Nýr starfsmaður Heyrnarhjálpar

Nýr starfsmaður hefur verið ráðinn til að sjá um sérstakt tímabundið verkefni sem við ráðumst nú í hér hjá Heyrnarhjálp.

Sigríður Fossberg Thorlacius, sem jafnframt er formaður Málbjargar, ætlar að vinna rannsóknarvinnu fyrir okkur og sækja upplýsingar sem nýtast til að móta heilstæða stefnu fyrir þá sem eru heyrnarskertir á Íslandi.
Gerð verður könnun á viðhörfum þeirra sem búa við skerta heyrn og eins á stefnum systurfélaga okkar á Norðurlöndunum heilt yfir.

Við bjóðum Sigríði hjartanlega velkomna til starfa.

Lokað miðvikudaginn 29.5 2019

Skrifstofa okkar verður lokuð á morgun miðvikudaginn 29. maí

Það er reyndar lokað líka á fimmtudaginn 30. en þá er uppstigningadagur og svo er alltaf lokað á föstudögum hjá okkur.

Ef er erindið er brýnt þá er velkomið að hringja í síma 8666444.

Besta kveðja
Kolbrún

Málþing ÖBI um heilbrigðismál – rittúlkun


Þjónusta í þróun – hvað gerir heilsugæslan fyrir þig?

Málþing þriðjudaginn 7. maí, kl. 15-18 á Grand hótel.

Breytingar standa yfir á heilsugæslunni, sem á að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Heilsugæsluþjónusta er nú örorkulífeyrisþegum að kostnaðarlausu, en hvaða þjónusta stendur þeim til boða?

Það á að efla teymisvinnu, með m.a. heimilislæknum, hjúkrunarfræðingum, iðjuþjálfum og sálfræðingum, en hver er staðan? Hvað er gert til að stytta biðtíma? Hvað er gert til að auka sjúklingum yfirsýn yfir sín mál? Hvert er aðgengið að sálfræðiþjónustu? Hvaða ráð eru um hreyfingu og mataræði? Hvernig virkar tilvísanakerfið að sérfræðingum? Hvers er að vænta?

Drög að dagskrá:

Athugið breyttan tíma!

15:00 – 15:10     Ávarp fundarstjóra

15:10 – 15:25    Heilsugæslan – hlutverk og þróun.
Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

15:25 – 15:45     Heilsuvera. Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur

15.45 – 16.05    Heilbrigður lífsstíll. Hjúkrunarfræðingur HH

16:05- 16:25      Hreyfiseðlar  – allir með! Auður Ólafsdóttir sjúkraþjálfari HH

16:25 – 16:45     Kaffi

16.45 – 17.05     Geðteymi heilsugæslunnar. Hrönn Harðardóttir teymisstjóri, Geðteymi vestur og ngólfur Sveinn Ingólfsson geðlæknir

17:05 – 17:25     Heilbrigð sál…..Óttar G Birgisson sálfræðingur heilsugæslu Seltjarnarness

17:25 – 17:45     Gagnleg og góð þjónusta – eða hvað? Notandi (reynslusaga um árangur) NN

17:45 – 18:00    Væntingar til heilsugæslunnar í nútíð og framtíð. Samantekt fundarstjóra

180:00               Ráðstefnuslit

 

Allir velkomnir!

Boðið er upp á rittúlkun, en ekki táknmálstúlkun.

Skráning á obi@obi.is

Sumarstarf – Verkefnavinna

Heyrnarhjálp leitar að sumarstarfsmanni  í fullt starf til að hafa verkefna- og ritstjórn með mótun stefnu Heyrnarhjálpar varðandi stuðning við heyrnarskerta. Á verksviði starfsmanns verður m.a. öflun gagna, verkefna- og ritstjórn með gerð uppkasts að stefnu Heyrnarhjálpar í samvinnu við stjórn, öflun umsagna meðal félagsmanna Heyrnarhjálpar og tengdra hagsmunafélaga og kynning á niðurstöðum.

Umsækjandi þarf að hafa lokið grunnnámi á háskólastigi, vera skipulagður og vel ritfær og fær í mannlegum samskiptum.

Staðan er laus frá miðjum maí eða eftir nánara samkomulagi.

Launakjör eru samkvæmt samkomulagi.

Umsóknir á Alfred.is

Aðalfundur Heyrnarhjálpar 28. mars kl 20:00


Aðalfundur heyrnarhjálpar – félags heyrnarskertra á Íslandsi -verður haldinn fimmtudaginn 28. mars 2019 í Safnaðarheimili Langholtskirkju kl 20:00.

Venjuleg aðalfundarstörf
Lagabreytingar
Önnur mál

Fundurinn er rittúlkaður og boðið upp á kaffi og meðlæti.
Allir hjartanlega velkomnir sem áhuga hafa á okkar málefnum.

Stjórnin

Lokun skrifstofu til 8. mars


Skrifstofa Heyrnarhjálpar verður lokuð vegna sumarleyfis starfsmanns frá 19. febrúar til og með 7. mars en nú er það Flórida og golfiðkun þar sem er á döfinni.
Ef erindið er brýnt má senda sms í síma 8666444 eða senda póst á kollastebba@simnet.is
Ég vona að veðurfarið verði milt og fallegt hér heima á meðan.
Besta kveðja
Kolbrún Stefánsdóttir

Ungmennaþing ÖBI

Auglýsing frá ÖBI sem vert er að vekja athygli á.

Tímabundin hlutastörf hjá ÖBI


Öryrkjabandalag Íslands auglýsir eftir tveimur starfsmönnum í tímabundin hlutastörf við átaksverkefni á sviði aðgengismála á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Samanlagt er gert ráð fyrir 100% starfshlutfalli sem skiptist á milli starfsmanna eftir samkomulagi. Átaksverkefnið mun standa yfir í sex mánuði.
Fatlað fólk/fólk með skerðingar er sérstaklega hvatt til að sækja um.

Ítarleg auglýsing hefur verið birt á vef ÖBÍ (https://www.obi.is/is/utgafa/frettir/adgengisatak-obi) og munu auglýsingar jafnframt birtast í blöðum um helgina auk þess sem henni verður dreift á Facebook síðu ÖBÍ.

 

 

 

Ingimar Karl Helgason, samskiptastjóri

Öryrkjabandalag Íslands

Sigtúni 42

105 Reykjavík

www.obi.is

Gsm. 659-3442

Netfang: ingimarkarl@obi.is

Ósk um nýtt embætti

Þessi póstur er tekinn af heimasíðu ÖBI 10. janúar þegar formaður ÖBI, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, og formaður Þroskahjálpar, Bryndís Snæbjörnsdóttir, hittu forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, að máli og lögðu fram kröfur um embætti umboðsmanns fyrir öryrkja og langveika.
*****
UMBOÐSMAÐUR FATLAÐS- LANGVEIKS FÓLKS
ÖBÍ leggur til að sett verði á fót embætti Umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks. Formleg tillaga um þetta var lögð fram á fundi formanna ÖBÍ, Þroskahjálpar og forsætisráðherra sem haldinn var í morgun.

Mannréttinda sé gætt

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, afhenti Katrínu Jakobsdóttur skriflega tillögu um embættið, hlutverk þess og verkefni. Samkvæmt tillögunni yrði hlutverk umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks að taka við erindum frá einstaklingum og fella úrskurði út frá gildandi lögum, sem væru til grundvallar skaðabótamála ef ekki er brugðist við. Þá hefði embættið það hlutverk að benda stjórnvöldum á gloppur í íslenskri löggjöf um mannréttindi út frá skuldbindingum alþjóðasáttmála.

Grundvallarmarkmið í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er viðurkenning á rétti fatlaðs fólks til að njóta sömu mannréttinda og aðrir samfélagsþegnar og skyldu aðildarríkjanna til að tryggja þau. Embætti umboðsmanns fatlaðs fólks og sjúklinga væri liður í innleiðingu og lögfestingu SRFF.

Fram kemur í tillögu ÖBÍ að sams konar embætti eru starfrækt annars staðar á Norðurlöndunum. Mikilvægt sé að svona embætti verði sett á stofn hérlendis sem fyrst enda hljóti það að vera vilji stjórnvalda að tryggja réttindi þessa hóps og standa þar með jafnfætis þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við.

Undarleg vegferð

Þuríður Harpa og Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, ræddu ítarlega um kjaramálin á fundinum með Katrínu. Meðal annars var farið yfir fjárlagafrumvarp ársins, fyrirhugaðar breytingar á almannatryggingakerfinu, krónu-á-móti-krónu skerðinguna, SFRR og vinnumarkaðinn og fatlað fólk.

Bent var á að fjárlagafrumvarp þessa árs hefði valdið Öryrkjabandalaginu vonbrigðum. Ljóst væri að kjör öryrkja myndu ekki batna að raungildi í ár. ÖBÍ og Þroskahjálp fagna hækkun atvinnuleysisbóta, en benda á um leið á að þær hækkuðu langt umfram bætur lífeyrisþega. Það væri umhugsunarvert á hvaða vegferð ríkisstjórnin væri þegar svo augljóslega og freklega væri gengið framhjá lífeyrisþegum almannatrygginga.

Þvingunartaktík stjórnvalda

Þuríður Harpa og Bryndís bentu jafnframt á að stórkostlegur niðurskurður á fyrirhugaðri aukningu á framlögum til málaflokksins væri slæmur. Búið var að lofa fjórum milljörðum króna, jafnt í fjármálaáætlun sem lögð var fram síðasta vor, sem og í því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi í haust. Þessi breyting ein leiðir til þess að öryrkjar á Íslandi verða af ellefu hundruð milljónum króna á árinu 2019 eða sem svarar 55 þúsund krónum að meðaltali á hvern einstakling á ári. Að halda því fram að þetta hafi verið gert vegna vinnu starfshóps sem samtök okkar hafa í góðri trú tekið þátt í stenst enga skoðun. Það er því engin furða að mjög margir öryrkjar telji að stjórnvöld vilji með þessu þvinga þá til að samþykkja nýtt kerfi um starfsgetumat.

Þá er það, að mati samtaka okkar, Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar, mjög mikið áhyggju- og umhugsunarefni að í allri umræðunni um skerðingar, fjölgun öryrkja og hugsanlega nýtt matskerfi hefur að mestu gleymst að ræða megintilgang almannatrygginga sem er að tryggja framfærslu þess hóps sem vegna fötlunar eða langvarandi sjúkdóma getur ekki séð sér farborða.

Órétt þarf að bæta

Á fundinum í morgun lögðu Þuríður Harpa og Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, einnig fram minnisblað um vistun fatlaðs fólks á stofnunum og ræddu við forsætisráðherra um skyldur stjórnvalda til að bregðast við því sem fyrir liggur um þau mál með viðeigandi hætti sem og að bæta þeim sem urðu fyrir órétti eftir því sem mögulegt er.

 

Gleðilegar fréttir frá RÚV


Nú voru að  berast góðar fréttir frá RÚV.

Nú á að vera hægt frá 18. desember að nálgast allt íslenskt efni sem hefur verið for-textað með íslenskum texta á vef RÚV.

Næsta og síðasta skrefið hjá RÚV er að texta efni sem sent er beint út með sama hætti.

Þetta eru gleðifréttir og við förum bjartsýn inn í jólahátíðina með væntingar í brjósti um góða samvinnu á næsta ári.

Stjórn Heyrnarhjálpar fagnar þessum áfanga og óskar lesendum og félagsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári um leið og við þökkum stuðning og samvinnu á árinu.