Við leitum sérfræðinga meðal fatlaðra barna og unglinga

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að börn og unglingar eiga rétt á að láta skoðun sína í ljós og segja hvað þeim finnst. Þess vegna ætlar umboðsmaður barna að vera með sérfræðihópa fatlaðra barna og unglinga.
Þetta er gert til að umboðsmaður fái upplýsingar um það sem fötluðum börnum og unglingum finnst mikilvægt og til að fá ábendingar þeirra og tillögur um það sem má gera betur.
Við erum að leita eftir þátttakendum í sérfræðihópana, strákum á aldrinum 12 til 15 ára og stúlkum á aldrinum 15 til 18 ára.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt eða ef þú vilt fá frekari upplýsingar um verkefnið hafðu þá samband við Hrafnhildi Snæfríðar- og Gunnarsdóttur, verkefnastjóra, í síma 525-4176 / 694-3264 eða sendu vefpóst á hsg@hi.is.
Einnig er hægt að hafa samband við umboðsmann barna í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer) eða með tölvupósti a ub@barn.is.

 

Áskorun ÖBI á Alþingi Íslendinga


Stjórn Öryrkjabandalags Íslands samþykkir að ganga til aðgerða til að fá  „krónu á móti krónu“ skerðinguna afnumda og ná aftur fjármunum sem teknir hafa verið af fólki vegna hennar.

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands samþykkti samhljóða á stjórnarfundi í gær 11. september að fela lögmanni sínum að hefja innheimtuaðgerðir gegn Tryggingastofnun ríkisins/íslenska ríkinu, vegna bótaflokksins sérstök framfærsluuppbót. Í þessu felst að lögmanni ÖBÍ er heimilt að beita þeim innheimtuaðgerðum  sem nauðsynlegar eru til árangurs, þ.m.t. að höfða mál fyrir dómstólum ef þörf krefur.

Haustið 2008 setti þáverandi félagsmálaráðherra reglugerð um nýjan bótaflokk, sérstaka framfærsluuppbót, sem festur var í lög frá Alþingi árið 2009. Uppbótin náði frá upphafi jafnt til örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega. Uppbótin skerðist um „krónu á móti krónu“ sem gerir það að verkum að aðrar tekjur lífeyrisþegans gagnast honum ekki sem viðbót. Með lögum frá Alþingi sem tóku gildi 1. janúar 2017 var þessi bótaflokkur felldur niður hjá ellilífeyrisþegum og upphæð hans færð inn í bótaflokk sem heitir ellilífeyrir. Með því var „krónu á móti krónu“ skerðingin afnumin hjá ellilífeyrisþegum. Örorkulífeyrisþegar voru aftur á móti skildir eftir og fengu ekki þá ívilnun sem fólst í lögunum.

„Króna á móti krónu“ skerðingin var upphaflega eins hjá báðum hópum. Við setningu laganna sem tóku gildi 1. janúar 2017, var ekki rökstutt hvers vegna löggjafinn taldi málefnalegt og sanngjarnt að öryrkjar fengju ekki þá réttarbót sem fólst í lögunum. Við setningu laganna var ekki byggt á því að aldraðir væru verr settir en öryrkjar né aðrar málefnalegar ástæður settar fram sem réttlættu að skerða áfram bætur örorkulífeyrisþega. Í rökstuðningi við frumvarpið sem varð að lögum sagði meðal annars að ætlunin væri að styrkja möguleika ellilífeyrisþega til þess að auka tekjur sínar. Engin rök voru færð fyrir því að neita örorkulífeyrisþegum um sömu tækifæri.

Í þessu er fólgin mismunun. Frá 1. janúar 2017 hafa örorkulífeyrisþegar orðið af umtalsverðum fjármunum þegar litið er til sambærilegra hópa. Hjá mörgum þeirra getur skerðingin numið um 60.000 kr. á mánuði eða meira.

Hér er hallað á verulega stóran hóp en upp undir sjö þúsund einstaklingar eru skertir um „krónu á móti krónu“ vegna atvinnutekna, lífeyrissjóðstekna eða fjármagnstekna.

Ætla má að ríkissjóður taki með þessum hætti til sín tæplega fjóra milljarða króna á ári úr vösum öryrkja. Stjórn ÖBÍ minnir á að allt launafólk er skyldugt til að borga í lífeyrissjóð. Því má spyrja hvort hér sé um að ræða beina eignaupptöku í mörgum tilvikum.

Ef til dómsmáls kemur mun reyna á Stjórnarskrá Íslands og alþjóðasáttmála sem Ísland er aðili að, meðal annars samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Áhugavert verður að sjá hvort dómstólar veita samningnum það vægi sem honum er ætlað að hafa sem grunnur að réttindum fatlaðs fólks.

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands skorar á Alþingi að bregðast strax við og setja sérstaka framfærsluuppbót inn í bótaflokkinn tekjutryggingu og leiðrétta þá mismunun sem örorkulífeyrisþegar hafa orðið fyrir frá 1. janúar 2017.

Það yrði mikilvægt skref stjórnvalda til að sýna almenningi í landinu að þau vilji vinna að því að útrýma fátækt í samfélaginu. Slík viðleitni yrði jákvæð fyrir lífskjarabaráttu fjölda fólks og til þess fallið að leggja grunn að trausti.

Ekkert um okkur án okkar!

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands

 

Halló Selfoss


Norræn ráðstefna 30 ágúst til 2. sept.

Nú er framundan Norrænir þemadagar og aðalfundur hjá NHS, Nordiska Hörselskadades Samarbetskommitté.

Ráðstefnan fer fram á Hótel Selfoss og er öll þjónusta sótt þangað.

Við vonum að veðrið verði þátttakendum ásættanlegt og jafnvel meira en það, þrátt fyrir hraklega veðurspá.

Við munum byrja á að kynnast sögu staðarins og því sem þar er markvert að sjá og verður kynningarferð farin með leiðsögumanni og sér Guðmundur Tyrfingsson ehf um þá ferð eins og aðra flutninga til og frá.

Síðan verður ráðstefnudagur á föstudaginn og aðalfundur á laugardag.
Ráðstefnan er lokuð nema fyrir þátttakendur innan systursamtakanna og sérstaka gesti.

Viltu þú vera með okkur í liði

Nú eru margir farnir að æfa sig fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem haldið verður í Reykjavík 18. ágúst.

Þeir sem vilja hlaupa til að vekja athygli á starfsemi Heyrnarhjálpar geta farið inn á Hlaupastyrkur.is og skráð sig þar.

Einnig er hægt að styrkja þá sem þegar hafa skráð sig til leiks.

Unnar Sigurðsson sem hleypur fyrir okkur er með skráningarnúmer #3774

Endilega takið þátt með einhverjum hætti og við erum þakklát fyrir stuðning og hvatningu.

Frændur okkar Færeyingar

Langar þig til Færeyja?

Ég er 28 ára gamall Færeyingur og er með vöðvarýrnun og þess vegna í hjólastól.

Ég syng með æskulýðskór sem heitir X-perimenter og er að fara halda tónleika í Reykjavík 17. – 20. ágúst.

Er einhver sem vill leigja mér íbúð eða hafa íbúðaskifti við mig þessa daga, í um það bil eina viku.

 

Ég bý sjálfur í glænýrri 80 fm íbúð fyrir fatlaða í Torshavn, með öllum hentugleikum svo sem lyftu, sjúkrarúmi, interneti, sjónvarpi, tölvu o.fl. Í íbúðinni eru tvö svefnherbergi, stórt wc með lyftu.

Íbúðin er í Torshavn og er vel staðsett, með fallegu útsýni.

Ef þörf er á auka hjálpartækjum, er hægt að setja sig í samband við Hjálpartólamiðstøðina hér í Færeyjum.

 

Bestu kveðjur,

Róar Terjason Hansen

Email: roar554@hotmail.com

Sími: +298 223704

Lokun skrifstofu


Skrifstofa Heyrnarhjálpar verður lokuð vegna sumarleyfis starfsmanns frá 1. júní til 2 júlí.

Ef erindið er brýnt þá vinsamlegast hringið í síma 8666444

Njótið sumarsins kæru félagsmenn og velunnarar sem og aðrir sem heimsækja síðuna okkar.

Með sumarkveðju
Kolbrún

Stöndum saman. Þá vinnst sigur!

 

 

 

 

Nú minnir ÖBI á baráttudag verkalýðsins 1. maí.

Við stöndum saman í harðri kjarabaráttu: Baráttu fyrir hagsmunum og réttinum fatlaðs fólks.
Þessi barátta fer ekki bara fram á fundum eða fyrir einstaka félaga, heldur einnig úti í samfélaginu.

Við höfum séð að þátttaka og virkni félaga og fólks um allt samfélagið er mikil á samfélagsmiðlum. Sömuleiðis er fólk duglegt að mæta í fjölmiðla og miðla af reynslu sinni.

Við þurfum að stíga viðbótarskref núna 1. maí: Mæta í kröfugönguna!

Öryrkjabandalag Íslands stendur fyrir göngu niður Laugaveg (sem verkalýðsfélögin fara fyrir). Við höfum látið útbúa kröfuspjöld, forgönguborða og útvegað regnslár ef veðurguðir verða ekki í sínu besta skapi. Það er mikilvægt að við mætum sem flest. Allir sem vettlingi geta valdið verða að mæta. Við þurfum að vera sýnileg og við þurfum að taka pláss! 1. maí er okkar dagur rétt eins og annarra. Við skulum gera hann að okkar!

Það er í mörg horn að líta. Við verðum með skemmtilegan viðburð á Lækjartorgi þegar gangan fer þar hjá. Þar vantar alltaf fólk til að létta undir eða taka að sér einföld verkefni. Eins er með gönguna. Við leitum að sjálfboðaliðum til að bera forgönguborðann, kröfuspjöldin, og fyrst og fremst mæta! Mæta svo allir sjái hvað við erum sterk og öflug heild sem stendur sameinuð í okkar mikilvægu baráttu.

Við hittumst við Hlemm uppúr klukkan eitt. Gangan fer af stað klukkan hálftvö. Svo verðum við með viðburðinn á Lækjartorgi þegar gangan kemur þangað. Þeir sem ekki komast í gönguna mega endilega koma á torgið 😊

Hér er tengill á hvatningargrein á vef ÖBÍ. https://www.obi.is/is/utgafa/frettir/verum-synileg-tokum-plass

Hér er svo tengill á viðburð um kröfugönguna 1. maí: https://www.facebook.com/events/778273255710632/

Stöndum saman. Þá vinnst sigur!

 

Ingimar Karl Helgason, samskiptastjóri

Öryrkjabandalag Íslands

Sigtúni 42

105 Reykjavík

www.obi.is

Gsm. 659-3442

Netfang: ingimarkarl@obi.is

Lokun skrifstofu

Nú er 1. maí á þriðjudegi og því verður skrifstofa Heyrnarhjálpar lokuð þá.
Á mánudeginum 30. apríl verður lokað vegna sumarleyfis starfsmanns.
Síminn 8666444 verður auðvitað opinn nema rétt á meðan verið er að keppa í Öldungamótinu á Akureyri en það verður hringt til baka að loknum leik.

Með ósk um góða daga og gleðiríkt sumar.

Lokað vegna sumarleyfis

Skrifstofa Heyrnarhjálpar verður lokuð vegna sumarleyfis starfsmanns frá 9. apríl til 18. apríl.
Opnað aftur 23 apríl kl 9:00
Ef erindið er brýnt má hringja í síma 8666444

Hafið það gott á meðan
kveðja

Kolbrún

 

Sumarskóli um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á Írlandi

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) veitir nokkrum félagsmönnum aðildarfélaga sinna styrk til þátttöku í sumarskóla um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Sumarskólinn verður haldinn dagana 18. til 22. júní 2018 í National University of Ireland, Galway (NUIG), á vesturströnd Írlands. ÖBÍ skorar á félagsmenn aðildarfélaga sinna að sækja um styrk til ferðarinnar. Þeir sem hljóta styrk þurfa að vera tilbúin til að nýta sér þekkingu sína á SRFF í baráttunni innan síns aðildarfélags og/eða ÖBÍ.

 

Um sumarskólann

Markmið sumarskólans er að þátttakendur öðlist innsýn í SRFF og góða færni til að nýta sér efni hans. Kennarar, leiðbeinendur og fyrirlesarar sumarskólans koma víða að og eru m.a. fatlað fólk, aktívistar, fræðimenn og stjórnmálafólk. Allir þekkja vel til réttinda fatlaðs fólks og hafa annað hvort komið að gerð SRFF og/eða eru þekktir baráttumenn ásamt því að vera stjórnvöldum aðildarríkja SRFF innan handar við innleiðingu samningsins.

 

Nemendahópurinn er breiður og samanstendur að jafnaði af einstaklingum frá öllum heimsálfum sem allir eiga það sameiginlegt að vilja gera betur í réttindamálum fatlaðs fólks og skapa gott tengslanet. Sumarskólinn gerir engar kröfur um þekkingu á samningnum og býður alla velkomna. Í fyrra sóttu um 230 nemendur sumarskólann og má með sanni segja að sumarskólinn sé einn stærsti viðburður sinnar tegundar sem haldinn er ár hvert.

 

Dagskrá sumarskólans 2018

Líkt og í fyrri sumarskólum er almenn kynning á ákvæðum samningsins, réttindum sem í honum felast og hvaða þýðingu hann hefur fyrir fatlað fólk. Meginþema sumarskólans í ár verður á margþætta samtvinnun (e. intersectionality) á öllum sviðum varðandi fatlaðar konur, fötluð börn og fatlað eldra fólk.

 

Um styrk ÖBÍ

Styrkur ÖBÍ miðast við að greidd verði námskeiðsgjöld, ferðakostnaður og gisting sem samsvarar kostnaði við gistingu á háskólasvæðinu (Campus). Jafnframt er kostnaður greiddur vegna aðstoðarmanns fyrir þá sem þurfa á því að halda.

 

Umsóknir skulu berast í síðasta lagi 19. mars næstkomandi til móttöku ÖBÍ á netfangið mottaka@obi.is á viðeigandi eyðublaði.

 

Undirbúningsnámskeið fyrir styrkþega

Styrkþegum gefst kostur á að sækja stutt kynningarnámskeið á grunnþáttum og hugtökum SRFF áður en sumarskólinn verður haldinn. Dagskrá og dagsetning verður auglýst síðar.

 

Nánari upplýsingar

Þórný Björk Jakobsdóttir veitir nánari upplýsingar á netfanginu thorny@obi.is og í síma 530 6700. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar um sumarskólann á heimasíðu Centre for Disability Law and Policy, National University of Ireland, Galway.

http://nuigalway.ie/centre-disability-law-policy/internationaldisabilitylawsummerschool/