómurinn orsakar ekki algjört heyrnarleysi.

 

Méniéres sjúklingur getur undir flestum kringumstæðum verið virkur á vinnumarkaði og í félagslífi, ef hann tekur tillit til sjúkdómsins, virkjar viljann og orkuna sem hann býr yfir til að finna það lífsform sem hann ræður við.

Grein: Málfríður Gunnarsdóttir.

Heimildir:
MORBUS MÉNIÉRE, PASIENTINFORMASJON-HLF
Dr.med.Atle Rønning Arnesen
Gögn frá Méniére og Tinnitus Symosium 1999.
Fyrirlestur frá Aðalfundi Heyrnrhjálpar 2000- MG.

Scroll to Top