Frestun á KVAM námskeiði!

Vegna aðstæðna í samfélaginu þarf að fresta valdeflingarnámskeiði KVAM til loka mars mánaðar. Nánari upplýsingar verða færðar inn á heimasíðuna þegar nær dregur. Við viljum vekja athygli á því að örfá pláss eru laus og hvetjum við unga félagsmenn til að sækja um sem fyrst, enda um að ræða framúrskarandi námskeið!

Nýársóskir frá okkur í Heyrnarhjálp!

Stjórn Heyrnarhjálpar óskar öllum félagsmönnum og velunnurum sínum gleðilegs nýs árs með ósk um farsælt komandi ár. Við þökkum innilega fyrir það liðna og hlökkum til að hefja nýtt ár af krafti.

Einnig viljum við benda öllum á að passa upp á heyrnina sína í sprengingunum og gamlárskvöldarlátunum en eins og við í félaginu vitum svo vel þá er heyrnin verðmæt!

 

Mynd tekin af Sigfúsi Sigfúsarsyni af Húsavíkurhöfn og birt með góðfúslegu leyfi hans.

Andlát: Guðjón Ingvi Stefánsson fv. formaður Heyrnarhjálpar

Guðjón Ingvi Stefánsson fyrrum formaður Heyrnarhjálpar lést 4 desember s.l . Útför hans fer fram frá Bústaðarkirkju föstudaginn 17. desember kl. 13:00.

Við hjá Heyrnarhjálp þökkum innilega fyrir allt það mikla og góða starf sem Guðjón Ingvin gerði fyrir félagið. Sjálfboðaliðar skipta sköpum fyrir félagasamtök eins og Heyrnarhjálp og  Guðjón var einn þeirra sem áttu stóran þátt í því að koma því í núverandi mynd og á fyrir það mikið þakklæti skilið. Hann var ávallt með velferð þess að leiðaljósi og var einn af burðarstoðum þess. Það er því með sorg í hjarta sem við þökkum honum fyrir í síðasta sinn og kveðjum þennan merka mann.

 

Valdefling og leiðtogaþjálfun

Félagsmönnum Heyrnarhjálpar á aldrinum 18-35 ára stendur til boða spennandi námskeið hjá KVAM Valdefling og leiðtogaþjálfun sem haldið verður í febrúar 2022  í samstarfi við ÖBÍ. Senda þarf ósk um þátttöku á  heyrnarhjalp@heyrnarhjalp.is

Þetta er frábært tækifæri og skorum við á félagsmenn að nýta þetta frábæra tækifæri. Hér er linkurinn á námskeiðið með nánari upplýsingum. https://kvan.is/events/valdefling-og-leidtogathjalfun-obi-og-kvan/

Heyrnarhjálp hefur flutt starfsemi sína í Ármúla 6.

Við biðjum félagsmenn að hringja á undan sér þegar þeir sækja skrifstofuna heim.

Sama símanúmer og áður: 551 5895.

Óskum ykkur ánægjulegrar aðventu og hvetjum alla til að fara að sóttvörnum og einnig biðlum við til fullheyrandi að sína heyrnarskertum tillitsemi og ekki síst núna þegar grímuskylda er.  Margir eru að versla inn fyrir jól og við hvetjum afgreiðslufólk til að sína heyrnarskertum tilitsemi og tala skýrt.

Ný íslensk kvikmynd “Leynilögga” sýnd með íslenskum texta

Það gladdi okkur mikið hjá Heyrnarhjálp þegar okkur var tjáð að nýja íslenska myndin Leynilögga yrði sýnd með íslenskum texta  í Sambíóunum Álfabakka, Akureyri og Keflavík dagana 19. nóv til 9. des. Við hvetjum félaga okkar að nýta tækifærið og fara í bíó!

Við þökkum Pegasus og Sambíóunum kærlega fyrir að brjóta múra í aðgengismálum heyrnarskerta.

Hér er linkur á lýsingu á myndinni fyrir áhugasama: Leynilögga

 

 

Heyrnarhjálp leitar að starfsmanni í hlutastarf

Stjórn Heyrnarhjálpar tók nýverið þá ákvörðun að ráða inn verkefnastjóra í hlutastarf á skrifstofu félagsins. Viðkomandi þarf að búa yfir góðum samskiptarhæfileikum, hafa reynslu af félagsstörfum og æskilegt er að hann/hún þekki til þess umhverfis sem heyrnarskertir á Íslandi búa við. Möguleikar eru á auknu starfshlutfalli í framtíðinni en starfið er í mótun og gert er ráð fyrir því að það þróist í samvinnu við starfsmanninn.

Hæfniskröfur:

  • Gott vald á íslensku, ensku og einu norðurlandamáli
  • Góð tölvufærni ásamt færni í textavinnslu fyrir samfélagsmiðla félagssins
  • Ríkir samskiptahæfileikar
  • Skipulagshæfni
  • Reynsla af félagsmálum er mikill kostur

Við hvetjum alla þá sem hafa áhuga á því mikilvæga starfi sem Heyrnarhjálp vinnur til að sækja um og umsóknarfrestur er til 1. nóvember.

Umsóknir og allar fyrirspurnir skulu berast til formanns Heyrnarhjálpar, Höllu B. Þorkelsson, á netfangið: thorkelsson13@gmail.com