Dagur heyrnar

 Dagur heyrnar, Mikilvægi öruggrar hlustunar og heyrnarverndar.

Heyrnarhjálp er landssamtök þeirra sem eru heyrnarskertir, hafa misst heyrn að hluta eða alveg, þeirra er þjást af eyrnasuði og öðrum vandamálum er snúa að heyrn. Að félaginu koma líka aðstandendur og aðrir áhugamenn um málefni heyrnaskertra. Félagið berst fyrir réttindum heyrnarskertra og helsta baráttumál félagsins síðustu ár hefur verið TEXTUN en heyrnarskertir eiga erfitt með að njóta t.d. íslensks sjónvarpsefnis ef texti fylgir ekki. Því er mikið jafnréttismál að tugþúsundum heyrnarskertra sé tryggður aðgangur að öllu menningar- og fréttaefni sem sjónvarpsstöðvar hafa upp á að bjóða. Félagið berst einnig fyrir ritúlkún sem margir heyrnarskertir hafa mikið gagn af og gefur þeim tækifæri til hnökralausra samskipta.

Alþjóða Heilbrigðismálastofnunin WHO fagnar 3.mars á ári hverju degi heyrnar sem vekur athygli á mikilvægi heyrnar sem skynfæris og undirstöðu tjáskipta. WHO lagði á síðasta ári fram skýrslu, World Hearing Report, sem beinir því til aðildarríkja sinna að vinna að aukinni heyrnar-heilsugæslu fyrir þegna sína.

Heilbrigðisyfirvöld hunsa heyrnarfötlun

Því er sárt að sjá að íslensk stjórnvöld hunsa eina algengustu fötlun hér á landi. Heyrnarskerðing hefur áhrif á líf og lígsgæði um 20 þús Íslendinga, sem þurfa á heyrnarbætandi aðgerðum að halda og aðgengi að þjónustu heyrnarfræðinga, lækna og þjónustu heyrnartækjaframleiðenda.

Nú er svo komið að varla er hægt að komast að hjá einu ríkisstofnuninni sem ber að sinna heyrnarskertu fólki á Íslandi. Biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands eru svo langir að félagsmenn Heyrnarhjálpar kvarta undan því að það hafi þurft að bíða í tæpt ár eftir að komast í heyrnarmælingar og endurnýjanir heyrnartækja hjá stofnuninni!

Stofnunin kveðst vera undir miklu álagi, ásókn í þjónustu eykst ár frá ári en hvorki fáist fjármagn til reksturs né til að ráða inn fleira sérmenntað fólk.
Heyrnarhjálp krefst þess að íslensk heilbrigðisyfirvöld geri nú alvöru átak til þess að tryggja heyrnarskertum Íslendingum nútíma heyrnarþjónustu í takt við aðrar Evrópuþjóðir.

Halla B Þorkellsson, formaður Heyrnarhjálpar

 

Scroll to Top